Örn Bárður Jónsson
Yfirskrift þessa greinarkorns kallast á við frekjustefið: „Ég á 'etta, ég má 'etta.“
Formaður Sjálfstæðisflokksins klifaði á því með miklum þjósti í Kryddsíldinni 2024 hvort meðlimir nýju ríkisstjórnarinnar ætluðu virkilega að voga sér að setja tímatakmörk á samninga um aðgengi að fiskimiðunum.
Honum var svarað með því að hann hefði nú sjálfur veitt Hval hf. leyfi til hvalveiða til fimm ára. Hann brást strax við með því að segja að þeim samningi væri ætlað að framlengjast sjálfkrafa! Já, svona selja menn auðlindir til einkavina og til ævarandi eignar.
Hver á landið og miðin?
Nýkrýndur konungur Danmerkur, Friðrik X., hélt sitt fyrsta áramótaávarp á gamlársdag. Hann sagði þar meðal annarra orða:
„Náttúran er ríkidæmi, sem vér höfum að láni. Enginn á himininn eða hafið, skógana eða dalina. Enginn á heldur stjörnurnar. Ekkert af oss hefur mátt til að setja eitt lítið blað á blóm. Hlutverk vort er að gæta jarðar vorrar, því á morgun kemur annar dagur.“ (Þýðing höfundar)
Ég á 'etta ekki og þú ekki heldur. Enginn á' etta, en við höfum það allt að láni.
Fyrir 12 árum ræddi ég við lögspeking um þjóðareign og fékk þau svör að hugtakið væri ekki til í lögfræði. Lögfræði er breytileg. Hún lýtur ekki neinum náttúrulögmálum og því finnst mér kominn tími á að hún hætti að klóra sér og fari í það verk að skilgreina að enginn geti slegið eign sinni á gæði lands eða sjávar. Skilgreina þarf auðlindir í anda skoðunar konungs, sem er hin eina rétta skilgreining út frá kristinni sköpunarguðfræði og lífssýn, og setja í lög að enginn geti slegið eign sinni á land eða mið, loft eða lög, mýrlendi eða mó, fjörð eða fjöru.
Þegar ég ók niður Jótland og Sjáland sl. sumar og sá öll sumarhúsin meðfram strandlengjunni varð mér hugsað til visku Dana og dirfsku gagnvart ESB, að undanskilja sumarhúsin í samningum, þannig að engir nema Danir geti átt þau.
En við Íslendingar erum stundum óforsjálir og með allt á útsölu, ef „réttir“ aðilar rétta fram loðna lófa.
Landnýting er vandmeðfarin og hana þarf að skilgreina og verðleggja. Ef einhver vill hagnast á íbúð minni eða lóð þarf að koma gjald til mín fyrir afnotin. Sama á við um bílinn minn, hugverk og aðrar eignir. Ef einhver vill gera út á hafið í kringum landið á þjóðin að fá af því réttlátar tekjur. Virkjun fallvatna, borun eftir heitu vatni, ræktun fisks í fjörðum og önnur nýting nýta náttúrunnar í ábataskyni á að skila af sér réttlátum tekjum til okkar allra.
Sem kristinn maður er ég stöðugt minntur á samkennd með öllu fólki og ábyrgð á sköpunarverkinu, án þess að jákvætt frumkvæði til hagsældar sé útilokað eða heft. Við erum öll ráðsmenn í þessum heimi og þurfum að gera reikningsskil að lífi loknu.
Nýlega leysti ég af sem sóknarprestur í Vesturbyggð og sá hvernig fiskeldið í fjörðunum hefur snúið öllu í jákvæða átt, stöðvað fólksflótta og bætt kjör almennings. Fyrirtækin fyrir vestan finna blóðið renna til skyldunnar þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð, en þau munu án efa kvarta og kveina verði óskað eftir auknu framlagi til samfélagsmála. Þannig er því ætíð farið í reiptogi hagsmunanna. Atvinnulífið er nú þegar, á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar, farið að hrópa og vara við auknum álögum.
Tengsl og tvær hliðar
Frelsi er mikilvægt hugtak, en það er ekki til í tómarúmi, ekki til, eitt og sér. Það fyrirfinnst ekki. Frelsi er tengslahugtak og verður ætíð eins konar önnur hlið myntar. Hin hliðin er ábyrgð. Þetta tvennt verður aldrei skilið að, fremur en ástin í ljóði þjóðskáldsins, Jónasar:
En anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Gjaldið fyrir afnotin af auðlindunum þarf að vera sanngjarnt og í jafnvægi milli ráðsmanna auðlindanna – þ.e. þjóðarinnar, sem hefur það allt að láni – og þeirra sem drífa framfarir og atvinnu. Launafólk kemur líka að því að mynda arð fyrirtækjanna. Gleymum því ekki. Kröfugerð frumkvöðla og athafnamanna þarf að vera á réttlátum nótum eins og okkar allra sem gerum tilkall til arðs af auðlindunum.
Enginn má leika lausum hala í útlöndum og hagnast á auðlindum eða eignum einstaklinga eða hópa ytra – og eiga ekki heldur að geta gert það hér á landi.
Hver á landið og hver á okkur?
Við lifum í heimi sem er á ábyrgð almennings sem í honum býr. Við erum ráðsmenn í heimi Guðs.
Í anda tilvitnaðra orða konungsins hér að framan vitna ég í sálmaskáldið Helga Hálfdánarson:
Þótt kóngar fylgdust allir að
með auð og veldi háu,
þeir megnuðu' ei hið minnsta blað
að mynda' á blómi smáu.
(Sb. 447)
„Náttúran er ríkidæmi sem við höfum að láni,“ sagði Friðrik X. Við, sem byggjum Ísland, lifum af landi og sjó og öllu því sem hvelfist yfir svörð og sæ.
Við eigum landið í skilningi þess að það sé þegið að láni. Og landið á okkur á sama hátt, eins og Guðmundur Böðvarsson segir í ljóði sínu:
En þú átt að muna
alla tilveruna,
að þetta land á þig.
Í þessum eina skilningi er unnt að tala um að eiga eitthvað, að það sé þegið að láni.
Og þannig á landið okkur og við landið og þetta gagnkvæma ástarsamband má aldrei rofna.
Höfundur er pastor emeritus.