Fjölskyldan Jay-Z, Beyoncé og dóttir þeirra Blue Ivy Carter á heimsfrumsýningu myndarinnar í Hollywood.
Fjölskyldan Jay-Z, Beyoncé og dóttir þeirra Blue Ivy Carter á heimsfrumsýningu myndarinnar í Hollywood. — AFP/Lisa O’Connor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Múfasa, Simbi, Skari, Kíara og Nala eru persónur sem margir kannast við úr kvikmyndinni Konungur ljónanna eða The Lion King sem kom út árið 1994. Í kjölfar hennar hafa svo hinar ýmsu myndir um þessar þekktu Disney-persónur verið gefnar út en í…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Múfasa, Simbi, Skari, Kíara og Nala eru persónur sem margir kannast við úr kvikmyndinni Konungur ljónanna eða The Lion King sem kom út árið 1994. Í kjölfar hennar hafa svo hinar ýmsu myndir um þessar þekktu Disney-persónur verið gefnar út en í desember var sú nýjasta frumsýnd, Mufasa: The Lion King, í leikstjórn Barrys Jenkins, með frumsömdum lögum eftir ­Lin-Manuel Miranda. Í tilefni af frumsýningunni bauðst Morgunblaðinu aðgangur að blaðamannafundi sem haldinn var á dögunum með þeim tveimur ásamt nokkrum af stjörnum myndarinnar, það er þeim sem ljá nokkrum af aðalpersónunum raddir sínar; Aaron Pierre (Múfasa), Kelvin Harrison Jr. (Taka), Tiffany Boone (Sara­bía), Seth Rogen (Púmba) og Billy Eichner (Tímon). Fór fundurinn þannig fram að Nzinga Blake, frá sjónvarpsstöðinni ABC, stýrði fundinum og sá um að bera upp þær spurningar fyrir leikarana sem blaðamenn höfðu sett inn á sérstakan spurningaþráð. Þess má geta að mæðgurnar Beyoncé Knowles-­Carter og Blue Ivy Carter tala fyrir þær Nölu og Kíöru í myndinni en Kíara er einmitt dóttir Simba og Nölu. Þær voru þó hvorugar viðstaddar fundinn.

Ný sýn á konunginn sjálfan

„Í myndinni The Lion King, þegar Múfasa lítur upp til himins og þú sérð alla stóru konungana, gerum við ráð fyrir að þeir hafi bara allir fæðst frábærir. Ég sá þessa mynd því sem tækifæri til að koma Múfasa aðeins niður á jörðina, sýna að þessi ljónastrákur hefði ekki fæðst fullkominn. Hann fæddist ekki ríkur. Hann fæddist ekki með einhvern titil eða rétt,“ segir leikstjórinn Barry Jenkins inntur eftir megininntaki myndarinnar og bætir því við að hann hafi einsett sér að gera mynd sem höfðaði jafnt til fjögurra ára barns sem 104 ára gamallar manneskju. Í kjölfarið sprettur upp skemmtileg umræða um bakgrunn Múfasa og eru leikararnir flestir sammála um að áhorfendur muni tengja enn frekar við konunginn í nýju myndinni, vitandi hversu mikið hann þurfti að hafa fyrir hefðartitlinum.

„Þegar ég las fyrst handritið eftir Jeff Nathanson áttaði ég mig á því að ég hafði gert ráð fyrir svo mörgum hlutum um hvernig maður verður konungur, um hvernig maður verður James Earl Jones [rödd Múfasa frá 1994-2019]. Að þessi persóna vissi bara allt og kæmi úr fullkomnum aðstæðum. Það var því mjög flott að lesa handrit Jeffs og sjá að allt þetta sem við ­höfðum haldið í yfir 30 ár um hvernig einhver yrði að fullkomnum föður og hinum fullkomna leiðtoga var bara alls ekki rétt,“ segir Eichner. Hinir leikararnir taka undir og segjast allir muna eftir því hve djúpstæð áhrif upprunalega myndin hafði á þá, þá sér í lagi konungurinn sjálfur, Múfasa. „Ég held að ástæðan fyrir því að þessi karakter sé jafn elskaður og raun ber vitni sé sú að í honum geislar ákveðinn kjarni kærleika, samveru og einingar. Ég held að við þráum það öll í okkar eigin lífi og í okkar persónulegu sem og alþjóðlegu samfélögum,“ skýtur Pierre inn í. Segir hann hinn upprunalega Múfasa, James Earl Jones heitinn, hafa verið mikla fyrirmynd og veitt sér gríðarlegan innblástur. „Jafnvel áður en ég vissi af því að ég yrði boðinn velkominn í þessa fjölskyldu veitti Jones mér innblástur. Fyrir mér hefur hann alltaf verið toppurinn, sé litið til ferils hans, sviðsframkomu og til þessarar voldugu raddar sem hann hafði.“

Líkjast öll persónum sínum

Þá eru þau að lokum spurð að því að hvaða leyti þau líkist persónunum sem þau túlki í myndinni. Segist Pierre tengja mest við það hversu harður Múfasa sé við sjálfan sig og að hann haldi að hann hafi svör við öllum heimsins spurningum. „Ég hef verið þannig meirihluta lífs míns svo ég tengi mest við það myndi ég segja.“ Nefnir Harrison Jr. að það sem sé líkast með þeim Taka sé einna helst forvitnin. „Hann elskar að spyrja margra spurninga. Ég held að ég deili fróðleiksfýsninni með honum sem og þessu léttlyndi sem einkennir hann.“ Boone grípur keflið og segir þær Sarabíu eiga það sameiginlegt að vera einstaklega hreinskilnar. „Ég held að fólkið í kringum mig myndi einmitt lýsa mér á þann hátt. Ég get stundum verið alveg hrottalega hreinskilin því ef mér þykir vænt um fólk þá segi ég því sannleikann. Sarabía er einmitt þannig, hún sér líka aðeins í gegnum fólk,“ segir hún og uppsker hlátur allra viðstaddra.

„Ég vil hins vegar athygli og meiri athygli. Við Púmba erum líkir að því leyti. Hann hefur þennan barnslega eldmóð eins og ég og þessa lífsgleði,“ segir Rogen kíminn. „Tímon er einmitt lítill en hefur risastóran persónuleika og er ekki hræddur við að taka sitt pláss. Ég veit ekki hvort þið hafið tekið eftir því sama með mig,“ segir Eichner að síðustu svo að allir skella upp úr.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir