Ásgerður Sveindís Hjörleifsdóttir fæddist í Reykjavík 13. júní 1942. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. desember 2024 í faðmi ástvina.
Foreldrar hennar voru Guðmunda Guðbjartsdóttir (Gógó), f. 27.3. 1920, d. 22.5. 2010, og Hjörleifur Elíasson, f. 22.2. 1922, d. 18.11. 1988. Þau skildu. Bræður Ásgerðar eru: Elías, f. 2.4. 1944, d. 20.4. 2001, Magnús, f. 10.5. 1947, og Guðmundur Hólm, f. 20.11. 1948. Ásgerður átti einnig tvö systkini samfeðra, þau eru Ingibjörg og Jens Finnur Elíasbörn, bæði búsett í Danmörku.
Ásgerður giftist 20.10. 1962 Hauki Lyngdal Brynjólfssyni, f. 17.12. 1935, d. 10.2. 2017. Foreldrar hans voru Rósa Árnadóttir, f. 10.10. 1902, d. 16.1. 1994, og Brynjólfur Sveinsson, f. 28.8. 1891, d. 28.1. 1952.
Dætur Ásgerðar og Hauks eru: 1) Helena, f. 7.12. 1964. Dóttir hennar er Ásgerður Alma, f. 5.1. 1993. Sambýlismaður hennar er Aron Ingi Ingvason. 2) Hildur, f. 3.4. 1967. Sambýlismaður hennar er Andrew Diegbe og sonur þeirra Nuvie Haukur, f. 23.2. 2009. 3) Helga Björk, f. 16.8. 1974. Dætur hennar eru Laufey Lyngdal, f. 31.3. 2004, Júlía Lyngdal, f. 19.4. 2006, og Rósa Lyngdal, f. 21.4. 2009.
Ásgerður gekk í Lækjarskóla og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg. Hún starfaði lengst af við verslunarstörf, aðallega í apótekum, fyrst í Kópavogsapóteki og síðan í apóteki Norðurbæjar, en árið 1991 stofnaði hún, ásamt eiginmanni sínum, Nýju fatahreinsunina sem þau ráku með þrautseigju og dugnaði þar til þau létu bæði af störfum.
Útför fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 7. janúar 2025, klukkan 13.
Elsku mamma, það er sárt til þess að vita að þú sért ekki lengur hér hjá okkur. Ég hélt alltaf að þú yrðir eilíf, ódauðleg. Þú varst svo stór hluti af okkur, stór og mikill karakter, yfir og allt um kring. Sagan mín og sálin. Þú varst kletturinn, límið og tengingin við allt og alla. Það er skrýtið að geta ekki hringt og spurt mömmu, slúðrað, klagað og kvartað, fengið álit hennar. Hún var auðvitað alltaf með manni í liði. Mamma var líka þannig, hún vildi fá að vita, fylgjast með, og oft vissi hún án þess að nokkuð þyrfti að segja. Ég finn oft hlutina á mér, sagði hún oft.
Mamma var vakin og sofin yfir velferð fjölskyldunnar, fólkið hennar skipti hana mestu máli, það var henni allt. En mamma var líka sterk og sjálfstæð. Hún græjaði hlutina, reddaði og gekk í verkin. Rak sitt fyrirtæki ásamt pabba í mörg ár með elju og dugnaði.
Mamma var líka mikil félagsvera, leið best í kringum fólk, gat spjallað við alla og gerði ekki mannamun. Stundum fannst mér hún þekkja alla í heiminum. Hún var líka alltaf glæsileg, ávallt vel tilhöfð, fór ekki út með ruslið án þess að hafa sig aðeins til.
Mest um vert var þó að hún var ekki bara besta mamman, heldur líka besta amman. Tók ávallt á móti barnabörnunum með opinn og hlýjan faðm. Heimili mömmu og pabba var heimili okkar allra, staður sem allir voru velkomnir, þar var hlýjan og væntumþykjan, enda oft gestkvæmt hjá þeim. Þau áttu líka stóran og tryggan vinahóp og mamma átti fallegt og kærleiksríkt samband við stórfjölskylduna, sérstaklega við yngri bræður sína. Þótt mamma sé dáin þá eru það þessi mannlegu tengsl sem deyja aldrei.
Síðustu tvö ár voru mömmu erfið, líkaminn gaf eftir og þessi sterka sjálfstæða kona fann fyrir vanmætti sínum. Eftir alvarlega heilablæðingu í ágúst sl. hefur hún eflaust verið hvíldinni fegin. Elsku mamma, tilveran verður svo sannarlega tómlegri án þín, en það birtir til í sumarlandinu. Þar verða án efa fagnaðarfundir þegar pabbi og allir hinir taka á móti þér og þið dansið inn í eilífðina.
Þín dóttir,
Helena.
Elsku amma er nú farin yfir í sumarlandið, komin til afa og allra hinna sem hún saknaði svo mikið. Það er ákveðið tómarúm eftir hana þar sem hún var svo stór karakter og engin veisla hófst fyrr en hún mætti. Ég trúi því að fagnaðarlæti hafi brotist út þar uppi þegar hún loksins kom. „Já halló, góða kvöldið!“ – Alltaf svo smart og fín og gat talað við alla um allt.
Ég tel mig einstaklega heppna að hafa fengið að alast upp með ömmu og afa, að búa hjá þeim á neðri hæðinni frá fæðingu þar til ég flutti út. Amma svaraði mér jafnan þegar ég kallaði á mömmu, enda var hún eins og „mamma tvö“. Hún var sú fyrsta sem sá mig þegar ég kom í þennan heim og svo veitti hún mér þann heiður að fylgja henni út úr honum. Samband okkar var einstakt og fallegt. Við gátum rifist um allt þegar ég var unglingur og rökrætt þar til önnur okkar fór í fýlu en seinni árin var yndislegt að koma til hennar, slúðra, fá nýjustu fréttirnar úr fjölskyldunni og tala um allt milli himins og jarðar.
Barnæskan með ömmu var ómetanleg. Ég man ófáa daga sem ég sagðist vera „veik“ og nennti ekki í skólann og fór þá upp til ömmu. Ég blikkaði hana og sagði henni að ég væri veik, hún setti höndina á ennið á mér, brosti og sagði: „Já, ég finn að þú ert með hita,“ á meðan afi hristi hausinn. Ég eyddi ótal stundum „uppi“ hjá ömmu og afa. Eftir skóla lá leið mín alltaf beint til þeirra þar sem annað hvort þeirra var ávallt heima. Þar fékk ég að borða og sagði frá deginum og oftast komu nokkrar vinkonur með mér en amma þekkti allar vinkonur mínar og flestar þeirra þekktu ömmu. Þegar ég var lítil var amma sú sem „vissi allt“ og reddaði öllum málum. Heimili þeirra varð griðastaður fjölskyldunnar þar sem öll jól, áramót, afmæli og matarboð voru haldin og ég horfi til baka með bros á vör.
Ég lít til baka á barnæsku mína með ömmu með mikilli hlýju og söknuði. Ég vildi að amma væri enn þá með okkur. Mantran okkar síðustu fjóra mánuðina, „bjartsýni“ og „einn dag í einu,“ dugði ekki lengur í lokin. Hún var tilbúin að fara og það er viss léttir að vita af henni lausri úr þjáningum.
Bless í bili, elsku amma! Við munum ylja okkur við minningarnar um þig og halda þeim á lofti. Við söknum þín sárt, elsku amma, en ég veit að þú lifir áfram í hjörtum okkar.
Þín nafna og ömmustelpa,
Ásgerður Alma.
Margs er að minnast nú þegar elskuleg Ásgerður frænka mín er horfin á braut.
Ásgerður, sem jafnan var kölluð Dídí, og Guðbjartur, faðir minn, voru systrabörn og var ætíð mikill samgangur og kært á milli þeirra. Mæður þeirra, Guðmunda (Gógó) og Guðný (Gulla), voru afar nánar. Börn þeirra systra ólust mikið upp saman og léku sér undir Hamrinum í Hafnarfirði, í öruggu skjóli ættmóðurinnar Herdísar í Kassahúsinu.
Hálf öld er frá því fjölskyldur okkar urðu svo nágrannar í nýbyggðum Norðurbænum í Hafnarfirði. Eftir það voru samskiptin mikil og vináttuböndin hlý og traust alla tíð. Í nokkra áratugi var áramótunum ætíð fagnað saman og þá langt inn í nýársnóttina.
Þessar stundir sem og allar hinar eru dýrmætar minningar um vináttu og gleðina sem ávallt ríkti í návist Dídíar. Dídí og Haukur (Bói) voru glæsipar, samrýnd hjón og bjuggu dætrunum þremur kærleiksríkt heimili, þangað sem var alltaf gaman að koma. Dídí var mikill fagurkeri, alltaf smekklega klædd og vel tilhöfð og heimilið mjög listrænt og fallegt. Það var jafnan líf og fjör í kringum Dídí, hún vildi spjalla um heima og geima og lá ekki á skoðunum sínum. Hláturmild og glaðvær, gestrisin og ljúf.
Við Helena, dóttir Dídíar, urðum sem litlar stelpur bestu „frænkuvinkonur“ og erum enn. Á milli þeirra mæðgna var náið samband og studdi Helena móður sína af einstakri alúð og kærleika þegar heilsa Dídíar fór að bresta.
Dídí var mikil sjálfstæðiskona og var hún áhugasöm um stjórnmálaþátttöku litlu frænku sinnar. Í síðasta spjalli okkar á sjúkrabeði hennar lét hún mig vita af ánægju sinni með hve heimabærinn hennar blómstraði, enda stoltur Hafnfirðingur í húð og hár!
Mér þótti mjög vænt um hversu Dídí og Margrét, móðir mín, voru í nánum samskiptum síðastliðin ár þegar þær urðu nágrannar aftur á Fjarðargötunni. Þeim fannst gott að geta kíkt hvor til annarrar og spjallað yfir kaffibolla. Nú eru þau öll fjögur komin á aðrar lendur og Dídí kannski farin að spá í spil fyrir pabba líkt og hún gerði öll áramótin sem fjölskyldur okkar fögnuðu saman. Bói, sem sá ekki sólina fyrir Dídí sinni í lifanda lífi, hefur tekið á móti henni í hlýjan faðm sinn og nú eru þau saman á ný. Elsku Helena, Hildur, Helga og börn, guð gefi ykkur styrk í sorginni. Blessuð sé minning elsku Dídíar.
Rósa Guðbjartsdóttir.
Frænka mín Ásgerður Sveindís, eða Dídí eins og hún var alltaf kölluð, lést 15. desember síðastliðinn. Dídí var elst í sínum systkinahópi, átti þrjá yngri bræður. Samband þeirra systkina var alltaf náið og mikil samskipti á milli þeirra, sem svo hefur skilað sér í að við systkinabörnin höfum alltaf verið í góðu sambandi. Enda stórfjölskyldan tengd sterkum og kærleiksríkum böndum. Það var alltaf gaman að eiga spjall við Dídí um lífið og tilveruna, hún var alltaf áhugasöm um fólkið sitt og alltaf spurði hún út í öll börnin mín, og ef það voru kosningar þá spurði hún alltaf hvort ég hefði nú ekki kosið rétt og svo blikkaði hún mig. Ég veit að börnum mínum fannst alltaf gaman að spjalla við Dídí enda var hægt að ræða um allt við hana og alltaf stutt í húmorinn.
Það var alltaf tilhlökkunarefni að fara í jólaboðið til Dídíar og Bóa þegar þau bjuggu á Miðvanginum, það voru engin jól nema koma til þeirra. Svo seinna þegar ég var komin með stærra húsnæði hittist stórfjölskyldan alltaf hjá mér og eru þetta ómetanlegt stundir. Einnig eru ferðir í sumarbústaðinn til Dídíar ferðir sem ég minnist með hlýju enda alltaf gaman.
Dídí hélt vel utan um sitt fólk, ekki bara dætur sínar og barnabörn heldur líka bræðrabörn sín. Hún sýndi okkur mikinn áhuga og áttum við mörg símtöl þar sem Dídí var bara að heyra í mér og af mér og mínum. Síðari ár var hún dugleg að fylgjast með öllum á samfélagsmiðlum en hélt samt áfram að hringja öðru hvoru.
Dídí tók alltaf vel á móti manni og maður fékk ekki að fara fyrr en að minnsta kosti einum eða tveimur kaffibollum seinna og alltaf var eitthvað sætt með. Fyrir nokkrum árum var farið til Ítalíu og var Dídí samferða mér og Arnari. Sú ferð, bæði ferðalagið til Ítalíu og samveran þar, mun alltaf lifa í minningunni. Óhætt er að segja að ferðalagið út hafi verið ævintýri og mikið er búið að hlæja að því.
Dídí var glaðlynd og óspör á hlýju sína og væntumþykju, fjölskyldan var henni allt og er missir ykkar, elsku Helena, Hildur, Helga Björk og barnabörn, mikill en minningin um yndislega konu mun ylja um ókomin ár.
Ég minnist Dídíar með hlýju og ég er þakklát fyrir það að Dídí var hluti af lífi mínu. Hún var fyrirmynd um að maður á að sýna fólkinu sínu áhuga og alltaf gefa sér tíma til að heyra hvert í öðru.
Góða ferð í sumarlandið, elsku frænka.
Helga Laufey
Guðmundsdóttir.
Elsku vinkona mín.
Takk fyrir samferðina og trygga vináttu í gegnum lífið. Í rúm 60 ár höfum við átt ánægjulegar stundir saman með mökum okkar, fjölskyldum og öðrum vinum sem gott er að ylja sér á þessari stundu.
En komin eru leiðarlok
og lífsins kerti brunnið,
og þín er liðin æviönn,
á enda skeiðið runnið
Í hugann kemur minning mörg
og myndir horfinna daga,
frá liðnum stundum læðist fram
mörg ljúf og falleg saga.
Þín vinatryggð var traust og föst
og tengd því sanna og góða,
og djúpa hjartahlýju og ást
þú hafðir fram að bjóða.
Og hjá þér oft var heillastund,
við hryggð varst aldrei kennd.
Þú komst með gleðigull í mund
og gafst á báðar hendur.
Svo vina kæra, vertu sæl,
nú vegir skilja að sinni.
Þín gæta máttug verndarvöld
á vegferð nýrri þinni.
Með heitu, bljúgu þeli þér
ég þakka kynninguna.
Um göfuga og góða sprund
ég geymi minninguna.
(Höf. ók.)
Elsku Helena, Hildur, Helga og fjölskylda, ég votta ykkur mína innilegustu samúð.
Ester Hurlen.
Dídí var ung að árum þegar hún fékk þá miklu ábyrgð að hjálpa mömmu sinni að hugsa um yngri bræður sína. Amma Gógó var orðin einstæð fjögurra barna móðir og þurfti nú út á vinnumarkaðinn til að framfleyta fjölskyldunni.
Þessu hlutverki sinnti Dídí af einstakri natni allt sitt líf, og sú hlýja og nána tenging sem var milli hennar og systkina hennar var ómetanleg. Iðulega, ef síminn var á tali hjá pabba, var hægt að slá því föstu að Dídí var á línunni. Samband þeirra systkina var alltaf náið og fallegt. Fyrir okkur var þetta mikil blessun og hafði þetta nána samneyti mikil og mótandi áhrif á æsku okkar. Við bjuggum öll í sama hverfi í norðurbæ Hafnarfjarðar og við systkinabörnin vorum öll góðir vinir. Á þessum tíma var það alvanalegt að dyrabjallan hringdi og gestir mættu í heimsókn án nokkurs fyrirvara. Og ósjaldan kíktu þau Dídí og Bói yfir. Dídí settist í sófann, glæsileg að vanda, mamma hellti upp á kaffi og Dídí kveikti sér í einni. Aðfangadagskvöld voru ekki fullkomin í huga okkar nema ef litið var inn til Dídíar og Bóa í lok kvölds. Þar gat gleðin staðið fram á nótt. Bræðrum hennar, með pabba oft fremstan í flokki, fannst nú ekki leiðinlegt að espa hana svolítið upp. „Magnús, ég skal segja þér það …“ heyrðist í Dídí og þeir bræður og Bói hlógu alveg ógurlega.
Dídí kom með okkur til Toskana á Ítalíu sumarið 2017 þegar pabbi varð sjötugur. Helga Laufey sem ferðaðist með henni minnist þess að hafa „týnt“ Dídí a.m.k. þrisvar þann daginn – og það bara á flugvellinum, en það var engin leið að koma böndum á áhuga hennar á öllu sem fyrir augu bar. Dídí naut ferðarinnar í botn – sól, rósavín, smá gin og tónik, smart búðir og skemmtilegar sögur um æskuárin fylltu dagana okkar.
Dídí elskaði líka að koma í Framnes með pabba og hitta þar okkur systkinin og börnin okkar. Hún minntist með hlýju á þessar heimsóknir og hlakkaði alltaf til næstu ferðar. En fleiri verða Framnesferðir með Dídí því miður ekki en eftir standa yndislegar minningar um hlýja og hláturmilda frænku sem munu lifa með okkur.
Helenu, Hildi, Helgu Björk og barnabörnum Dídíar sendum við hjartans samúðarkveðjur.
Erla, Ari og Silja
Magnúsarbörn.