Esther Valdimarsdóttir frá Varmadal Vestmannaeyjum fæddist þar 10. desember 1938. Hún lést á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 15. desember 2024.

Foreldrar hennar voru Margrét Pétursdóttir, f. 3. maí 1911, d. 24. ágúst 2002, frá Vallarnesi á Héraði og Valdimar Sveinsson frá Varmadal, f. 18. júní 1905, d. 26. janúar 1947, fæddur á Gamla-Hrauni við Eyrarbakka.

Systkini hennar voru: Sveinn, f. 1934, d. 2018, kvæntur Arnlaugu Láru Þorgeirsdóttur, f. 1932, d. 2015; Stefán Pétur, f. 1942, d. 2004, kvæntur Önnu Aðalbjörgu Sigfúsdóttur, f. 1945, d. 2005; Sigríður, f. 1945, gift Óskari Ólafssyni, f. 1944; Arnór Páll, f. 1946, kvæntur Svanhildi Eiríksdóttur, f. 1947.

Eiginmaður Estherar var Guðni Grímsson frá Haukabergi í Vestmannaeyjum, f. 13. nóvember 1934, d. 28. september 2017, þau giftu sig 25. desember 1956. Esther og Guðni eignuðust fjóra syni, þeir eru: 1) Valdimar, f. 4. maí 1957, kvæntur Þóreyju Einarsdóttur, f. 1 janúar 1954. Sonur þeirra er Valþór, f. 6 maí 1977, kvæntur Jacquiline Magdalena Mantouw. Börn: Matthías Valdimar, Sandra Magdalena og Jóhanna Þórey. 2) Grímur, f. 29. júní 1960, kvæntur Eygló Kristinsdóttur, f. 9 júlí 1959. Börn: a) Guðni, f. 24 mars 1982, kvæntur Kristínu Hartmannsdóttur, dætur: Edda Björk og Hólmfríður Eldey. b) Kristín, f. 22. maí 1986, gift Núma Sigurðssyni, synir: Kári og Grímur Goði. 3) Guðni Ingvar, f. 23. október 1961, kvæntur Þórdísi Úlfarsdóttur, f. 12. júní 1962. Börn Guðna og Fanneyjar Gísladóttur: a) Halldór Ingi, f. 19. júlí 1986, kvæntur Sigrúnu Örnu Gunnarsdóttur. Synir: Guðni Þór og Breki Þór. b) Hafdís, f. 21. mars 1990, gift Guðmundi Geir Jónssyni, börn: Bríet Sól, Jón Sölvi, Alda Líf og Yrja Líf. Dóttir Þórdísar: Sigrún Lína, f. 19. júní 1986, gift Kolbeini Karli Kristinssyni. Börn: Sóley María og Benedikt Kári. 4) Bergur, f. 24. desember 1964, kvæntur Jónínu Björk Hjörleifsdóttur, f. 24. maí 1966. Börn: a) Esther, f. 31. júlí 1985, gift Guðgeiri Jónssyni, dætur: Katla Margrét og Þórhildur Helga. Fyrir átti Esther Berg Óla, faðir Guðni Sigurður Guðnason. b) Andvana fæddur drengur, 1987. c) Ingvar Örn, f. 21. mars 1989. d) Þórir, f. 29. júlí 1992. e) Inga Jóhanna, f. 7. janúar 1999, gift Sindra Ólafssyni, dóttir þeirra er Ísabella.

Esther ólst upp í Varmadal í Vestmannaeyjum með systkinum og frændsystkinum. Hún gekk í barnaskólann í Vestmannaeyjum og Húsmæðraskólann í Reykjavík. Hún vann í Fiskiðjunni og endaði starfsferil sinn í Skipalyftunni. Hún var virk í starfi Sinawik og slysavarnadeildinni Eykyndli. Esther og Guðni bjuggu á Bakkastíg 5 fram að eldgosi 1973. Þau byggðu sér hús í Dverghamri 42 eftir gosið og bjuggu þar lengst af.

Útför Estherar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 4. janúar 2025, klukkan 14. Streymt verður frá athöfninni á vef Landakirkju:

https://www.landakirkja.is/

Mamma mín.

Úr hverju vildir böli bæta,

brosið var sem skin af sól.

Vildir hugga, verma og kæta,

veita hrjáðum líkn og skjól.

Göfugt allt og gott þú kenndir,

góða elsku mamma mín,

bættir allt og blíðu sendir.

Björtust allra er minning þín.

(Þuríður Briem)

Elsku mamma, ég kveð þig með söknuði. Minning þín mun lifa í hjarta mínu.

Takk fyrir allt.

Þinn sonur,

Grímur.

Elsku Esther okkar.

Mikið erum við Bergur þakklát fyrir allar góðu minningarnar með þér og ykkur Guðna. Þegar við byrjuðum að búa var svo gott að hafa ykkur á kantinum enda alltaf boðin og búin fyrir okkur. Þú áttir þína fjóra stráka og þegar sá yngsti fæddist var hann nú mátaður í kjólinn sem þú gerðir í Hússtjórnarskólanum.

Þegar fyrsta barnið okkar kom í heiminn og það var stelpa var gleðin mikil, þarna var komin ástæða til að kaupa kjóla og græddu þær Esther og Kristín aldeilis á því, enda elskaðir þú sjálf að vera fín og uppáklædd. Á undan dömunum tveimur fæddust tveir strákar. Barnabörnin urðu alls níu og svo græddir þú eitt auka. Þú varst rík kona með fullt af barnabörnum og síðan barnabarnabörnum og öll fengu þau kærleika og knús hjá þér.

Þú ólst sjálf upp við að peningar væru ekki á hverju strái, enda misstir þú föður þinn ung, einungis níu ára gömul. Lífið var ekki alltaf auðvelt og talaðir þú alveg um það við okkur og barnabörnin, bæði misstir þú úr skóla vegna síendurtekinna höfuðverkja og einnig glímdir þú við það að stama sem barn og var strítt fyrir það. Fyrir barn hefur það verið heilmikið að bera. Börnunum okkar fannst ekkert betra en að vera hjá ömmu og afa í dekri, fáar reglur og allir svo ligeglad.

Saman voru feðgarnir í Kiwanisklúbbnum og við Esther í Sinawik og því vorum við oft að skemmta okkur saman. Fórum í ferðir og skemmtilegheit enda algjör gleðigjafi sem allir vildu hafa í kringum sig. Þakklát erum við Bergur fyrir vináttu ykkar mömmu síðastliðin 20 ár þar sem þið bjugguð hlið við hlið á Sólhlíðinni og síðan á Hraunbúðum.

Elsku Esther, mikið er ég þakklát fyrir vináttuna okkar og Bergur þakklátur fyrir gott atlæti og mikið dekur. Þegar þú fékkst hvíldina þá vorum við líka þakklát fyrir að þrautirnar voru að baki. Það var erfitt að sjá þig svona veika. Elsku Esther, takk fyrir að vera svona stór hluti af öllu okkar lífi og það voru skrítin þessi jól að hafa ykkur mömmu ekki með okkur. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Nú ert þú farin í ljósið með Guðna þínum og fólkinu þínu.

Jónína (Jóný) og Bergur.

Eitt af því fáa sem við vitum örugglega um lífið er að tilverunni lýkur fyrr eða síðar með dauða. Þótt dauðinn geti verið lausn úr prísund þá veldur hann engu að síður sorg og söknuði meðal ástvina sem eftir lifa.

Það er með sorg og söknuði sem ég kveð elsku Esther tengdamóður mína. Ég sá hana og Guðna tengdaföður minn fyrst á göngu á Vestmannabrautinni í Vestmannaeyjum. Þau voru samstiga hjón og dugleg. Höfðu gaman af því að ferðast bæði innanlands og utan. Ég minnist ættarmótanna í Hallormsstað, á Syðra-Langholti og á Snorrastöðum á Mýrum. Ferðin sem við fórum saman öll; synir, tengdadætur og Esther og Guðni til Tenerife. Þau ferðuðust til margra landa í Evrópu með hjólhýsi.

Esther var einstaklega góð og umhyggjusöm móðir, tengdamóðir, amma og langamma. Hennar líf gekk mikið út á að hugsa um sína, hvort sem það var að prjóna á börnin og barnabörnin eða passa. Á sunnudögum var kaffi með pönnukökum, þá mættu börn, barnabörn og þeir sem voru á eyjunni. Esther var mikill fagurkeri og heimili hennar bar vott um hvað hún var handlagin við útsaum, saumaskap og mjög iðin við allt sem hún tók sér fyrir hendur. Esther vann alla tíð erfiðisvinnu og var með stórt heimili. Var af þeirri kynslóð sem kvartaði aldrei.

Við Esther vorum nánar og gerðum ýmislegt saman. Fórum í húsmæðraferð á Húnavelli og á Heilsuhælið í Hveragerði í mánuð. Þetta var í maímánuði. Mikið hlegið, farið í göngutúra og í sund. Ef þau áttu erindi upp á land til læknis eða í skemmtiferð gistu þau iðulega hjá okkur. Þegar Valþór sonur okkar og tengdadóttir Jacqueline ætluðu að gifta sig í snatri fyrir páska áður en hann færi til útlanda að vinna hringdi ég í Esther og hún bjargaði því snarlega, talaði við prestinn sem gifti þau á föstudaginn langa í Landakirkju. Kaffi og skóbót heima hjá þeim á eftir. Svona var Esther og mikið var ég þakklát.

Síðasta árið þegar heilsunni fór að hraka bjó hún á elliheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum þar sem hún fékk skjól og góða umönnun og fyrir það er ég þakklát.

Þórey Einarsdóttir.

Það setti mark sitt á æsku Estherar tengdamömmu að barnung missti hún Valdimar föður sinn og Margrét móðir hennar varð ekkja með fimm börn, það elsta fjórtán ára og það yngsta á fyrsta ári. Það var lán þeirra að fjölskyldan bjó ásamt frændfólki sínu í Varmadal, þar sem stórfjölskyldan hlúði að þeim og stóð saman í blíðu og stríðu.

Tengdamamma fór ung í húsmæðraskólann í Reykjavík. Sagan af fallega kjólnum sem hún saumaði þar finnst mér skemmtileg. Guðni heitinn tengdapabbi og Esther byrjuðu saman ung og voru ástfangin og samstiga alla tíð. Barnalánið lék við þau. Fyrsta barnið var drengur, annað barnið var drengur, þriðja barnið var drengur og viti menn það var fullreynt í fjórða og það reyndist líka drengur. Allir voru þeir klæddir í kjólinn góða úr Húsmæðraskólanum.

Esther og Guðni ferðuðust mikið alla tíð, fyrstu árin innanlands og síðan erlendis. Fyrir tíma gps var hún með kortabókina og þau keyrðu um alla Evrópu. Seinni árin voru þau með hjólhýsi og ferðirnar lengdust. Hún hélt dagbók um allar þeirra ferðir. Fróðlegt er að glugga þar í ítarlegar lýsingar hennar.

Eftir starfslok voru þau dugleg að hreyfa sig, báru út Morgunblaðið og tóku þátt í Vestmannaeyjahlaupinu, auk þess sem Esther fór daglega í sund meðan heilsan leyfði.

Esther var hvunndagshetja sem elskaði fólkið sitt, alltaf með opinn faðminn og fallega brosið. Börn löðuðust að henni. Sama á hverju gekk þá kvartaði hún aldrei. Vann fulla vinnu utan heimilis, mætti heim í hádeginu til að elda fyrir strákana sína og síðan var farið aftur til vinnu og vaktir oft langar. Komið heim, húsverkum sinnt og saumað á drengina. Ef ég vissi ekki betur þá mundi ég halda að það hefðu verið fleiri tímar í sólarhringnum hjá henni en öðrum.

Iðjusemi Estherar var einstök, hún var bókstaflega alltaf að og er mikið til af fallegu handverki frá henni hjá fjölskyldunni. Eftir að tengdamamma flutti á Hraunbúðir hélt hún áfram sinni iðju meðan stætt var. Hún var búin að útbúa jólagjafir fyrir öll barnabarnabörnin sín 19 áður en hún lést.

Tengdamamma hallmælti aldrei neinum og jákvæðnin var alltaf í fyrirrúmi. Ef hún var spurð hvernig hún hefði það þá hafði hún það alltaf fínt.

Kveðjustundin er runnin upp, farsælli ævi Estherar tengdamömmu er lokið. Söknuðurinn er sár en ljúfar minningarnar ylja.

Hjartans þakkir fyrir allt elsku Esther, betri tengdamömmu en þig hefði ekki verið hægt að óska sér.

Þín tengdadóttir,

Þórdís.

Elsku Esther amma.

Þinn hlýi og umhyggjusami faðmur var svo öruggur og ég mun sakna hans sárt.

Æska mín er umvafin yndislegum minningum af þér og afa, það voru forréttindi að fá að alast upp í Vestmannaeyjum með ykkur alltaf til staðar.

Þið gáfuð mér svo mikið sem ég gerði mér ekki grein fyrir sem barn, á hverju augnabliki var aldrei spurning í mínum huga að ég var elskuð. Heimili ykkar var staður gleði, hláturs og kærleika.

Þegar ég skrifa þennan texta er kominn gamlársdagur, sem í æsku minni var alltaf eytt heima hjá ykkur og það eru mínar hlýjustu minningar.

Þú kenndir mér að leggja kapal og þegar ég geri það þá hugsa ég til þín.

Minning þín er mér ei gleymd,

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Ég mun alltaf muna eftir þér elsku amma með kærleik í hjarta.

Kristín.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þessar ljóðlínur koma í hugann þegar ég minnist Estherar frænku sem nú hefur kvatt okkur. Það var mjög gott samband á milli þeirra systkina pabba og Estherar og var mikill samgangur á milli fjölskyldnanna. Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru spilakvöldin ykkar Guðna með mömmu og pabba þar sem ég fékk oft að vera með ykkur. Heimsóknirnar á Dverghamarinn en þar var sko alltaf líf og fjör og yfirleitt margt um manninn. Pönnukökurnar þínar og að ógleymdri bestu skóbótinni sem þú gerðir og komst með ef það voru veislur hjá fjölskyldunni. Perluverkin þín eru ábyggilega orðin óteljandi og held ég alltaf upp á þau sem þú gafst mér. Í seinni tíð, þegar ég var komin með fjölskyldu, þá vorum við Svanur svo heppinn að hitta ykkur Guðna ansi oft í útilegum og stundum fórum við bara þangað þar sem við vissum að þið væruð. Þar tókuð þið alltaf vel á móti okkur og stelpunum okkar, enda varstu bara kölluð Esther amma á mínu heimili.

Með þessum fátæklegu orðum langaði mig að þakka þér elsku Esther fyrir allt sem gafst mér og kenndir, takk fyrir mig og stelpurnar mínar.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Blessuð sé minning einstakrar perlu, Estherar Valdimarsdóttur.

Ingunn

Arnórsdóttir.

Látin er í Vestmannaeyjum kær vinkona okkar, Esther Valdimarsdóttir, f. 1938. Við minnumst hennar með þakklæti fyrir einstaka vináttu og velgjörðir í gegnum árin.

Veturinn 1973 verður lengi í minni okkar Íslendinga. Heilt bæjarfélag bjargaðist úr hræðilegu eldgosi í Vestmannaeyjum, sem var stórkostlegt lán, en erfiðleikar fólksins sem á eftir fylgdu voru miklir og öll þjóðin fylgdist með. Svo undarlegt sem það er fengum við fjölskyldan mikinn happavinning þennan vetur þegar okkur barst beiðni um að útvega vinnu og húsaskjól fyrir konu frá Vestmannaeyjum sem ætlaði að vinna í Keflavík þennan vetur meðan ósköpin gengju yfir. Við urðum við þessari beiðni án þess að hugsa okkur um. Þetta var hún Esther hans Guðna Grímssonar sem hafði verið samskipa Herði stuttan tíma á sjó nokkrum árum fyrr. Eftir þessa dvöl hennar hjá okkur höfðum við eignast vináttu þeirra hjóna og drengjanna þeirra sem hefur nú varað í hálfa öld, jafnvel í þriðja ættlið.

Þrátt fyrir að þessi tími hafi verið sá versti sem Esther hafði upplifað, á einu augabragði svipt heimilinu, börnin komin í burtu, maðurinn vinnandi á hættusvæði undir brennandi eldfjalli, þá tókst okkur að kynnast gæðakonunni Esther og öllum þeim mannkostum sem hún bjó yfir, styrk og rósemi. Það sem mest var um vert, hún týndi aldrei glaðværðinni, sem henni var svo eðlislæg.

Systir hennar, bóndakona í Þykkvabænum, og tengdafjölskylda hennar tóku drengina þeirra fjóra að sér, komu þeim í skóla og fóstruðu þá það sem eftir var vetrar. Fyrir þetta var Esther þakklát og eygði þá tækifæri til að fara í vinnu til að afla heimilinu tekna sem ekki veitti af því fram undan voru óvissir og erfiðir tímar. Það var lán fyrir Esther og móður hennar að þær „lentu“ báðar í Keflavík, þær unnu saman í frystihúsinu og hittust daglega, greinilega vanar að vinna úr hlutunum saman, sterkar og hljóðar um erfiðleikana.

Þegar voraði gat fjölskyldan sameinast í íbúðarhúsi í Keflavík, sem varði þó stuttan tíma því þau fengu úthlutað Eyjahús í Sandgerði. Um haustið þegar ljóst var að skóli yrði opnaður fyrir veturinn í Vestmannaeyjum fluttu þau öll til baka, því þar var atvinna húsbóndans.

Þessir atburðir marka auðvitað djúp spor í reynsluheim fólks, atburðir sem hafa nú endurgerst á öðrum stað á öðrum tíma. Ef til vill hjálpar það sem gamalt máltæki segir „að sælt sé sameiginlegt skipbrot“ en það minnkar ekki álagið á hvern og einn. Mikilvægt er að eiga von og halda í hana.

En hún Esther okkar höndlaði þetta allt vel. Þau þurftu að fara hús úr húsi nokkrum sinnum þar til þau sáu framtíðarhúsið rísa og fluttu inn í glæsilegt hús með útsýni yfir eyjar og endalaust haf.

Í mörg ár voru heimsóknir milli fjölskyldnanna, ferðalög farin saman utan lands sem innan og alltaf jafn gaman að hittast og rifja upp gamla og góða tíma, eins og þegar hún oft kynnti sig sem fósturdóttur okkar (sem vorum nokkrum árum yngri en hún) og hló sínum skellibjarta smitandi hlátri. Þannig viljum við minnast hennar, okkar elskulegu vinkonu.

Ragnhildur og Hörður.