Það er grunnforsenda fyrir trausti á íslenskum stjórnvöldum meðal bandamanna ríkisins að æðstu menn lýðveldisins tali einum rómi um stefnuna í öryggis- og varnarmálum.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Minningar og tilfinningar brjótast fram um jól og áramót. Lögð er rækt við trúna og horfið aftur til bernskunnar um jólin en gefin framtíðarfyrirheit um áramót. Leiðtogar ávarpa þjóðir sínar og sameina á slíkum hátíðarstundum. Boðskapurinn tekur mið af því sem ber hæst á líðandi stundu. Hann á að veita hlustendum leiðsögn um hvers þeir mega vænta. Ávörpin styrkja einnig traust á leiðtoganum enda séu efnistökin til þess fallin.

Í fyrsta nýársávarpi sínu komst Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, einkennilega að orði þegar hún ræddi um innrásarstríð Rússa í Úkraínu. Hún rifjaði upp að Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefði verið gestur á þingi Norðurlandaráðs hér í október og heimsótt hana á Bessastöðum. Henni þótti lærdómsríkt að ræða við forseta sem hefði í rúmlega þúsund daga barist fyrir lífi og framtíð þjóðar sinnar.

Forseti Íslands sagði „tryllt öfl“ ekki lengur svo ýkja fjarlæg og við ættum það bæði undir sjálfum okkur og öðrum að halda álögum þeirra og áhrifum í skefjum. „Vert er að spyrja hvernig Íslendingar geta best staðið fyrir og með friði í heimi sem ófriður ógnar,“ sagði forsetinn.

Þetta er skrýtin spurning. Í 75 ár hafa íslensk stjórnvöld með ítrekuðum stuðningi þjóðarinnar vitað svarið við henni. Íslendingar hafa valið sér leið í þágu friðar með aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin. Þetta hefur verið meginstoð utanríkis- og varnarstefnu lýðveldisins í 80 ára sögu þess. Alþingi samþykkti hana sem hluta þjóðaröryggisstefnunnar 13. apríl 2016.

Forseti Íslands rifjaði upp að þau forsetahjónin hefðu í október notið „þess heiðurs að vera fyrstu gestir Friðriks tíunda Danakonungs og Mary drottningar í opinberri heimsókn“. Saga íslensku og dönsku þjóðarinnar hefði „tvinnast saman á ótal vegu gegnum aldirnar“. Við mættum margt af Dönum læra, sagði forseti, ekki síst stuðning við hugmyndaauðgi og sköpunarkraft á mörgum sviðum þjóðlífsins.

Í fyrsta nýársávarpi sínu talaði Friðrik tíundi afdráttarlaust og skýrt þegar hann fór orðum um varnir Danmerkur og minntist þess að Danir hefðu fyrir 75 árum verið meðal 12 stofnþjóða varnarbandalagsins NATO. Þjóðirnar hefðu ákveðið að standa saman að því að tryggja öryggi og frið. Fleiri þjóðir hefðu síðan gengið í bandalagið, síðast Finnar og Svíar. Það styrkti Norðurlöndin. Það styrkti Evrópu. Það styrkti sameiginlegar varnir okkar í þágu friðar.

Þögn forseta Íslands um gildi þess fyrir öryggi og varnir þjóðarinnar að eiga aðild að NATO og eiga tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin er vandræðaleg fyrir hana og vekur athygli innan lands og utan.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið af skarið um þetta efni og enn frekar í yfirlýsingum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, nýs utanríkisráðherra. Hún hefur meira að segja bætt orðinu varnarmálaráðherra við embættisheiti sitt til að árétta áhuga sinn og skyldur varðandi öryggi og varnir þjóðarinnar.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra var mun afdráttarlausari í fyrsta nýársávarpi sínu en forseti Íslands þegar hún vék að þessum málum.

Forsætisráðherra sagði að stríðsrekstur í okkar heimshluta minnti illilega á að öryggi og friður væru grundvallarforsenda frelsis og velmegunar. Við Íslendingar ættum allt okkar undir virðingu fyrir alþjóðlegum lögum og rétti fullvalda ríkja og hún sagði: „Þess vegna verðum við að taka virkan þátt í öryggis- og varnarsamstarfi og fordæma með afgerandi hætti hvers kyns brot á alþjóðalögum. Á næstu árum skulum við leitast við að efla enn frekar samstarf okkar við önnur vestræn lýðræðisríki – þar á meðal vinaþjóðir okkar á Norðurlöndum.“

Í þessum orðum felst að sjálfsögðu engin spurning um „hvernig Íslendingar geta best staðið fyrir og með friði í heimi sem ófriður ógnar“, svo að aftur sé vitnað í orð forseta Íslands.

Það er grunnforsenda fyrir trausti á íslenskum stjórnvöldum meðal bandamanna ríkisins að æðstu menn lýðveldisins tali einum rómi um stefnuna í öryggis- og varnarmálum. Þar er það stefna ríkisstjórnar sem ræður og það er skylda forseta Íslands að virða hana í ræðu og riti – ekki síst á stríðstímum.

Í ávarpi sínu á gamlársdag vék Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra að því að sú tilfinning hefði „grafið um sig“ meðal þjóðarinnar að velferðarkerfið stæði ekki lengur undir „eðlilegum og réttmætum væntingum fólksins í landinu“. Raunar væri þetta líka „blákaldur veruleiki margra“. Þrátt fyrir mikla efnahagslega velsæld sem birtist í hagtölum yrði ekki litið „framhjá þessari tilfinningu og veruleika fólks“. Margir teldu „vitlaust gefið“. Þetta þýddi ekki að allt væri „ómögulegt á Íslandi. Þvert á móti.“ Hún hefði verið kosin til að takast á við þetta verkefni „með vongleði og kjark í brjósti“.

Sagðist Kristrún ætla að „leitast við að tala kjark í þjóðina með því að segja hlutina eins og þeir eru og tala af hreinskilni um verkefnin sem við stöndum frammi fyrir“. Það yrði ekki allt auðvelt.

Í þessum orðum togast á hvort treysta eigi hagtölum eða tilfinningu. Galdurinn felst í því að sá sem ætlar að „tala kjark í þjóðina“ hafi tilfinningu fyrir því hvernig það verði best gert á grundvelli hagtalna.

Tilfinningin um að velferðarkerfið standi ekki undir væntingum stafar ekki af tilviljun, stjórnarandstaðan hefur markvisst alið á henni undanfarin ár. Efnahagur þjóðarinnar er góður á alla mælikvarða og horfur þjóðarbúsins frábærar um þessi áramót.