Kristín Jóna Sigurjónsdóttir fæddist á Ísafirði 24. maí 1929. Hún lést á Grund í Reykjavík 15. desember 2024.

Kristín var dóttir hjónanna Sigurjóns Sigurbjörnssonar, f. 6. febrúar 1898, d. 23. nóvember 1982, og Guðrúnar Einarsdóttur f. 14. september 1891, d. 2. apríl 1976. Bræður hennar voru Einar Hilmar Filipp, f. 30. ágúst 1926, d. 22. júní 2002, og Kristján Elías, fæddur 1932, dó í frumbernsku. Uppeldissystir þeirra var Svanhildur Snæbjörnsdóttir, f. 30. nóvember 1922, d. 10. nóvember 2011. Þau voru systkinabörn en Snæbjörn var móðurbróðir þeirra systkina.

Kristín ólst upp í föðurgarði á Ísafirði og gekk þar í skóla þar til fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur og hún hóf störf hjá Landssíma Íslands sem símamær. Því starfi gegndi hún þar til henni bauðst starf hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar en seinni hluta starfsævi sinnar starfaði hún sem gjaldkeri hjá Búnaðarbankanum í útibúi bankans á Hótel Sögu.

Kristín eða Dídí eins og hún var ætíð kölluð af vinum og ættingjum giftist ekki og átti ekki börn. Hún bjó með foreldrum sínum og hélt heimili með föður sínum eftir að móðir hennar lést þar til hann lést sex árum síðar.

Nokkru síðar festi hún kaup á íbúð að Grandavegi 47 þar sem hún bjó allar götur síðan þar til heilsa hennar leyfði ekki lengur að hún byggi ein og þá flutti hún á Grund.

Útför Kristínar fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 7. janúar 2025, klukkan 13.

Dídí frænka eins ég kallaði hana alltaf er látin og nokkuð södd lífdaga 95 ára að aldri. Dídí var systir hans pabba og voru þau þrjú systkinin en Dídí var innan við þriggja ára þegar hún missti yngri bróður sinn sem lifði bara rétt rúmlega fjóra mánuði. Dídí gifti sig aldrei og eignaðist ekki nein börn svo við systkinin, bróðurbörnin hennar, vorum svolítið eins og hennar, sérstaklega þegar við vorum lítil. Þá er mér sagt að hún hafi verið dugleg að koma heim til okkar og hjálpa mömmu með heimilið. Hún var foreldrum sínum mikil stoð og stytta og bjó mestan hluta ævi þeirra með þeim. Eftir að móðir hennar dó hélt hún heimili fyrir fyrir pabba sinn þar til hann féll frá. Í seinni tíð, þegar ég bauð henni í veislu, þá varð að vera lambalæri í matinn, því það var hennar uppáhald, og svo alltaf þegar það var kominn tími til að keyra hana heim, þá hafði hún það fyrir venju að hvísla til mín hvort ég væri ekki búinn að pakka inn afganginum af lærinu, sem ég að sjálfsögðu lét hana alltaf fá með í nesti. Dídí hafði mjög sérstakan húmor, sem í daglegu tali hjá fjölskyldunni minni er kallaður Klettsbúðarhúmorinn, sem er svolítið kaldhæðinn en þegar maður er búinn að kynnast honum afskaplega skemmtilegur og oft mjög fyndinn. Takk fyrir allt mín kæra frænka og ég veit að þú ert núna komin til ömmu og afa sem biðu þín við dánarbeðinn.

Þinn bróðursonur og frændi,

Ómar Einarsson.