Reitir Verið er að byggja á G-reit í forgrunni en I-reitur er í bakgrunni.
Reitir Verið er að byggja á G-reit í forgrunni en I-reitur er í bakgrunni. — Morgunblaðið/Baldur
Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sigríður Gunnarsdóttir, íbúi við Smyrilshlíð á Hlíðarenda í Reykjavík, segir fulltrúa Reykjavíkurborgar hafa haft að engu athugasemdir íbúa í hverfinu vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar. Nánar tiltekið fyrirhugaða uppbyggingu fimm hæða húss á svonefndum I-reit vestan við Smyrilshlíð.

Bjarg íbúðafélag hyggst byggja 83 íbúðir á I-reit. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í mars eða apríl, að því er fram kom í samtali Morgunblaðsins við Björn Traustason, framkvæmdastjóra Bjargs, 1. nóvember sl.

Nú er komið fram í janúar og styttist því óðum í að framkvæmdir hefjist.

Þvert á fyrra skipulag

Sigríður segir þessa uppbyggingu ganga þvert á fyrra skipulag sem kynnt var íbúum á sínum tíma.

„Það liggja ekki fyrir nein gögn um skuggavarp í þeim skipulagsbreytingum sem boðaðar eru. Íbúar í Smyrilshlíð 2 og Haukahlíð 5 höfðu væntingar um að ekki yrði byggt á I-reit enda var kynnt að svæðið yrði grænt og opið. Til dæmis var ekkert minnst á byggingar á I-reit í kynningarbæklingi Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íbúða í borginni í nóvember 2019. Reykjavíkurborg var búin að hafa fyrir því að gera grasflöt á I-reit árið 2021 og óskiljanlegt að gera síðan þessa breytingu. Breytingin er að öllu leyti í mótsögn við þá fyrirætlan Reykjavíkurborgar að Hlíðarendi sé grænt og vistvænt svæði,“ segir Sigríður.

Á sumrin sé sólargangur á I-reit frá morgni til kvölds ólíkt inngörðum hverfisins. Uppbyggingin muni þannig hafa afar slæm áhrif á birtuskilyrði í nálægum íbúðum við Smyrilshlíð og Haukahlíð. Raunar verði birtuskilyrðin í sumum íbúðanna svo slæm að ófullnægjandi verði að teljast.

Málinu sínu til stuðnings vísar Sigríður í BS-ritgerð Jónu G. Kristins frá árinu 2023, Dagsljós í stækkandi borgarlandslagi á 64ºN, en á blaðsíðu 26 í ritgerðinni megi glöggt sjá hversu mikið skuggavarp sé af fimm hæða byggingu. Af því megi ætla að fyrstu þrjár hæðir nálægra húsa í Smyrilshlíð og Haukahlíð verði í skugga árið um kring og sólarljós muni aldrei skína inn í þær íbúðir. „Það er svo magnað að við skulum hafa verið að mennta sífellt fleiri umhverfissálfræðinga en að svo sé ekkert tillit tekið til ábendinga þeirra við hönnun þessara bygginga.“

Eykur á bílastæðaskort

Þá hafi íbúar áhyggjur af bílastæðamálum í hverfinu en fram hafi komið að vel innan við eitt bílastæði í kjallara verði á hverja íbúð á I-reitnum sem Bjarg hyggst byggja á. Fyrir vikið verði bílastæði í hverfinu enn umsetnari en þegar er. Oft sé mjög erfitt að finna bílastæði og þurfi íbúar því að leggja bílum sínum í nágrenninu, til dæmis hjá Hótel Loftleiðum, sem komi sér illa fyrir marga íbúa.

Íbúðahverfið á Hlíðarenda er byggt sem borgarlínuhverfi. Spurð hvort íbúar fyrirhugaðs fjölbýlishúss á I-reit muni því hugsanlega nýta sér almenningssamgöngur, í ljósi áforma um borgarlínu, segir Sigríður að fyrst þurfi að efla nærþjónustu á svæðinu. Áður sé með öllu óraunhæft að íbúarnir þurfi ekki að hafa bíl.

Sigríður og nágrannar hennar kærðu á sínum tíma þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. febrúar 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kvað upp úrskurð í málinu 2. ágúst sama ár. Var þar hafnað kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar. Að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Sigríður segir að íbúarnir séu hins vegar ekki af baki dottnir.

„Engar framkvæmdir eru ennþá hafnar á reit I og því er enn hægt að koma í veg fyrir það umhverfisslys sem framkvæmdirnar munu valda íbúum hverfisins,“ segir Sigríður.

Jafnframt hafi íbúar í hverfinu áhyggjur af fyrirhugaðri uppbyggingu íbúða við Valshlíð. Fram hefur komið að heimilt verði að reisa allt að 245 íbúðir á lóðinni, sem er í eigu Knattspyrnufélagsins Vals. Verið er að byggja 195 íbúðir á nærliggjandi lóð á Hlíðarhorni við Valshlíð.