100 ára Hulda Jensdóttir fæddist á bænum Kollsá við Jökulfirðina á Vestfjörðum 5. janúar 1925 og verður því 100 ára á morgun. Hún heitir fullu nafni Friðgerður Hulda Jensdóttir, „Friðgerður er sparinafnið mitt,“ segir hún ánægð með það.
Sem lítil stelpa fluttist Hulda með fjölskyldu sinni norður í land og bjuggu þau m.a. á Ólafsfirði en fluttust síðan til Akureyrar, þar sem Hulda óx úr grasi. Hulda hafði gaman af íþróttum og æfði m.a. handbolta hjá Þór. Hún vann sem unglingur í Mjólkurbúðinni þar. „Þetta var á stríðsárunum og í búðina komu oft erlendir hermenn sem gáfu okkur útlenskt nammi sem var gaman að fá.“ Hún vann síðan á skrifstofu KEA en fór svo í Ljósmæðraskólann og útskrifaðist sem ljósmóðir árið 1949. Að loknu námi vann hún á kvennadeild Landspítalans en fór síðan utan og vann m.a. á Södersjúkrahúsinu í Stokkhólmi og Fylkisjúkrahúsinu í Tromsö. Eftir að Hulda sneri aftur heim vann hún í nokkur ár sem umdæmisljósmóðir í Garða- og Bessastaðahreppi. Hún var síðan ráðin af Reykjavíkurborg til að undirbúa opnun Fæðingarheimilis Reykjavíkur og var forstöðukona þess frá stofnun 1960 og allt til ársins 1989.
Hulda hefur í gegnum tíðina haft gaman af að ferðast og farið víða, meðal annars til Jórdaníu, Ísrael, Indónesíu, Hong Kong, Singapúr, Japan og Bandaríkjanna og einnig ferðast víða um Evrópu.
Hulda hefur ætíð hugsað vel um heilsuna – borðað hollt og gott fæði og kynntist ung grænmetisfæði sem hún heldur mest upp á. Hún hefur ávallt verið mikið fyrir að hreyfa sig. „Ég fór oftast í sund á morgnana fyrir vinnu og tók góðan göngutúr flesta daga nánast hvernig sem viðraði.“ Hún hefur gaman af tónlist og tekur enn vel undir í öllum samsöng. Sem yngri spilaði hún mikið á gítar – átti einnig harmonikku og munnhörpu – og enn í dag grípur hún af og til í munnhörpuna.
Hulda mun halda upp á daginn sinn með dóttur sinni, fjölskyldu og vinum.