Ásta Fanney, Helga Páley og Sigurður Atli í sýningarrýminu.
Ásta Fanney, Helga Páley og Sigurður Atli í sýningarrýminu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við höfum þekkst frá því við vorum í námi í Listaháskólanum og höfum fylgst náið hvert með öðru í gegnum tíðina. Okkur langaði til að vinna saman.

Gaumgæfa er sýning í Y gallery á verkum Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur, Helgu Páleyjar Friðþjófsdóttur, Loja Höskuldssonar og Sigurðar Atla Sigurðssonar.

Verkin á sýningunni eru unnin í samtali milli listamannanna undanfarið ár auk þess að vera unnin með sýningarrými Y í huga, sem er sérstakt að því leyti að galleríið er staðsett á bensínstöð í bílakjallara í Hamraborg. Arkitektúr bensínstöðvarinnar er óhefðbundinn með gluggum á öllum hliðum og einungis einum sýningarvegg. Listamennirnir velta fyrir sér eðli listhluta sem sýningargripa, hvernig hugmyndir eru formgerðar og hlutir gaumgæfðir.

„Þessi sýning er dæmi um það þegar myndlistarsýning sprettur frá listamönnunum sjálfum frekar en sýningarstjóri velji verk saman. Við höfum þekkst frá því við vorum í námi í Listaháskólanum og höfum fylgst náið hvert með öðru í gegnum tíðina. Okkur langaði til að vinna saman,“ segir Sigurður Atli. Hann er þekktur fyrir formhrein myndverk og hefur á þessu ári haldið einkasýningar á Listasafni Ísafjarðar og Listasafni Akureyrar.

Verk hans á sýningunni, Þoka, er skúlptúr. „Skúlptúrinn er gerður úr tilboðsgrind eins og maður finnur úti í búð, sem er í þessu tilfelli full af glærum litlum sundboltum sem eru fylltir með einhverju sem líkist mögulega þoku, auk þess sem boltaþyrpingin sjálf líkist þoku. Þokan er svo dulræn og hverful og því ómögulegt að ætla sér að fanga hana. Verkið tekst á við þann ómöguleika, að koma þokunni í form, eins og myndlist á til að gera, að koma einhverju óefnislegu í form. Hér er hún sett í pakkningar, skipulögð og gerð áþreifanleg. Ég hef gert tilraunir með þetta í verkum mínum, að setja óefnislega hluti fram á kerfisbundinn hátt, líkt og í verkunum Sætaskipan þar sem mannleg samskipti og tengsl eru sett fram sem symmetrísk abstrakt kerfi,“ segir hann.

Að ganga í nýrri borg

Helga Páley Friðþjófsdóttir hefur vakið athygli fyrir áhugavert myndmál í málverkum, teikningu og skúlptúr og sýnt meðal annars í Ásmundarsal og Listasafni Reykjanesbæjar.

Hún sýnir skúlptúra. „Það er svo gaman að fá að sýna í Y því þetta rými er viss áskorun en líka eins konar svið. Þegar verk eru sett inn í rýmið þá er eins og verið sé að segja við áhorfendur: Sjáið!

Skúlptúrinn er gerður úr MDF sem ég fræsa út og saga hann eins og þrívíðar teikningar eða sviðsmyndir. Fæturnir á verkunum eru sumir eftir myndum frá útskornum skrautmunum í Vatíkaninu í Róm þar sem ég var um daginn og varð fyrir miklum áhrifum. Þar má finna miklar andstæður. Borgin er eins og bútasaumsteppi þess gamla og nýja. Mér finnst verkin minna svolítið á það, að ganga í nýrri borg. Hver hlið verkanna er eins og að ganga fyrir horn og uppgötva eitthvað nýtt, eitthvað óvænt.

Mér finnst allt sem er dálítið ófullkomið áhugavert. Þar er sálin og þar færðu skemmtilegustu sögurnar.“

Númeraðar minningar

Ásta Fanney Sigurðardóttir er talin einn af fremstu gjörningalistamönnum landsins og var nýlega valin til að sýna fyrir hönd Íslands á Feneyjatvíæringnum. Verk hennar er kort með orðinu Memory í ljósmyndaformati. Á opnun sýningarinnar virkjaði hún verkið með gjörningi þar sem hún númeraði minningarnar.

„Ég er mikið að hugsa um hvernig við nálgumst minningar og hvernig við setjum þær upp. Minningar mínar byggjast á því að horfa á ljósmyndir af atvikum og fólki.

Í nútímanum notum við símann mikið til að taka myndir og það kemur í staðinn fyrir að muna. Við treystum tækjunum. En ég held að minningar snúist meira um viðhorf og sjónarhorn, upplifanir frekar en staðreyndir og þær breytast í sífellu.

Ég fór líka að hugsa um hvernig við höfum tilhneigingu til að skilgreina allt á mjög afgerandi hátt og hólfa það niður í númer, númer 1, númer 2 og svo framvegis. Minningar eru ótrúlega flæðandi fyrirbæri sem er síbreytilegt og það er ekki hægt að njörva það niður.

Á þessari sýningu er ég að taka eitthvað sem er algjörlega hverfandi og flæðandi og setja það niður í hólf. Það er náttúrlega ekki hægt, svo gjörningurinn verður fáránlegur. Ég vinn mikið með hverfulleika og eitthvað sem bendir í átt að einhverju öðru sem er ekki hægt lýsa eða nálgast. Ég sýndi svipað verk og þetta um daginn í Nýlistasafninu sem var unnið upp úr gjörningi frá 2011, þetta voru setningar á spjöldum sem lýstu hljóðum. Þegar þú last þær mynduðust hljóðin úr eigin minningum, hljóðverkið er ekki til nema í huga lesandans.“

Leikur með formið

Fjórði listamaðurinn er Loji Höskuldsson en hann er þekktur fyrir útsaumsverk sín þar sem hann notar hversdagslega hluti til að skapa frásögn á myndfletinum. Verk hans á sýningunni eru þrír klukkustrengir. „Ég hef gert einn klukkustreng áður sem var á síðustu einkasýningu minni í Danmörku. Ég hef verið að pönkast í útsaumi og ákvað að fara núna alveg í hefðina og leika mér með söguna,“ segir hann.

Spurður um myndefnið segir hann: „Á einum klukkustreng er stafli af appollo-lakkrís og neðst niðri sinnepstúpa og sinnepið liðast í kringum staflann. Á öðrum er límtúpa og lím sem fer í kringum myndefnið. Á þeim þriðja er kavíar.

Í þessum myndum er ég að leika mér með formið og hefðina nema ég er með mjög óhefðbundna hluti á sumum stöðum. Þarna er nokkuð um blóm. Á einum klukkustrengnum eru blóm sem finnast hér á umferðareyjum og í náttúrunni og á öðrum er hangandi blómapottur með mynd af leikkonunni Meg Ryan og planta úr þeim potti lafir niður.“

Af hverju mynd af Meg Ryan? „Ásta Fanney var mikið að tala um Meg Ryan. Ég var búinn að ákveða að vera með hengipottsplöntu á einum klukkustrengnum og mér fannst fullkomið að gera portrettmynd af Meg Ryan og setja á þennan blómapott.“

Hanna Whitehead gerði höldurnar á klukkustrengina. „Ég gaf henni upp málin á klukkustrengjunum og svo fékk hún frjálsar hendur.“