Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Háskólanemarnir Rakel María Ellingsen Óttarsdóttir og Viktor Már Guðmundsson fengu sl. laugardag hvort um sig eina milljón kr. úr minningarsjóði Hjalta Þórs Ísleifssonar stærðfræðings sem þá var úthlutað úr í fyrsta sinn. Bæði eru þau langt komin í sínu námi og fá nú atfylgi til að ljúka því og hasla sér völl til starfa. Þeir peningar sem eru í sjóðnum eru að stærstum hluta áheitafé sem safnaðist í Reykjavíkurmaraþoninu sl. sumar en þá var sjóðurinn stofnaður og málefnið kynnt. Tilgangurinn er sá að styðja við ungt fólk sem er á afreksbraut í stærðfræðinámi.
Tók öll próf upp á 10
Hjalti Þór Ísleifsson var fæddur árið 1996 og ólst upp á Akureyri og síðar í Kópavogi. Hann var afburðagóður námsmaður og tók öll próf upp á 10. Lauk stúdentsprófi frá MR og fór eftir það í stærðfræðinám við Háskóla Íslands. Einnig tók hann þátt í ýmsum keppnum í stærðfræði og náði þar jafnan besta árangri og var á beinni braut. Eftir nám hér heima hélt Hjalti utan og fór í nám við ETH-háskólann í Zürich í Sviss, lauk þar meistaragráðu í stærðfræði eftir aðeins tveggja ára nám með hæstu mögulegu einkunn. Fór hann strax í kjölfarið í doktorsnám sem hann nálgaðist að ljúka þegar hann féll fyrir eigin hendi í desember 2023.
Hugur Hjalta fylltist af ranghugmyndum um að árangur hans í doktorsnáminu væri ekki í lagi, sagði Heiður Hjaltadóttir, móðir hans, í viðtali við Morgunblaðið sl. sumar. Strax eftir andlát hans ákvað hún að stofna fyrrgreindan sjóð og undirtektir við því voru góðar. Alls 6,5 millj. kr. söfnuðust í maraþoninu og eru þeir peningar afl til þess að gera góða hluti, það er að styðja við unga stærðfræðinga sem ætla sér stóra hluti. Rökræna stærðfræðin var honum alla tíð mjög hugleikin og hafði hann meðal annars miklar áhyggjur af því að stærðfræðikunnátta barna á Íslandi færi dalandi, og þar þyrfti að gera betur og þá sérstaklega á fyrri stigum náms.
„Eins talaði Hjalti oft um að sér þætti ósanngjarnt að það hefðu ekki allir sömu tækifæri til náms. Það að mennta sig ætti ekki að vera forréttindi,“ sagði Heiður í ávarpi sem hún flutti við úthlutun styrkjanna. Áður hefur hún lýst því að sér og sínum sé í mun að halda nafni og minningu sonarins á lofti. Það verði vel gert með stofnun sjóðsins sem hún telji vera gott og mikilvægt framtak. Hve margir hafi lagt málinu lið, meðal annars með áheitahlaupum sl. sumar, staðfesti að aðstandendur Hjalta standi ekki einir – og að málstaðurinn sem sjóðurinn stendur fyrir skipti miklu máli.
Styrkþegarnir í Hjaltasjóði eru sem fyrr segir tveir. Rakel María Ellingsen Óttarsdóttir útskrifaðist með BS-próf í hagnýtri stærðfræði sl. sumar, með kjörsviðið líkanagerð og reiknivísindi. Nú stefnir hún á framhaldsnám í Oxford-háskóla í Bretlandi, en hér heima hefur hún á síðustu misserum meðal annars sinnt einkakennslu í stærðfræði þar sem margir nemendur hennar hafa verið af erlendum uppruna.
Viktor Már Guðmundsson er langt kominn í BS-námi í stærðfræði í HÍ og hefur tölvunarfræði sem kjörsvið. Hann hefur á síðustu árum tekið þátt í ýmsum keppnum tengdum stærðfræðinni svo og í ýmsum fjölbreyttum akademískum og hagnýtum verkefnum. Áhugi hans beinist annars mikið að gervigreind, vélrænu námi og notkun þeirra tækniaðferða í heilbrigðisgeiranum. Meðal annars vinnur hann við að þróa tölvustýrða ristilspeglun með það að markmiði að auka hraða og þægindi við skimun fyrir krabbameini í meltingarvegi.