„Ríkisstjórnin ætti að hafa það hugfast að niðurskurðarstefna hefur hvergi virkað, nema þá til að vernda og vænka hag þeirra allra ríkustu,“ segir Halla Gunnarsdóttir formaður VR.
„Stjórnvöld gætu hætt að notast við íslenska útgáfu af PPP-framkvæmdum, þar sem einkaaðilar taka að sér framkvæmdir fyrir hið opinbera. Þetta er umdeild aðferðafræði en enn umdeilanlegri er íslenska útgáfan þar sem ríkið gengst í ábyrgð fyrir það sem aflaga kann að fara. Á sama tíma er framkvæmt fyrir dýrara lánsfé. Nýtt dæmi er Ölfusárbrú, sem FÍB hefur sýnt að verði vegfarendum dýrari en í opinberri framkvæmd. Ríkið ætti líka að hverfa frá áformum um að leigja hjúkrunarheimili af einkaaðilum, frekar en að axla sjálft ábyrgð á uppbyggingu, enda hefur það sýnt sig erlendis að slíkt fyrirkomulag eykur á flæði fjármuna úr ríkissjóði og í skattaskjól. Loks má nefna forvarnir, sem er vert að veita fjármunum til og draga þannig úr kostnaði á öðrum sviðum.“
„Átak til sparnaðar í opinbera kerfinu kallar á kjark, þar sem velta þarf við öllum þeim steinum sem þarf. Í öllum ráðuneytum og stofnunum þarf að skoða málin, þannig að ná megi fram hagræðingu og lækka útgjöld,“ segir Auður Kjartansdóttir, bæjarfulltrúi í Snæfellsbæ.
„Mér finnst til dæmis blasa við að lækka framlög ríkisins til stjórnmálaflokkanna. Í stóra samhenginu er þar kannski ekki um allra stærstu tölurnar að tefla, en þetta snýst um grundvallaratriði lýðræðisins. Mér finnst einkennilegt að pólitískar hreyfingar sem ekki einu sinni fá fulltrúa kjörna á þing njóti samt opinbers stuðnings, þótt peningarnir vissulega fylgi atkvæðafjölda þeirra. Þá heyri ég víða, nýkomin úr ferðalögum um Norðvesturkjördæmi sem frambjóðandi Sjálfstæðisflokks, að fólki í atvinnulífinu finnist vinnubrögð hjá eftirlitsstofnunum oft einkennast af tvíverknaði. Sömu stofnanir kanna sömu atriðin. Þarna má tvímælalaust gera betur.“
„Í heilbrigðiskerfinu eru auðvitað möguleikar til hagræðingar. Hugsa má margt upp á nýtt, færa verkefni milli stétta og stofnana og svo framvegis,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
„Stóru olíuskipi verður þó ekki snúið við í snatri. Ýmsu getur þurft að kosta til fyrir ávinning til lengdar. Ég held raunar að á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum þurfi frekar en hitt að gefa í varðandi tækjabúnað, aðstöðu og fleira. Þegar ég kem á heilbrigðisstofnanir sé ég að verkefnin eru endalaus. Ég verð hvergi vör við að starfsfólkið sitji bara í rólegheitum að dúddast. Niðurskurðarhnífur er því kannski ekki tólið sem þarf hér, en margt smátt gerir eitt stórt; til dæmis á Landspítalanum en til hans fara rúmlega 100 milljarðar króna á ári. Svo er alveg klárt í mínum huga að ekki á að skera niður í forvörnum varðandi vímuefnaneyslu ungs fólks. Slíku geta fylgt háir bakreikningar.“
„Í ríkisrekstrinum er mikilvægt að gott aðhald sé á sérhverjum pósti. Slíkt er eilífðarmál,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar – stéttarfélags í Þingeyjarsýslum.
„Brýnast tel ég þó vera að tekið sé á skattsvikum, en þau nema tugum milljarða króna á hverju ári. Alls konar glufur eru í skattkerfinu sem menn virðast nýta, ellegar koma sér vísvitandi undan því að greiða í sameiginlega sjóði það sem skylda er. Þessu hef ég oft vakið athygli á, meðal annars á opnum fundi sem Kristrún Frostadóttir stóð fyrir hér á Húsavík nú nýlega. Þar samsinnti hún þessum sjónarmiðum. Auðvitað má víða spara í stjórnkerfinu og matarholur eru víða. Hitt ber að hafa í hug að þó eitt ráðuneyti sé lagt niður eða ráðherrabílum fækkað ræður það ekki úrslitum um þjóðarhag. Ef fara skal í hagræðingu og niðurskurð þarf heildarsýn og spurningin um hvernig samfélag við viljum á að vera leiðarljós.“
Háskólastigið kostar um 70 milljarða króna, skrifar Kári Allansson. Hvers vegna á sjómaður í Bolungarvík að niðurgreiða nám í kynjafræði fyrir nemanda í Reykjavík? Það eru of margir háskólar og tengja þarf námsframboð við eftirspurn í samfélaginu.
Sameina heilbrigðisstofnanir landsbyggðar, Embætti landlæknis, Vinnueftirlitið. Mynda eina samræmda heilbrigðisstofnun með svæðisbundnum einingum. Ávinningur: 500-700 milljónir króna, segir Hermundur Skaftfeld Sigurðsson. Fella niður listamannalaun. Setja upp listamannastyrki eins og nýsköpunarstyrkina. Fyrir listamenn sem eru að byrja að reyna að koma sér á framfæri til að geta sótt um stuðning, segir Elsa Hrönn Bjarnadóttir.
Hafa meira aðhald á Alþingi í sambandi við veisluhöld og útgjöld í tengslum við hvert ráðuneyti. sleppa vínveitingum og vera fyrirmyndir fyrir ungt fólk. Er að vinna hjá ríkinu í framhaldsskóla sem greiðir ekki vínveitingar fyrir starfsfólk, tiltekur Hildur Margrét Einarsdóttir.
Breyta skipulagi sendiráða þannig að eitt sendiráð verði starfrækt fyrir öll Norðurlönd, t.d. í Kaupmannahöfn. Hætta öllum hernaðarlegum fjárstuðningi við Úkraínu. Bjóða í staðinn fram forystu friðarviðræðna sem fari fram í Höfða, er tillaga sú sem Valþór Hlöðversson sendi inn. Rukkum alla túrista sem koma til Íslands með flugi eða skipi um 5.000 kr., er hugmynd sem Guðrún Kristín Björgvinsdóttir kemur með.
Hættið að eltast við 1-2 milljónir kr. undir koddum eldri borgara og öryrkja og leyfið þeim að spara fyrir aðra en TR. Skattur upp á rúm 80% með fjármagnstekjusköttum er til skammar. Brýnna að taka á þeim sem lifa 100% á fjármagnstekjum og þeim sem fá auðlindir þjóðarinnar gefins, skrifar Eiríkur Stefán Eiríksson. sbs@mbl.is