Á hvað leggur þú áherslu í þinni vinnu?
Á heildræna nálgun, bæði í nuddi og þjálfun, og að finna ávallt rót vandans og vinna út frá henni. Til að hámarka heilsu og auka vellíðan er mikilvægt að finna jafnvægið á milli líkamlegra, andlegra, tilfinningalegra og huglægra þátta en óbeint vinn ég með alla þessa þætti í mínu starfi. Yfirleitt byrja ég á að taka fólk í heildræna ástandsskoðun til að meta ástand viðkomandi og líkamsstöðu. Hluti af henni er nuddið, bæði líffæra- og djúpvefjanudd, þar sem ég tek út skekkjur og losa um uppsafnaða spennu. Eftir það tekur einstaklingsmiðuð þjálfun við þar sem lögð er áhersla á að styrkja og efla líkamann með réttri hreyfingu og auka þar með líkamsmeðvitund og líkamsstöðu. Ég gef einnig næringarráð sem snúast fyrst og fremst um að vera meðvituð um hvað við látum ofan í okkur og borða hreint fæði. Það eru margir að glíma við bólgur og verki sem eru oft afleiðing slæms mataræðis og of lítillar eða lélegrar vökvunar. Það er svo margt sem við getum gert sjálf til að hlúa að heilsunni okkar. Oft er fólk komið aðeins út af sporinu og þarf aðstoð við að komast á beinu og heilbrigðu brautina.
Hvað er fólk að drekka vitlaust?
Margir drekka of mikinn sykur, gervisætu og koffín sem fara illa með þarmaflóruna og þar með heilsuna okkar. Ég tala mikið um þarmaflóruna því ef hún er í ólagi, ertu í ólagi. Einn kaffibolli á dag ætti að vera í góðu lagi en það er mikilvægt að reyna að drekka kaffið ekki á tóman maga. Þá stendur íslenska vatnið einnig fyrir sínu en gott ráð er að setja örlítið sjávarsalt í vatnsglasið á morgnana og eftir þörfum. Kókosvatn er mitt uppáhald.
Hvaða ráð áttu handa fólki sem vill bæta heilsuna á nýju ári?
Ég myndi segja fólki sem ekki er í reglulegri hreyfingu að fara rólega og skynsamlega af stað og setja sér raunhæf markmið. Fólk ætlar oft að keyra sig á fullt í gang 2. janúar sem magnar upp stressið og álagið sem býr enn í því eftir jólahátíðina. Fólk endar þá oft á að gefast upp eftir 1-2 mánuði. Það er frábært að setja sér heilsumarkmið fyrir nýja árið, t.d. hreinna mataræði, meiri útivera, meiri hreyfing, betri svefn, en mikilvægt að horfa á markmiðið sem hluta af framtíðar-lífsstílsbreytingu.
Númi Snær Katrínarson, einkaþjálfari og nuddari, hefur rekið heilsu- og líkamrsæktarstöð síðastliðin 12 ár en rekur nú fyrirtækið Heildræn heilsa en þar er boðið upp á þjónustu sem er til þess fallin að bæta almenna heilsu og auka vellíðan einstaklinga. Upplýsingar má finna á heildraent.is og á instagram-reikningnum new_me_iceland.