Séra Hjálmar Jónsson sendi Júlíusi Sólnes heillaskeyti á nýársdag: Ennþá, vinur, ertu fitt öðrum mönnum fremur. Fyrir magnað framlag þitt fálkaorðan kemur. Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri í Skagafirði orti um áramótin: Því valdið gæti veðurlag ef…

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Séra Hjálmar Jónsson sendi Júlíusi Sólnes heillaskeyti á nýársdag:

Ennþá, vinur, ertu fitt

öðrum mönnum fremur.

Fyrir magnað framlag þitt

fálkaorðan kemur.

Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri í Skagafirði orti um áramótin:

Því valdið gæti veðurlag

ef vel er rýnt í skeytin

að gaddurinn frá gamlársdag

geymi nýársheitin.

Sá kunni skagfirski hestamaður Guðmundur Sveinsson orti svo í framhaldinu:

Er í nokkuð góðum gír

gleði forðar tári.

Birtist bráðum dagur nýr

byrjun á nýju ári.

Og á fyrsta degi nýs árs yrkir Gunnar:

Svo hér verði gott og gleðilegt ár

þá gamla er hnigið til viðar.

Reynum að græða sérhvert sár

og sýna okkar bestu hliðar.

„Breyttir tímar“ er yfirskrift vísu sem Magnús Halldórsson gaukar að Vísnahorninu:

Þeim öðru vísi áður brá,

sem aðeins voru'á skaki.

Í netaveiði nú menn fá,

nóg af koníaki.

Þórarinn Már Baldursson yrkir um Dótarímur Þórarins Eldjárns sem komu út fyrir jólin:

Gangir þú um dimman dal,

við djöfla heyir glímur,

opið er hlið að himnasal

sem heitir Dótarímur.

Magnús Halldórsson yrkir að gefnu tilefni um hrosstað og skán:

Um það tæpast verður vélt,

þó voða fátt ég nefni.

Allt sem tóru í oss hélt

mun orðið spilliefni.

Hallmundur Guðmundsson kallar það „fjáröflunarútsjónarsemi“:

Nú borgarsjóði borgið er

þó botnlaus virtist hítin.

Þar Einar loks til sólar sér

– sæll með hrossaskítinn.