Jóhann Rúnar Björgvinsson
Er innbyggður verðbólguhvati í krónuhagkerfinu vegna smæðar hagkerfisins, fákeppni, samráðs, skorts á samkeppni og framboðsstýringu? Getur verið að meginhagstjórnin sé í raun í höndum atvinnurekenda með óbeinni stýringu á kaupmætti launa frá degi til dags eða með skiptingu þjóðarkökunnar milli hagnaðar og launa?
Áhugavert er að bera saman þróun launa- og neysluverðsvísitölu til að sjá hvort krónuhagkerfið sé hliðhollara atvinnurekendum en launþegum í ljósi þess að launabreytingar eiga sér stað í samningum og á ákveðnum tímapunktum en neysluverð breytist að vild atvinnurekenda. Í krónuhagkerfi hafa atvinnurekendur möguleika á að rýra kaupmátt launa strax að loknum launasamningum eða þar til kaupmáttarskerðingin leiðréttist að hluta á ný með umsömdum launabreytingum.
Meðfylgjandi mynd styður við þessa skoðun, því bæði árin 2021 og 2022 virðist verða veruleg kaupmáttarskerðing milli stórra launabreytinga. Þróunin segir okkur að krónuhagkerfið getur ýtt undir verðbólgu þar sem ávinningur atvinnurekenda er töluverður af þessum möguleika eins og þróunin 2022 sýnir sérstaklega.
Áhugavert er að hafa þennan möguleika í huga þegar kostir og gallar krónuhagkerfisins verða ræddir af alvöru innan tíðar; hverjir hagnast á krónuhagkerfinu/veikum gjaldmiðli og hverjir ekki. Ýmis skref hafa þó verið stigin til að opna á aukna samkeppni og hefur innkoma erlendra fyrirtækja á borð við IKEA og Costco bætt þar nokkuð úr; einnig vaxandi erlend vefverslun. Til að bæta enn frekar samkeppnis- og rekstrarskilyrðin í innlendri atvinnustarfsemi og möguleika á meiri hagsæld fyrir land og þjóð þarf að stíga mun stærri skref og er umræðan um upptöku sterkari gjaldmiðils því mjög í tíma töluð.
Í nýlegri blaðagrein voru hagskilyrði í Færeyjum, sem búa við sterkan gjaldmiðil, borin saman við hagskilyrðin hér á Íslandi. Samanburðurinn sýndi að hagvöxturinn á mann þar jókst um 32% á tímabilinu 2008-2023 en aðeins um 14% hér. Neysluverðvísitalan hækkaði um 43% þar á tímabilinu 2001-2023 en 196% hér. Atvinnuleysið var 2,9% að meðaltali á árunum 2001-2023 þar en 4,2% hér. Á sama tímabili var árleg verðbólga 1,6% að meðaltali í Færeyjum en aftur 4,9% á Íslandi. Að lokum í þessum samanburði á hagskilyrðum hagkerfanna kom í ljós að árlegir meðaltalsviðskiptavextir voru 1% í Færeyjum á árunum 2007-2024 en 6% hér á landi.
Höfundur er hagfræðingur.