Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. tilkynnti nýverið að félagið hefði gert samkomulag við Þórsberg ehf. á Tálknafirði um kaup á allri krókaaflahlutdeild og krókaaflamarki fiskveiðiársins 2024/2025 af Þórsbergi. Um er að ræða 1.499 þorskígildistonn samkvæmt skráningu Fiskistofu, en kaupverðið er 7,5 milljarðar króna.
Svo virðist vera sem aðrar eignir Þórsbergs, svo sem línubáturinn Indriði Kristins BA-751, séu undanskildar í kaupunum. Hann er af nýjustu gerð og var smíðaður 2022 af Trefjum ehf. í Hafnarfirði. Báturinn er 11,97 metrar og 28,9 brúttótonn.
Gerir ekki út krókabát
Vekur þetta athygli því Útgerðarfélag Reykjavíkur gerir ekki út krókaaflamarksbát. Krókaaflamark má aðeins nýta við veiðar þar sem notast er við krókaveiðarfæri, þ.e.a.s. handfæri og línu. Eina fiskiskip Útgerðarfélags Reykjavíkur er frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE-13.
Útgerðarfélag Reykjavíkur er í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims og er jafnframt stærsti hluthafi Brims. Brim er næststærsti hluthafi í Þórsbergi og fer með 40% hlutafjár þess.
Guðjón Indriðason er stærsti hluthafi í Þórsbergi og fer hann með 4% beint en 39% til viðbótar í gegnum félag sitt Litli vinur ehf. Afkomendur Guðjóns, þau Indriði Kristinn, Jóna Valdís, Kristrún og Magnús Kristján, fara hvort um sig með 4% hlut.
Um er að ræða 1.177 tonna þorskkvóta auk 342 tonna kvóta í ýsu, 71 tonn í ufsa, tæp 16 tonn í keilu og tæplega 91 tonn í steinbít, en minna í öðrum tegundum. Sem hlutdeild af heildarkvóta tegunda er stærsta hlutdeildin í steinbít, eða rúmt prósent, en um 0,7% í þorski og tæplega 0,6% í ýsu.
82% meira en bókfært verðmæti
Bókfært verð veiðiheimilda Þórsbergs 31. desember 2023 var 4.132 milljónir króna, sem er um 3.400 milljónum minna en Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur greitt fyrir þær undir lok árs 2024. Munar því rúmlega 82% á bókfærðu verðmæti heimildanna og því verði sem þær seldust á.
Af bókfærðu verðmæti aflaheimildanna má rekja heimildir að verðmæti 1.367 milljónir króna til sameiningar Þórsbergs og Grábrókar ehf. sem var dótturfélag Brims. Það félag fór í eigu Brims árið 2019 þegar gengið var frá kaupum á útgerðinni og fiskvinnslunni Kambi ehf. í Hafnarfirði fyrir þrjá milljarða króna. Rekstri fiskvinnslunnar Kambs var hætt 2023 þegar 31 starfsmanni var sagt upp.