Guðni Reykdal Magnússon fæddist í Vestmannaeyjum 28. mars 1935.
Faðir Reykdals var Kristinn Magnús, f. 1904, og móðir Jónína Ágústa, f. 1902. Eignuðust þau auk Reykdals þrjú börn og einn uppeldisson, Þórunni Magnúsdóttur, f. 25. mars 1930, d. 15. febrúar 2013, Kristínu Magnúsdóttur, f. 25. mars 1930, d. 24. október 1994, Margréti Ólafíu Magnúsdóttur, f. 8. janúar 1932, d. 1. mars 2007, og uppeldissoninn Magnús Þór, f. 15. janúar 1947.
Eiginkona hans til tæplega 70 ára var Margrét Ólafía Óskarsdóttir, f. 27. nóvember 1938, d. 24. ágúst 2024.
Þau áttu tvo syni, þeir eru: 1) Óskar Sesar Reykdalsson, f. 15. janúar 1960, giftur Bryndísi Guðjónsdóttur. Þau eiga fjögur börn: Margréti Dís, Sigríði Erlu, Guðrúnu Nínu og Guðjón Reykdal. Margrét Dís er gift Jóni Erni og saman eiga þau þrjú börn: Bryndísi Maríu, Friðrik Bjarna og Katrínu Erlu. Sigríður Erla er gift Jakob Olson og saman eiga þau tvo drengi: Óskar Ágúst og Harald Kristin. Guðrún Nína er gift Árna Sæmundssyni og saman eiga þau tvo drengi: Guðjón Steinar og Sæmund Óskar. Kærasta Guðjóns Reykdals er Priyanka Thapa. 2) Magnús Ninni Reykdalsson, f. 18. maí 1970, giftur Sóleyju Huldu Hólmarsdóttur. Þau eiga tvö börn: Hólmfríði Erlu, en kærasti hennar er Fannar Yngvi Rafnarsson, og Reykdal Mána.
Reykdal, eins og hann var kallaður, fæddist í Vestmannaeyjum 28. mars 1935 og bjó þar til 1953. Í Eyjum gekk hann í skóla og tók vélstjóraréttindi. Á sínum yngri árum vann hann við beitningar til að vinna sér inn peninga. Hann gekk í aðventistasöfnuðinn og tók virkan þátt í starfi hans. Þegar Reykdal var um 15 ára gamall fór hann til sjós með pabba sínum og var á sjó í fjögur ár. Þá flutti fjölskyldan til Keflavíkur og vann Reykdal þar við að keyra leigubíl.
Hann kynntist Grétu sem varð eiginkona hans og giftu þau sig árið 1954. Þau náði því að vera gift í 70 ár. Þau fluttu á Selfoss árið 1955 og byggðu sér hús árið 1957 að Lyngheiði 8, þar sem þau bjuggu til 2017 þegar þau fluttu í Grænumörk 5. Á síðasta ári á fluttu þau á hjúkrunarheimilið Móberg en þar létust þau.
Reykdal vann í Mjólkurbúi Flóamanna í 50 ár. Keyrði þar mjólkurbíl fyrstu 30 árin og tók svo við starfi verkstjóra mjólkurbílstjóra. Meðfram starfi í MBF var hann með rekstur á rútubifreiðum og bílaleigu.
Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 7. janúar 2024, klukkan 14.
Afi minn.
Elsku hjartans Reykdal afi minn. Nú ertu kominn við hlið elsku ömmu, saman á ný.
Fyrsta minning mín af afa mínum var karl frá Íslandi sem þótti sinnep úr ljósbrúnni keramikdollu, með korkloki, gott. Þessi minning er víst frá því að afi minn og amma komu að sjá um okkur krakkana þegar foreldrar okkar fóru í ferðalag. Svo þegar foreldrar okkar fluttu okkur búferlum í heimahagann, heim til Íslands, kom í ljós að sinnepsgæðingurinn forðum daga var hann afi minn og nafni. Afi var líka karlinn sem sat í hægindastólnum sem var staðsettur svo að hann hefði yfirsýn bæði yfir stofuna og borðstofuna. Einnig svo að hann gæti horft á ömmu mína í gagnstæðum hægindastól. Á sumrin mátti finna hann í sólbaði á tvöföldum sólbekk, öllu heldur sólstól, sem afi og amma staðfastlega kölluðu Adam og Evu. Með tímanum voru sætin uppfærð en þessar setstöður í Lyngheiði 8 breyttust ekkert öll þau ár sem þau bjuggu þar. Reykdal afi var þó ekki þekktur fyrir að sitja kyrr. Þvert á móti. Í seinni tíð var hann þekktur fyrir sína löngu göngutúra kringum Selfoss. Þegar göngugetan þvarr urðu þeir að innanhússgöngutúrum sem rötuðu einmitt í sjónvarpsfréttirnar. Snemma á sjötugsaldri tók hann vendingu til hollara mataræðis samhliða göngunni og fór að borða einungis hollan mat, þ.e. heilu kálhausana, hrásalat og tómata í öll mál og engin óhollusta. Þessum lífsstíl hélt hann út ævina. Afi var rólyndismaður og alltaf í góðu skapi. Ást hans til ömmu var alltaf augljós. Síðasta skiptið sem ég sá afa var hann hæstánægður með allt jólaskraut þeirra hjóna uppstillt í herberginu sínu. Hann var að undirbúa jólagjafir handa sonum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum og var hinn ánægðasti.
Tíminn líður áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara hann hugsi soldið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.
Mér finnst þetta erindi úr lagi Megasar „Tvær stjörnur“ einmitt lýsa Reykdali afa mínum þessa síðustu mánuði. Að kveðja lífsförunaut sinn, ástina sína. Tíminn líður og er ófyrirgefinn og afi tók áföllunum, og reyndar öllu, ætíð með jafnaðargeði.
Hann jafnvel brosti þegar hann vissi að stutt væri eftir og að hann fengi að hitta Grétu sína aftur. Afi var nú ekki hræddur við dauðann og vissi með vissu hvað biði hans þar.
Hann sefur nú svefninum langa til hins hinsta dags þar sem hann mun rísa við hlið ástarinnar í lífi sínu aftur, Grétu ömmu. Þau verða ung og hraust í ríki Drottins, saman þarna tvær stjörnur.
Svo lít ég upp og ég sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær,
ég man þig þegar augu mín eru opin hverja stund
en þegar ég nú legg þau aftur fer ég
á þinn fund.
(Megas)
Þitt barnabarn og nafni,
Guðjón Reykdal Óskarsson.