Ég hef alla tíð haft ánægju af bóklestri og gjarnan verið með bók eða bækur innan seilingar til að glugga í þegar tími gefst til. Í æsku skemmti ég mér yfir sígildum teiknimyndasögum en einnig alvarlegri bókum eins og Frank og Jóa og slíku. Síðustu ár hef ég jafnan nokkrar bækur á náttborðinu og tek gjarnan törn á sumum höfundum.
Nýverið lagðist ég yfir bækur Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu og hennar föruneyti og landnámsbrölt á Vesturlandi og mæli ég sterklega með þeim fyrir þá sem hafa áhuga á sögulegum skáldskap. Ég hef einnig gaman af Jóni Kalmani og sökkti mér í þríleik hans með sögusvið á Vestfjörðum fyrir nokkru og nú bíður mín nýjasta saga hans um Spánverjavígin, eða Himintungl yfir heimsins ystu brún. Arnaldur og Yrsa eru vanalega á kantinum um jólin, en nýjustu bók Arnaldar, Ferðalok, fékk ég í jólagjöf og er spenntur að lesa hvaða orðum Arnaldur fer um eitt af höfuðskáldunum.
Eina bók hef ég tekið í stuttum áhlaupum, en fengið smá pásu þangað til nýverið þegar ég játaði mig sigraðan og setti upp gleraugu sem stækkuðu smáan texta Heimsljóss á ásættanlegan hátt. Laxness hef ég öðru hverju gripið í; meginrit hans algjör gersemi og er þar Sjálfstætt fólk í uppáhaldi.
Öðru hverju hef ég gripið í ævisögur nafnkunnra persóna og þá einkum íþrótta- eða tónlistarfólks sem mér hefur þótt áhugavert. Þar er Chronicles frá Bob Dylan eftirminnileg ásamt ævisögu Bruce Springsteen, en þarna lýsa þeir báðir sögu sinni með eigin orðum. Sökum ævilangs áhuga á enska boltanum, og sérstaklega Arsenal, hef ég lesið mjög áhugaverðar sögur Tony Adams og Arsène Wenger og geri fastlega ráð fyrir að reyna verða mér úti um nýja ævisögu Martin Keown.
Eftir því sem árin líða hefur sagnfræði- og ættfræðiáhugi færst yfir og hef ég verið að kynna mér fjölskyldusöguna undanfarið. Það hefur leitt mig m.a. í góða sögu Þórunnar Valdimarsdóttur um Skúla fógeta, en þar áður hafði ég lesið mjög góða bók hennar um Matthías Jochumsson, alls ótengt eigin ættfræði.
Þessa dagana er ég að lesa bækur Lilju Sigurðardóttur og Evu Bjargar Ægisdóttur, sem báðar hafa Skagatengingu og skrifa á lipurlegan hátt, og hlakka ég til að lesa nýjustu bók Evu, Kvöldið sem hún hvarf.