Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
Nú þegar hátíð ljóss og friðar er að baki langar mig að byrja á að óska öllum landsmönnum gleðilegs nýs árs. Innan skamms verður þing sett og þingstörf hefjast undir forystu nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins

Nú þegar hátíð ljóss og friðar er að baki langar mig að byrja á að óska öllum landsmönnum gleðilegs nýs árs. Innan skamms verður þing sett og þingstörf hefjast undir forystu nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Samstarfið og árin fram undan leggjast afar vel í mig sem nýjan þingmann Flokks fólksins.

Ég hlakka mjög til að fá að leggja mitt af mörkum til að skoða hvar og hvernig er hægt að bæta þjónustu við börn, barnafjölskyldur og hvernig hægt er að létta undir með og mæta betur þörfum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu og sem hafa af einhverjum orsökum þurft að hafa meira fyrir lífinu en gengur og gerist. Þetta eru málaflokkar sem Flokkur fólksins leggur mikla áherslu á.

Nú er staðan gjörbreytt. Flokkur fólksins fer úr stjórnarandstöðu yfir í ríkisstjórn og í stað þess að vera sífellt í bratta, kallandi eftir breytingum, oft fyrir daufum eyrum, er núna allt í einu hægt að fara að bretta upp ermar og láta verkin tala. Allir ríkisstjórnarflokkarnir hafa lengi barist fyrir réttlátara samfélagi og fyrir því að bæta beina þjónustu við landsmenn. Nefna má hér fækkun biðlista, mannúðlegra almannatryggingarkerfi og aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu sem dæmi um áherslumál flokkanna. Sjálf er ég einnig mjög upptekin af því að auka hagkvæmni og skilvirkni í öllum verkum. Að gera hluti með eins hagkvæmum hætti og hægt er og gæta þess þó að hagræðing leiði aldrei til skertrar þjónustu við viðkvæma hópa. Oft má ná hagræðingu með því að einfalda boðleiðir, fækka fundum, fækka milliliðum og millistjórnendum. Annað sem mér er umhugað um er að vinna hratt en samt vel að því að auka skilvirkni í verklagi og láta hlutina ganga. Skýrar tímalínur hjálpa í þessu sambandi. Það sem mér hefur fundist afar mikilvægt í starfi mínu er að hlusta á raddir fólksins, heyra hvað það er að segja og skoða alla möguleika á hvort hægt er að koma til móts við óskir þess og mæta þörfum þess. Stjórnmálamaður sem ekki hlustar ætti að finna sér annað starf.

Fjögur ár eru langur tími í pólitík. Á þessum tíma er hægt að gera margt, bæði lítið og stórt. Ríkisstjórnin hefur kynnt forgangsverkefni sín og hafist handa við að hrinda þeim í framkvæmd. Sem dæmi er búið að fækka ráðuneytum um eitt til að tryggja hagræðingu í ríkisrekstri. Fleira bíður handan við hornið og eftir því bíðum við öll spennt.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Höf.: Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir