Guðjón Heiðar Jónsson, vélfræðingur, fæddist 28. október 1932 í Reykjavík. Hann lést þar eftir stutt veikindi 92 ára að aldri 4. nóvember 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Auðbjörg Jónsdóttir, forstöðukona hjá Mjólkursamsölu Reykjavíkur, f. 8. ágúst 1907 á Skeiðflöt í Mýrdal, d. 23. nóvember 2008, og Jón Pétursson, einn stofnenda Strætisvagna Reykjavíkur og vagnstjóri, f. 25. desember 1901 að Stóru Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, d. 23. maí 1937. Yngri bróðir Guðjóns Heiðars var Ólafur Þorsteinn Jónsson, óperusöngvari, f. 5. mars 1936 í Reykjavík, d. 13. mars 2012. Ekkja Ólafs Þorsteins er Jóhanna Sigursveinsdóttir.

1954 trúlofaðist og 1956 giftist Guðjón Heiðar Kristínu Ólafsdóttur, f. 4. nóvember 1931, d. 3. júní 2024. Foreldrar hennar voru hjónin Sigurdrífa Jóhannsdóttir. f. 1911, d. 2010. og Ólafur Pálsson, f. 1903, d. 1953. Kristín starfaði í fjárreiðudeild Eimskipafélags Íslands. Þau voru einkar samheldin hjón sem bjuggu sér og fjölskyldunni fallegt heimili. Söknuður hans síðustu mánuðina var áþreifanlega mikill eftir 70 ára samveru.

Börn Kristínar og Guðjóns Heiðars eru 1) Ólafur, f. 1957, læknir, búsettur í Uppsölum, Svíþjóð. Börn hans og Jónu Þorsteinsdóttur eru a) Kári, f. 1982, sambýliskona hans er Jenni Lindqvist, dóttir þeirra er Íris, b) Hildur, f. 1988, eiginmaður hennar er Hallgrímur H. Gunnarsson og börn þeirra eru Helgi Þór og Hekla, c) Þorsteinn, f. 1990. 2) Auður Heiða, f. 1959, læknir, búsett í Gautaborg, Svíþjóð. 3) Drífa, f. 1964, líffræðingur, búsett í Reykjavík, gift Joseph Plank, f. 1961, synir þeirra eru a) Magnús, f. 1991, b) Thomas Ari, f. 1997, sambýliskona hans er Irma Gná Henttinen. 4) Látinn er sonur Kristínar og stjúpsonur Guðjóns Heiðars, Páll Björgvin, f. 1951, d. 2023, flugmaður, ekkja hans er Rubiela Ruiz Arango.

Guðjón Heiðar lauk námi sem vélfræðingur frá Vélskólanum í Reykjavík 1956, starfaði á varðskipunum í tvö sumur, vann við Ljósafossvirkjun og hóf síðan störf hjá Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi þar sem hann vann allt til starfsloka eða í um 40 ár.

Útför hefur farið fram.