Biðstaða Mygla greindist í Menntaskólanum við Sund árið 2023.
Biðstaða Mygla greindist í Menntaskólanum við Sund árið 2023. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sex færanlegar kennslustofur verða settar upp á lóð Menntaskólans við Sund. Stofurnar verða teknar í notkun næsta haust. Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor MS, segir að gleðiefni sé að betri aðstaða fáist með umræddum stofum en að enn sé beðið eftir ákvörðun um framtíð húsnæðis skólans

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Sex færanlegar kennslustofur verða settar upp á lóð Menntaskólans við Sund. Stofurnar verða teknar í notkun næsta haust. Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor MS, segir að gleðiefni sé að betri aðstaða fáist með umræddum stofum en að enn sé beðið eftir ákvörðun um framtíð húsnæðis skólans.

„Nú eru akkúrat tvö ár síðan við fengum fyrstu mygluskýrsluna og við höfum verið með þúsund fermetra lokaða síðan þá. Það hefur því þrengt ansi mikið að okkur,“ segir hún en af þessum sökum hafa 60 færri nemendur verið við nám í MS síðan myglan kom upp.

Talsverðar rakaskemmdir komu upp á fyrstu og þriðju hæð skólahússins. Helga Sigríður segir að færanlegu kennslustofurnar séu bara til að redda því ástandi sem nemendur og kennarar þurfa nú að búa við. „Það þarf að endurbyggja þessi hús eða taka ákvörðun um hvað á að gera. Það hefur dregist að taka þessa ákvörðun. Ég leyfi mér að orða það sem svo að við höfum verið eins og skilnaðarbarn hjá síðustu ríkisstjórn. Menntamálaráðherra var allur af vilja gerður en fékk ekki fé frá fjármálaráðherra sem var í öðrum stjórnmálaflokki. Nú þegar komin er ný ríkisstjórn byrja ég aftur að pressa á að eitthvað verði gert. Menntamálaráðuneytið er mjög vel upplýst um stöðu mála og starfsfólk þar ætlar að upplýsa nýjan ráðherra.“

Fleiri skýringar eru á töfum á framkvæmdum við skólann. Ein er þegar illa þokkaðar hugmyndir Ásmundar Einars Daðasonar um sameiningu menntaskóla komu fram. Eins hafi verið rætt um að flytja starfsemina í Stakkahlíð en ekki hafi verið hægt að tryggja að húsnæðið þar væri í betra ásigkomulagi en núverandi húsnæði.

Helga segir að ágætlega hafi gengið að halda skólastarfinu gangandi þrátt fyrir sambúð við mygluna. „Það eru gerðar loftgæðamælingar öðru hverju og svo fara fram alþrif, síðast í október eða nóvember. Engu að síður þarf að lofta vel svo öllum líði vel.“

Tveggja ára biðstaða

Tvö ár eru nú liðin frá því loka þurfti eitt þúsund fermetrum af húsnæði MS.

Af þeim sökum hafa 60 færri nemendur verið þar við nám en ella.

Sex færanlegar skólastofur verða settar upp á lóð skólans og teknar í notkun í haust.

Ákvörðunar stjórnvalda um framtíð húsnæðisins er beðið.