Íþróttamaður ársins
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Samtök íþróttafréttamanna afhenda í kvöld viðurkenninguna Íþróttamaður ársins í 69. skipti í árlegu hófi samtakanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem haldið er í Hörpu í Reykjavík að þessu sinni.
Samtökin hafa staðið fyrir kjörinu samfleytt frá árinu 1956 og alls hafa 46 íþróttamenn, 39 karlar og 7 konur, fengið viðurkenninguna. Í heildina hafa karlar unnið í 60 skipti en konur í átta skipti. Kosningarétt hafa meðlimir samtakanna, íþróttafréttamenn í fullu starfi hjá fjölmiðlum landsins, en þeir eru 26 talsins í dag.
Líkurnar á því að nýtt nafn verði letrað á verðlaunagripinn fyrir árið 2024 eru nokkrar, því níu af þeim tíu sem ljóst er að urðu í efstu sætunum í kjörinu hafa ekki áður hlotið þennan eftirsótta titil.
Ómar Ingi Magnússon, handknattleiksmaður hjá Magdeburg, er í hópnum og hlaut titilinn árin 2021 og 2022. Samherji hans þar, Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem var kjörinn íþróttamaður ársins 2023, er hins vegar ekki á meðal tíu efstu að þessu sinni.
Þau tíu sem koma til greina í ár og enduðu í efstu sætum kosningarinnar eru eftirtalin, í stafrófsröð:
Albert Guðmundsson, knattspyrna, Fiorentina.
Anton Sveinn McKee, sund, Sundfélagi Hafnarfjarðar.
Ásta Kristinsdóttir, fimleikar, Stjörnunni.
Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingar, Lyftingafélagi Reykjavíkur.
Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrna, Bayern München.
Orri Steinn Óskarsson, knattspyrna, Real Sociedad.
Ómar Ingi Magnússon, handknattleikur, Magdeburg.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund, Aalborg.
Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingar, Breiðabliki.
Sveindís Jane Jónsdóttir, knattspyrna, Wolfsburg.
Annað árið í röð eru konur fleiri en karlar í hópi tíu efstu íþróttamannanna en það hafði aldrei gerst áður til ársins 2023.
Vilhjálmur fimm sinnum
Vilhjálmur Einarsson frjálsíþróttamaður hefur verið kjörinn íþróttamaður ársins oftast allra, eða fimm sinnum, en hann var valinn í fimm af fyrstu sex skiptunum, árin 1956, 1957, 1958, 1960 og 1961.
Kveikjan að kjörinu var einmitt árangur Vilhjálms á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956 þegar hann hlaut silfurverðlaunin í þrístökki.
Ólafur Stefánsson handboltamaður var kjörinn fjórum sinnum, 2002, 2003, 2008 og 2009.
Hreinn Halldórsson frjálsíþróttamaður var kjörinn þrisvar, 1976, 1977 og 1979.
Einar Vilhjálmsson frjálsíþróttamaður, sonur Vilhjálms, var kjörinn þrisvar, 1983, 1985 og 1988.
Örn Arnarson sundmaður var einnig kjörinn þrisvar, 1998, 1999 og 2001.
Níu kjörin tvisvar
Þau sem hafa verið kjörin tvisvar eru Valbjörn Þorláksson (frjálsar 1959, 1965), Guðmundur Gíslason (sund 1962, 1969), Ásgeir Sigurvinsson (knattspyrna 1974, 1984), Skúli Óskarsson (kraftlyftingar 1978, 1980), Jón Arnar Magnússon (frjálsar 1995, 1996), Eiður Smári Guðjohnsen (knattspyrna 2004, 2005), Gylfi Þór Sigurðsson (knattspyrna 2013, 2016), Sara Björk Gunnarsdóttir (knattspyrna 2018, 2020) og Ómar Ingi Magnússon (handknattleikur 2021, 2022).
Þau sem hafa verið kjörin einu sinni eru Jón Þ. Ólafsson (frjálsar 1963), Sigríður Sigurðardóttir (handknattleikur 1964), Kolbeinn Pálsson (körfuknattleikur 1966), Guðmundur Hermannsson (frjálsar 1967), Geir Hallsteinsson (handknattleikur 1968), Erlendur Valdimarsson (frjálsar 1970), Hjalti Einarsson (handknattleikur 1971), Guðjón Guðmundsson (sund 1972), Guðni Kjartansson (knattspyrna 1973), Jóhannes Eðvaldsson (knattspyrna 1975), Jón Páll Sigmarsson (kraftlyftingar 1981), Óskar Jakobsson (frjálsar 1982), Eðvarð Þór Eðvarðsson (sund 1986), Arnór Guðjohnsen (knattspyrna 1987), Alfreð Gíslason (handknattleikur 1989), Bjarni Friðriksson (júdó 1990), Ragnheiður Runólfsdóttir (sund 1991), Sigurður Einarsson (frjálsar 1992), Sigurbjörn Bárðarson (hestaíþróttir 1993), Magnús Scheving (þolfimi 1994), Geir Sveinsson (handknattleikur 1997), Vala Flosadóttir (frjálsar 2000), Guðjón Valur Sigurðsson (handknattleikur 2006), Margrét Lára Viðarsdóttir (knattspyrna 2007), Alexander Petersson (handknattleikur 2010), Heiðar Helguson (knattspyrna 2011), Aron Pálmarsson (handknattleikur 2012), Jón Arnór Stefansson (körfuknattleikur 2014), Eygló Ósk Gústafsdóttir (sund 2015), Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (golf 2017), Júlían J. K. Jóhannsson (kraftlyftingar 2019) og Gísli Þorgeir Kristjánsson (handknattleikur 2023).
Þjálfari og lið ársins
Í kvöld hljóta einnig þjálfari ársins 2024 og lið ársins 2024 viðurkenningar frá Samtökum íþróttafréttamanna, en þær hafa verið veittar í hófi samtakanna og ÍSÍ frá árinu 2012.
Þeir þrír þjálfarar sem koma til greina eru Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings í knattspyrnu, Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, og Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik.
Þau þrjú lið sem koma til greina eru kvennalandsliðið í knattspyrnu, kvennalandsliðið í hópfimleikum og karlalið Vals í handknattleik.
XXX
XXX