Hvenær kemur Alþingi saman? er spurning sem ég fæ oft þessa dagana. Áður en henni er svarað er nauðsynlegt að fjalla svolítið um lagaumgjörð kosninga hér á landi.
Ný kosningalög voru samþykkt á Alþingi í júní 2021 og gengu í gildi 1. janúar 2022. Þá lauk heildarendurskoðun sem staðið hafði yfir um árabil en allt frá árinu 2009 höfðu margvíslegar ábendingar borist um nauðsyn hennar, meðal annars frá Mannréttinda- og lýðræðisstofnun Evrópu (ÖSE). Þegar þáverandi forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, mælti fyrir frumvarpinu sagði hann það einkennast af tveimur þáttum: „Annars vegar nýju skipulagi stjórnsýslu kosningamála og hins vegar breytingum sem hafa það að markmiði að einfalda regluverk um framkvæmd kosninga og tryggja réttindi kjósenda.“
Fern lög urðu að einum lagabálki við afgreiðslu nýju laganna. Einnig var ákveðið að skrifa útfærslu á framkvæmd kosninga frekar í reglugerðir – sem þá nýtast sem handbækur sem einfalt er að uppfæra – en að njörva hana niður í lagatexta.
Landskjörstjórn var gerð að sjálfstæðri stjórnsýslueiningu til að samhæfa framkvæmd kosninga og tryggja samræmi á öllum stigum kjörstjórna. Yfirumsjón kosningamála var þar með færð frá dómsmálaráðuneytinu. Einnig var lagt til að setja á fót sjálfstæða og óháða úrskurðarnefnd kosningamála. Báðar breytingarnar verða að teljast til mikilla bóta.
En aftur að upphafsspurningunni. Samkvæmt nýju kosningalögunum sem nú gilda í fyrsta sinn um framkvæmd alþingiskosninga ber landskjörstjórn að skila Alþingi kosningaskýrslu um framkvæmd og niðurstöður kosninganna 30. nóvember sl. Í þeirri skýrslu ber landskjörstjórn að taka rökstudda afstöðu til kæra og athugasemda sem henni bárust innan sjö daga frests frá auglýsingu kosningaúrslita. Eftir því sem ég best veit barst ein kæra vegna talningar í Suðvesturkjördæmi og einhverjar athugasemdir. Þegar umsögn landskjörstjórnar berst Alþingi tekur undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar til starfa. Eflaust muna einhver eftir störfum þeirrar nefndar að loknum kosningunum haustið 2021. Þegar undirbúningsnefndin hefur lokið störfum gerir hún tillögu(r) til þingsins sem tekin verður fyrir og afgreidd á fyrsta þingfundi. Á þeim fundi sker Alþingi sjálft úr um hvort þingmenn séu löglega kosnir í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins.
Ég geri ráð fyrir því að landskjörstjórn skili skýrslu sinni til Alþingis um miðjan þennan mánuð og þá taki undirbúningsnefndin þegar í stað til starfa. Gangi allt að óskum má því gera ráð fyrir að þing verði kallað saman í lok janúarmánaðar, þó ekki sé hægt að fullyrð um það á þessari stundu. En fyrir liggur að kalla verður þing saman eigi síðar en tíu vikum eftir alþingiskosningar.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. tsv@althingi.is