Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég prjóna eitthvað flestalla daga, enda finnst mér það rosalega skemmtilegt. Að prjóna er mitt aðaláhugamál og það er mitt jóga. Ég veit ekkert betra en að setjast niður með prjónana mín og hlusta á sögu, það er á við bestu hugleiðslu. Ég prjóna ekkert endilega lengi í einu, en ég er alltaf með eitthvað í körfu sem ég gríp í,“ segir Helga Sigurðardóttir sem tekur prjónana alltaf með sér í ferðalög til útlanda, grípur í þá á svölum eða við sundlaugarbakka.
„Við hjónin eigum húsbíl sem við ferðumst á um Ísland og þá eru prjónar alltaf með í för, enda finnst mér sérstaklega notalegt að prjóna í húsbílnum í útilegum,“ segir Helga sem prjónar gjarnan barnaföt, enda finnst henni það skemmtilegast.
„Ég prjóna mikið af heimferðarsettum fyrir nýbura, alls konar ungbarnaföt og líka ungbarnateppi. Ég á góðan lager heima hjá mér í skúffu, sem kemur sér vel þegar nýtt barn fæðist í fjölskyldunni eða þegar vinir barnanna minna eignast börn. Þá er kíkt í skúffuna hjá mér til að gefa. Ég á alltaf til barnahúfur, sokka og vettlinga í stíl, sem er svakalega vinsælt, ég held svei mér þá að allir vinir barnanna minna hafi fengið húfur og vettlinga frá mér handa börnunum sínum. Svo fæ ég sendar myndir af þessum litlu börnum í því sem ég hef prjónað og með fylgja þakkir. Þetta gefur mér mikið,“ segir Helga og bætir við að sín eigin börn panti gjarnan hjá henni eitthvað sem þau langar til að hún prjóni á barnabörnin.
„Núna fyrir jólin pantaði dóttir mín til dæmis hjá mér jólapeysu á litla ömmudrenginn minn. Hún sá um að kaupa uppskriftina, valdi litina í garnið og kom svo með það allt saman til mín og ég sá um að prjóna,“ segir Helga sem laumar oft einhverju prjónuðu í jólapakka til skyldfólks og vinkvenna.
„Ég hef prjónað peysur á vinkonur mínar og gefið þeim í jólagjöf.“
Eldgos rústaði prjónavél
Helga segir að prjónaáhuginn og kunnáttan liggi í gegnum kynslóðirnar, í kvenlegg ættar hennar.
„Ég hafði prjónaskap alla daga fyrir augunum þegar ég var barn, því báðar ömmur mínar prjónuðu mikið. Sigríður Helga amma mín bjó uppi á lofti á æskuheimili mínu í Vestmannaeyjum og prjónaði endalaust sokka, vettlinga og sjöl. Hún kenndi mér að prjóna þegar ég var sex ára, trefla, peysur og húfur á dúkkurnar mínar. Ég gleymi aldrei góðu stundunum með ömmu á dívaninum hennar, enda fylgir því ró að prjóna saman. Amma kenndi mér margt og það var undurgott að skríða undir sængina hjá henni,“ segir Helga og bætir við að mamma sín, Jóna Guðmundsdóttir, hafi líka verið mikill prjónasnillingur.
„Þegar ég var tíu ára eignaðist hún prjónavél sem var mikil upplifun fyrir okkur krakkana, þetta var slík nýjung, vél sem gat prjónað. Heilu peysurnar spýttust út úr vélinni. Mamma sat löngum stundum við þessa vél og prjónaði svakalega mikið, ekki aðeins fyrir okkur heimilisfólkið heldur líka aðra, alls konar fallegar peysur. Þegar gaus í Eyjum 1973 þá brotnaði gluggi ofan við þar sem mamma hafði prjónaaðstöðu sína og vikur fyllti allar rásir prjónavélarinnar. Þar með lauk hlutverki hennar, en mamma hélt áfram að prjóna á prjóna og hún safnaði prjónabókum og prjónablöðum sem ég erfði eftir hana þegar hún dó fyrir tveimur árum, þá 93 ára. Þetta er því mikið safn. Við mamma hringdumst á margoft í viku hverri til að spjalla um prjónaskap, en hún bjó í Eyjum og ég uppi á landi. Við höfðum endalaust umræðuefni af því við deildum þessu áhugamáli sem tengdi okkur sterkum böndum,“ segir Helga sem ætlar á þessu ári að kenna sex ára ömmustelpu sinni að fitja upp og prjóna eitthvað einfalt.
„Ég verð að koma þessum áhuga og kunnáttu áfram, og einhver þarf líka að erfa allar prjónabækurnar mínar sem ég fékk frá mömmu,“ segir Helga sem notar netið mest núorðið til að kaupa sér prjónauppskriftir.
„Ég held sérstaklega upp á norsku prjónabækurnar Klompelompe en ég kaupi líka mikið af Knitting for Olive, Petit Knitting og af fleiri síðum. Ég fer líka mikið inn á Pinterest til að fá hugmyndir, en ég er orðin nokkuð lunkin í að plokka upp það sem ég sé á mynd, ef engar eru uppskriftirnar.“