Reykjavíkurflugvöllur Til stendur að reisa nýja byggð við Skerjafjörð, vestan við norður-suður-brautina. Fjótlega verður ráðist í smíði brúar við brautarendann, sem liggja mun yfir í Kópavog.
Reykjavíkurflugvöllur Til stendur að reisa nýja byggð við Skerjafjörð, vestan við norður-suður-brautina. Fjótlega verður ráðist í smíði brúar við brautarendann, sem liggja mun yfir í Kópavog. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Isavia innanlandsflugvellir ehf. fá starfsleyfi fyrir Reykjavíkurflugvöll til næstu átta ára eða til ársloka 2032. Þetta er niðurstaða skipulagsfulltrúa Reykjavíkur.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa sl. haust var lagður fram tölvupóstur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar Isavia innanlandsflugvalla ehf. um endurnýjun á starfsleyfi Reykjavíkurflugvallar fyrir mengandi starfsemi, þ.e. rekstri flugvallar, bifreiða- og vélaverkstæðis og olíugeymis til eigin nota.

Óskað er eftir umsögn skipulagsfulltrúa um hvort starfsemin sé í samræmi við skipulag og um gildistíma starfsleyfis en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefur alla jafna út starfsleyfi til 12 ára. Erindinu var vísað til umsagnar verkefnastjóra og lagt fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 19. desember 2024. Umsögn skipulagsfulltrúa var samþykkt.

Fram kemur í umsögninni að í gildi sé deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar staðfest í B-deild Stjórnartíðinda 13. júní 2016.

Einungis mannvirki sem tengist flugi eða rekstri flugvallarins með beinum hætti er heimilt að reisa á svæðinu í samræmi við takmarkanir og skipulagsreglur fyrir flugvallarsvæðið. Öll mannvirki byggð á svæðinu eftir 2015 skulu hönnuð þannig að auðvelt sé að fjarlægja þau. Mörk núverandi deiliskipulagsmarka flugvallarins miða við að ný íbúðabyggð Nýja Skerjafjarðar rísi austan núverandi byggðar í Einarsnesi og ný strætisvagnaleið verði lögð í tengslum við íbúðabyggðina í Skerjafirði.

Aðalskipulag Reykjavíkur til 2040 gerir ráð fyrir að flugvallarstarfsemi í Vatnsmýri verði lögð af á skipulagstímabilinu. Mögulegt verði að reka flugstarfsemi á flugvellinum til ársins 2032. Aðstaða til þyrlulendinga vegna þjónustu Landhelgisgæslunnar verður þó áfram heimil á svæðinu, samkvæmt ákvörðun í deiliskipulagi.

Á grundvelli ofangreindra ákvæða gildandi aðalskipulags eru ekki forsendur til að gefa út starfsleyfi til lengri tíma en átta ára er varðar rekstur innanlandsflugvallar, segir í umsögn verkefnastjórans.

Hvað varðar starfsemi einkaflugs, s.s. einkaþotur, þyrluflug og annað leiguflug ferðaþjónustufyrirtækja, svo og æfinga- og kennsluflug, er mælt með því að starfsleyfi verði til enn skemmri tíma. Meðal annars í ljósi vaxandi ónæðis vegna þyrluflugs og einkaþota og fyrirliggjandi samkomulags ríkis og borgar frá 2013 og eldri viljayfirlýsinga ríkisvaldsins um að finna einka-, æfinga- og kennslufluginu nýjan stað.

Í gildi er samkomulag milli ríkis og borgar um óbreytta starfsemi á Reykjavíkurflugvelli uns nýr flugvöllur hefur verið byggður. Óvissa er um það hvort og þá hvenær nýr flugvöllur verði lagður.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson