— Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Óánægja er í hópi hestamanna á höfuðborgarsvæðinu með þá ráðstöfun sveitarfélaga að banna að skít undan klárum þeirra megi nýta sem áburð við uppgræðslu lands. Skítinn, sem sumum þykir þekkilegra að kalla tað, þarf nú að fara með til förgunar hjá Sorpu í Álfsnesi og borga þar 25,68 kr. í móttökugjald fyrir hvert kíló. Sum sveitarfélögin innheimta gjald í gegnum fasteignafélög. Í öðrum tilvikum þarf að borga tollinn þegar komið er með taðið í móttökustöð.

Íþyngjandi gjöld og margir hætti í hestamennsku

„Hingað til hefur hrossatað verið skilgreint sem uppgræðsluefni og þekur flestöll svæði í kringum höfuðborgina. Meðal annars hefur Heiðmörkin verið grædd upp með hrossataði, sem nú virðist vera flokkað sem efni sem ekki þykir boðlegt neins staðar,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, formaður Landssambands hestamannafélaga, í samtali við Morgunblaðið.

Á sameiginlegum vettvangi hestamannafélaga hefur verið myndaður starfshópur sem ætlað er að herja á sveitarfélögin til þess að finna lausn á þessu máli. Mikið þykir vera í húfi og málið er víða rætt; svo sem við stíur og í hlöðum og kaffistofum hesthúsa.

„Gangi þessi ósköp eftir er líklegt að margir hætti í hestamennsku; svo íþyngjandi eru þessi gjöld,“ segir Guðmundur Björgvinsson, hestamaður í Mosfellsbæ. „Ég er með um tíu hesta á húsi hér í bæ. Mér telst svo til að undan þeim gangi 35 tonn af taði á ári. Sé sú tala margfölduð með 26 krónum per kíló er útkoman rúmlega 900 þúsund krónur. Þetta gengur ekki upp. Ég skil ekki heldur af hverju endurvinnslustöðvar taka ekki við hrossataðinu sem gulli; þetta er frábært efni til uppgræðslu. Þá kemur fólk gjarnan til okkar í hesthúsin til dæmis á vorin og fær tað sem nýtist sem góður áburður til dæmis í runnum, beðum og matjurtagörðum.“

Óskiljanleg þróun

Sú þróun sem að framan er lýst, að hrossataðið er skattlagt sem úrgangs- og spilliefni, er ekki einasta bundin við höfuðborgarsvæðið. Sama er upp á teningnum víða um land. „Þetta er algerlega óskiljanleg þróun, því víða eru auðnir sem þarf að græða upp og þar gæti hrossatað nýst vel. Mörg önnur svæði hér í nágrenni borgarinnar bíða þess að verða ræktuð. Ég trúi því ekki að skilgreina eigi tað undan hrossunum sem spilliefni og að borga eigi 26 krónur fyrir hvert kíló. Sveitarfélögin í kringum landið þurfa að taka höndum saman og leysa þetta mál. Slíkt er þeirra skylda,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir.

Í samtali við Morgunblaðið segir Gunnar Dofri Ólafsson talsmaður Sorpu að móttökugjald fyrir hrossatað endurspegli kostnað sem fyrirtækið beri af meðhöndlun og förgun þessa efnis. Á urðunarstað er taðið svo notað við uppgræðslu, segir á vef fyrirtækisins.

Lækka kostnað í sportinu

Um einmitt þetta atriði – uppgræðsluna og græðandi kraft hrossataðs – var fjallað í ályktun þings Landssambands hestamannafélaga sem haldið var nýverið og sagt að skökku skyti við að innheimta þetta gjald, þegar taðið væri svo notað til uppgræðslu eins og lengi hefði tíðkast.

Vilji hestamannafélaganna er sá, segir í ályktuninni, að fundið verði svæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem taðið geti nýst til landbóta. Ef ekki eigi sveitarfélögin að styðja hestamenn alla leið og beita sér fyrir því að móttökugjald fyrir tað hjá Sorpu, fyrirtæki sem sveitarfélögin eiga, verði lækkað. Talsvert sé í húfi fyrir fólk sem stundar hestamennskuna – og það sé stórt mál að lækka kostnað þeirra sem sportið stunda.