Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Óróapúls í eldstöðvakerfi Ljósufalla verður á dagskrá fundar bæjarstjórnar Snæfellsbæjar á fimmtudag. Björn H. Hilmarsson forseti bæjarstjórnar staðfestir það í samtali við Morgunblaðið.
Jarðskjálftar hafa verið tíðir við Grjótárvatn í Ljósufjallakerfinu undanfarnar tvær vikur og kom óróapúls fram á skjálftamæli í Hítardal á fimmtudag. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands segir slíkan óróapúls eða -hviðu skýrt merki um kviku að koma sér fyrir í jarðskorpunni á töluverðu dýpi.
Spurður hvort innan stjórnkerfisins sé fólk farið að gera ráðstafanir og huga að undirbúningi vegna hugsanlegra hamfara segir Björn samtalið ekki hafa verið tekið í bæjarstjórn en síðasti bæjarstjórnarfundur var í byrjun desember, áður en fór að bera á óróa.
„Ég geri ráð fyrir að við tökum þetta samtal. Það er bæjarstjórnarfundur í vikunni og þá ræðum við um þetta og þar verður örugglega tekið fyrir hver okkar viðbrögð verða við þessum hræringum sem nú eru,“ segir Björn.
Veðurstofan fylgist með
Eldstöðvakerfi á Íslandi eru mörg og ólík að efnasamsetningu og gosefnaframleiðslu. Virk kerfi eru gjarnan flokkuð eftir bergröðum og tilheyrir Ljósufjallakerfið alkalískri bergröð. Kerfið hefur verið nokkuð virkt á nútíma og síðast varð þar lítið basaltgos á 10. öld. Gostíðni síðustu 10 þúsund ár er að meðaltali um eitt eldgos á 400 ára fresti.
Veðurstofa Íslands fylgist vel með framvindunni og hefur setti upp gps-mæli í Hítardal. Með því er hægt að vakta landris eða þær hreyfingar sem kunna að verða.