Haukar gerðu góða ferð á Egilsstaði og lögðu Hött að velli, 89:86, í fallbaráttuslag í 12. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Friðrik Ingi Rúnarsson, nýráðinn þjálfari Hauka, byrjar því með besta móti.
Haukar eru áfram á botni deildarinnar en eru nú með sex stig, tveimur á eftir Val og Hetti í sætunum fyrir ofan.
Haukar voru með yfirhöndina stærstan hluta leiksins en Höttur var þó einu stigi yfir, 38:39, í hálfleik og Haukar leiddu með tveimur stigum, 64:62, að loknum þriðja leikhluta. Eftir að Haukar komust í 85:74 seint í leiknum söxuðu Hattarmenn í sífellu á forystu Hauka en máttu að lokum sætta sig við þriggja stiga tap.
Reynsluboltinn Everage Richardson var stigahæstur hjá Haukum með 23 stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar.
Justin Roberts var stigahæstur í leiknum með 26 stig fyrir Hött.
Stólarnir sterkari í Vesturbæ
Tindastóll gerði sömuleiðis góða ferð á Meistaravelli í Vesturbæ Reykjavíkur og lagði þar nýliða KR örugglega að velli, 116:95.
Tindastóll er áfram í öðru sæti deildarinnar, nú með 18 stig, og KR heldur kyrru fyrir í fjórða sæti með 12 stig.
Staðan í hálfleik var 60:43, Tindastóli í vil. Með góðri byrjun í síðari hálfleik náði KR að minnka muninn niður í aðeins fimm stig, 68:63. Eftir það náði Tindastóll hins vegar vopnum sínum á ný, jók forystuna stöðugt og varð hún mest 28 stig í stöðunni 111:83. Unnu gestirnir að lokum þægilegan 21 stigs sigur.
Dedrick Basile var stigahæstur í leiknum með 27 stig fyrir Tindastól. Hann tók auk þess sjö fráköst og gaf níu stoðsendingar. Sadio Doucouré bætti við 25 stigum og sjö fráköstum.
Hjá KR voru Þorvaldur Orri Árnason og Nimrod Hilliard stigahæstir með 21 stig hvor. Hilliard bætti við tíu stoðsendingum.
Fyrirliðinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var með þrefalda tvennu hjá KR er hann skoraði 15 stig, tók 17 fráköst og gaf tíu stoðsendingar.