Fjölskyldan Kristján Máni, Birta Dís, Anna Rún, Magnús og Daníel Hugi.
Fjölskyldan Kristján Máni, Birta Dís, Anna Rún, Magnús og Daníel Hugi. — Ljósmynd/Sunna Ben
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Kristjánsson fæddist í Reykjavík 7. janúar 1975 og fagnar því 50 ára afmæli sínu í dag. Magnús bjó fyrstu þrjú árin á Tómasarhaga í Reykjavík, á meðan foreldrar hans byggðu sér hús í Garðabæ þangað sem fjölskyldan hugðist flytja

Magnús Kristjánsson fæddist í Reykjavík 7. janúar 1975 og fagnar því 50 ára afmæli sínu í dag. Magnús bjó fyrstu þrjú árin á Tómasarhaga í Reykjavík, á meðan foreldrar hans byggðu sér hús í Garðabæ þangað sem fjölskyldan hugðist flytja.

„En þá var skyndilega tekin ný stefna þegar föður mínum bauðst spennandi starf á Ísafirði. Í minningunni var fjölskyldan skyndilega drifin út í bíl og brunað beint af stað vestur á firði. Okkar fyrra heimili var á Hlíðarveginum en þegar ég var sex ára fluttum við á Seljalandsveg og þar bjó ég þar til ég fluttist á höfuðborgarsvæðið til náms og vinnu. Að fá að alast upp á Ísafirði voru forréttindi enda hefur bærinn upp á margt að bjóða fyrir börn og unglinga. Þar kynntist ég skíðaíþróttinni sem átti hug minn og hjarta öll æskuárin og varði ég öllum mínum frístundum í fjallinu þegar veður og færi leyfðu.“

Þá segir Magnús uppeldið á æskuheimilinu hafa einkennst af mikilli virðingu, hugulsemi og umhyggju fyrir öllu fólki.

„Mikið jafnræði var á heimilinu og gengu foreldrar mínir jafnt í öll störf. Ég held að þau hafi verið töluvert á undan sinni samtíð þegar kemur að jafnréttismálum. Lögð var rík áhersla á að maður ætti ávallt að una glaður við sitt en ég held að allir þessir þættir hafi mótað mig mikið og gert mig að þeirri persónu sem ég er í dag. Við hjónin leggjum einmitt ríka áherslu á það við börnin okkar að það eina sem skipti máli sé að vera góð manneskja.“

Þegar komið var að menntaskólaárunum segir Magnús það hafa legið beinast við að hefja nám við Menntaskólann á Ísafirði, sem var bara hinum megin við götuna.

„Það fyndna er að ég fór alltaf á bíl í skólann þótt það tæki mig mun styttri tíma að ganga þessa stuttu vegalengd. Það verður að segjast að skólinn var nokkuð framúrstefnulegur því þegar ég hóf þar nám árið 1991 var boðið upp á svokallað skíðaval sem tryggði okkur sem vorum að æfa skíði bóklegt nám tengt afreksþjálfun sem og góðan tíma til að iðka skíðaíþróttina. Ég var fyrstu tvö menntaskólaárin á Ísafirði en flutti mig síðan yfir í Menntaskólann við Hamrahlíð og lauk þaðan stúdentsprófi af eðlisfræðibraut árið 1995. Á menntaskólaárunum kviknaði jafnframt töluverður áhugi á pólitík og settist ég í stjórnir ungliðahreyfinga á þeim vettvangi, bæði á Ísafirði og í Reykjavík.

Þá tók ég einnig þátt í háskólapólitíkinni þegar ég hóf nám í Háskóla Íslands og var meðal annars varamaður í háskólaráði skólans. Það tók mig þó smá tíma þegar komið var í háskólann að átta mig á því hvað mig langaði að gera í lífinu. Ég kannaði því bæði verkfræði og lögfræði en að lokum fann ég mig best í tölvunarfræði og útskrifaðist úr henni árið 2000. Ég endurnýjaði síðan kynni mín við Háskóla Íslands árið 2007 þegar ég hóf MBA-nám í viðskiptafræði við skólann og útskrifaðist ég þaðan árið 2009. Það er varla hægt að hugsa sér jafn spennandi tíma fyrir stjórnunarnám en það hófst á toppi góðæris Íslendinga og lauk eftir hrun fjármálakerfisins. Þá lauk ég námi sem viðurkenndur stjórnarmaður árið 2020. Á fyrsta árinu mínu í háskólanum var ég svo heppinn að kynnast henni Önnu Rún minni og má segja að það hafi verið ást við fyrstu sýn og mitt mesta lán í lífinu. Við fluttumst fljótlega í Kópavoginn og keyptum okkar fyrstu eign í Lindahverfinu árið 1999. Við höfum síðan þá fært okkur tvisvar um set innan hverfisins og viljum hvergi annars staðar vera. Börnin okkar þrjú eru því innfæddir Kópavogsbúar og við öll gallharðir Blikar en til gamans má geta að ég starfaði einmitt sem skíðaþjálfari hjá félaginu um tveggja ára skeið á námsárunum. Þá hef ég í gegnum árin tekið að mér trúnaðarstörf í Lindaskóla og sit nú þar bæði í skólaráði og matsnefnd skólans.“

Að sögn Magnúsar kynntist hann orkugeiranum ungur að árum.

„Ég hef unnið alla mína tíð í verkefnum tengdum þeim geira en ég hóf störf sem sumarstarfsmaður hjá Orkubúi Vestfjarða einungis 15 ára gamall þar sem ég fékk að kynnast innanbæjarkerfum, hitaveitum og línuvinnu. Ég hef sennilega gengið meðfram og skoðað nær allar rafmagnslínur á norðanverðum Vestfjörðum. Þá gerði ég einnig fyrstu vefsíðu fyrirtækisins sem hefur sennilega kveikt áhuga minn á tölvunarfræðinni. Meðfram tölvunarfræðinni hóf ég svo störf hjá fyrirtækinu Forritun við þróun á reikningagerðarhugbúnaði fyrir orkugeirann sem enn er í notkun í dag. Árið 2003 hóf ég síðan störf hjá RARIK sem upplýsingatæknistjóri fyrirtækisins en upplýsingatækni var þá komin á mikla siglingu og öll tækniþróun á miklum hraða.

Ég var svo lánsamur í því starfi að fá að koma að stofnun og uppbyggingu fyrirtækis sem átti að taka við raforkusölu og framleiðslu RARIK. Það fyrirtæki fékk síðan nafnið Orkusalan og hef ég verið forstjóri þess frá árinu 2008. Þá sit ég í stjórn Samorku, sem eru samtök orku- og veitufyrirtækjanna, sem og í stjórnum Sunnlenskrar orku og Sjávarorku. Einnig sit ég í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins. Áhuginn liggur því víða hjá mér en ferðalög og útivist, að ógleymdum góðum stundum með fjölskyldu og vinum, skipa þó stærstan sess í mínu lífi. Að sjálfsögðu má svo ekki gleyma núvitundinni því það er fátt mikilvægara en að staldra við, upplifa og njóta.“

Fjölskylda

Eiginkona Magnúsar er Anna Rún Frímannsdóttir, f. 30.3. 1976, blaðamaður hjá Morgunblaðinu og rithöfundur. Foreldrar Önnu Rúnar eru Vilhelm Frímann Frímannsson, f. 31.1. 1949, rafeindavirkjameistari og Hildur Gísladóttir, f. 11.2. 1951, fv. leikskólastjóri. Þau eru gift og búsett í Reykjavík.

Börn Magnúsar og Önnu Rúnar eru: 1) Daníel Hugi, f. 9.7. 2001, tölvunarfræðingur; 2) Birta Dís, f. 29.12. 2004, verkfræðinemi; 3) Kristján Máni, f. 25.5. 2010, grunnskólanemi. Þau búa öll í foreldrahúsum.

Systur Magnúsar eru Ebba Áslaug Kristjánsdóttir, f. 3.9. 1971, kennari, búsett í New York, og Þórunn Arna Kristjánsdóttir, f. 17.11. 1983, leikkona og leikstjóri, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Magnúsar eru Kristján Haraldsson, f. 20.10. 1947, fv. orkubússtjóri á Ísafirði, og Halldóra Sigríður Magnúsdóttir, f. 7.2. 1950, fv. bankastarfsmaður á Ísafirði. Þau eru gift og búsett í Garðabæ.