Tímamót Bjarni hefur setið á þingi frá árinu 2003 og segir þingsetuna lengri en hann hafði búist við. Nú sé loks kominn tími til að breyta til.
Tímamót Bjarni hefur setið á þingi frá árinu 2003 og segir þingsetuna lengri en hann hafði búist við. Nú sé loks kominn tími til að breyta til. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti í gær að hann hygðist ekki gefa kost á sér í formannskjöri á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Jafnframt ætli hann að segja af sér þingmennsku

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti í gær að hann hygðist ekki gefa kost á sér í formannskjöri á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Jafnframt ætli hann að segja af sér þingmennsku.

Tíðindin tilkynnti Bjarni samflokksmönnum sínum á þingflokksfundi í gær og birti Facebook-færslu á sama tíma til að opinbera fregnirnar. Komu þær mönnum mismikið á óvart þótt vitað væri að formaðurinn hefði ekki gert upp hug sinn um hvort hann hygðist gefa kost á sér til formennsku að nýju.

Jón Gunnarsson, fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, tekur sæti á Alþingi þegar Bjarni afsalar sér þingmennsku.

Síðustu pólitísku skrefin

Í færslunni rifjar Bjarni upp að hann hafi setið á þingi frá árinu 2003, eða frá því að hann var 33 ára. Nú í janúar verði hann 55 ára og að þingsetan hafi orðið lengri en hann bjóst við. Hann hafi sömuleiðis leitt flokkinn frá árinu 2009 eða í um 16 ár.

Á þessum tímamótum hafi hann ákveðið að sækjast ekki eftir endurnýjuðu umboði til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Hann hafi rætt við sína nánustu á undanförnum dögum um framtíðina og segist finna á sér að nú sé réttur tími til þess að breyta til.

„Það er ekkert launungarmál að ég mun njóta þess að hafa meiri tíma í framtíðinni með fjölskyldunni, sem hefur farið stækkandi, og til að sinna öðrum hugðarefnum. Í ljósi þessara aðstæðna hef ég ákveðið að taka ekki sæti á því þingi sem hefst síðar í mánuðinum. Næstu vikur ætla ég að taka mér frí en hyggst svo taka mín síðustu skref á pólitíska sviðinu og kveðja vini mína í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum sem framundan er, þar sem blásið verður til sóknar fyrir þjóðlífið allt.“

Kveðst Bjarni skilja sáttur við sín verk, vera þakklátur fyrir stuðninginn og stoltur af störfum sínum sem þingmaður í tæplega 22 ár. Nýafstaðnar kosningar hafi skilað Sjálfstæðisflokknum næstflestum þingmönnum á Alþingi, þar sem hann var rúmu prósentustigi minni en sá stærsti.

Sögulega hafi úrslitin ekki verið nægilega góð fyrir sjálfstæðismenn, en eftir langa setu í ríkisstjórn, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tók ábyrgð á stjórn landsmálanna meðan aðrir reyndu að byggja sig upp í stjórnarandstöðu, hafi flokkurinn unnið ágætan varnarsigur.

„Í stjórnarandstöðu opnast ný tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem á að nýta kjörtímabilið til að styrkja samband sitt við hinn almenna kjósanda og skerpa á forgangsmálum. Á komandi landsfundi verður kosin forysta sem fær það hlutverk að móta áherslur kjörtímabilsins og vinna að góðum sigri flokksins í næstu kosningum. Ég finn að það er rétt ákvörðun að eftirláta öðrum að móta það starf.“

Á árum sínum á Alþingi hefur Bjarni sinnt margslungnum og fjölbreyttum verkefnum en hann hefur gegnt embætti í þó nokkrum ráðuneytum – og sumum í tvígang.

Annar í sögunni

Þess má geta að Bjarni er annar ráðherrann í íslenskri stjórnmálasögu til þess að gegna þremur helstu ráðherraembættunum: forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Geir H. Haarde var sá fyrsti.

Gegndi Bjarni embætti forsætisráðherra árin 2017 og 2024 og fjármálaráðherra árin 2013 til 2017 og aftur frá 2017 til 2023. Þá gegndi hann einnig embætti utanríkisráðherra frá árinu 2023 til 2024 eftir að hann skipti um ráðuneyti við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur vegna niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um vanhæfi Bjarna við sölu Íslandsbanka.

Þá tók hann einnig við embætti matvælaráðherra og félagsmálaráðherra um tíma árið 2024 eftir að Vinstri græn neituðu að taka sæti í starfsstjórn Bjarna eftir að hann sleit ríkisstjórnarsamstarfi þeirra og Framsóknarflokksins.