Framþróun Formaður ÍF hefur í gegnum árin orðið vitni að miklum breytingum og framþróun í íþróttum fatlaðra
Framþróun Formaður ÍF hefur í gegnum árin orðið vitni að miklum breytingum og framþróun í íþróttum fatlaðra — Morgunblaðið/Hari
Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra, er eldri en tvævetur í faginu og var mættur á sína níundu Paralympics-leika í París á síðasta ári. „Ég hef farið á sjö sumarleika og tvenna vetrarleika

Íþróttir fatlaðra

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra, er eldri en tvævetur í faginu og var mættur á sína níundu Paralympics-leika í París á síðasta ári.

„Ég hef farið á sjö sumarleika og tvenna vetrarleika. Ég hef verið formaður ÍF frá 2017 og átt sæti í stjórn ÍF frá 1986. Ég byrjaði á að fara til Seúl 1988 og það eru tvennir leikar sem ég hef ekki farið á síðan þá. Þetta eru alls níu leikar,“ sagði Þórður Árni í samtali við Morgunblaðið.

Á þeim tæpu fjóru áratugum sem Þórður Árni hefur starfað fyrir Íþróttasamband fatlaðra og sinnt ýmsum verkefnum hefur hann orðið vitni að miklum breytingum hvað varðar íþróttir fatlaðra og áhuga á þeim.

„Það hefur orðið mikil framþróun og gæðin hafa aukist mikið. Það sem er líka athyglisvert og við tókum sérstaklega eftir á leikunum 2012 í London er áhugi almennings í því landi þar sem þeir eru haldnir.

Ég myndi segja að á leikunum í London og í París, þeim sem hafa verið haldnir í Evrópu, sé eftirtektarvert hve vel er mætt í hallirnar og nánast uppselt. Í Peking 2008 og Ríó 2016 var fullt á ákveðnar íþróttir en ekki alveg allar. Í London og í París virtist vera uppselt alls staðar,“ sagði Þórður Árni.

„Jafnframt hefur það ruðningsáhrif. Í Bretlandi hafði þetta mikil áhrif. Það er það sem IPC hefur verið að vinna að með Sameinuðu þjóðunum og ýmsum þeim félagasamtökum sem eru á bak við fatlaða til að gera sýnilega getu einstaklinga með fatlanir til hvaða verka sem er.

Að sýna fram á hvað þessir einstaklingar geta en ekki hvað þeir geta ekki. Það hefur mjög jákvæð áhrif og hafði mikil ruðningsáhrif í Bretlandi á sínum tíma. Atvinnulífið varð til dæmis miklu virkara í því að ráða einstaklinga með fatlanir til starfa. Það var mjög jákvætt á allan hátt,“ hélt hann áfram.

Er mögulegt að tala um paraíþróttir?

Íslenskt mál er í stöðugri þróun og á það sannarlega við hvað viðkemur íþróttum fatlaðra.

„Á ensku nota Sameinuðu þjóðirnar og allt það fólk enska orðið „disability“ eða „disabled“. Okkar íþróttamenn vilja gjarna að það sé talað um þá sem bara íþróttamenn, ekki með viðhenginu „fatlaðir“.

Við höfum tekið eftir því á Norðurlöndunum að samböndin hafa breytt nöfnum sínum í Parasport Danmark, Parasport Sverige, Parasport Norge og svo framvegis. Það eru allar Norðurlandaþjóðirnar nema við komnar í þetta.

Við erum reyndar með þýðinguna okkar hjá Íþróttasambandi fatlaðra þegar komið er inn í sundlaugina, þá stendur Parasport Iceland og Parasport Ísland í norræna samhenginu. En til dæmis í Danmörku og Svíþjóð í fjölmiðlum er bara talað um Paralympics.

Menn eru ekki að reyna að elta Olympics heldur er þetta bara sjálfstætt heiti og orðið Paralympics er nú notað fullum fetum. Við erum þá ekki með þessa þýðingu sem við vorum með. Í árdaga, 1980, 1984 og 1988, var gerð athugasemd við að þessir leikar væru kallaðir Olympics eins og Ólympíuleikar.

Þá var í rauninni sátt um það hér á Íslandi að kalla þetta Ólympíumót fatlaðra. Nú er bara önnur tíð og framþróun hefur átt sér stað. Þess vegna höfum við svolítið verið að kalla eftir því að bæði íþróttahreyfingin og almenningur velti því fyrir sér hvort það passi inn í íslenskt málfar að geta kallað íþróttir fatlaðra paraíþróttir,“ útskýrði Þórður Árni.

Fjöldi dæma um alþjóðleg orð

Þegar talað er um paraíþróttir getur íslenskan hins vegar valdið ruglingi. Þannig er auðvelt að tengja paraíþróttir við íþróttagreinar þar sem pör keppa, líkt og til dæmis samkvæmisdans.

„Já einmitt en ef maður veltir fyrir sér hver bakgrunnurinn á orðinu para er í þessu samhengi þá er það ekki orðið „paralyzed“ heldur „parallel“, að vera samhliða, við hliðina á Ólympíuhreyfingunni. Þannig að sú hreyfing sem við köllum ólympíuhreyfingu fatlaðra íþróttamanna sé samhliða eða að það sé samasemmerki þarna á milli.

Við eigum mjög sterkt orðatiltæki sem er að vera á pari við, það er nokkuð sem við værum að vísa til og eigum þá paraíþróttamenn. Það hefur verið pælingin okkar, hvort það væri hægt. En auðvitað er það alveg rétt, við höfum fengið svona spurningar eins og: Er þetta dans?

Á móti erum við líka með dæmi um íþróttir á Íslandi, til dæmis var lengi reynt að innleiða orðið hnit um badminton en Íslendingar tala bara um badminton. Það er nafn á íþróttagrein sem hefur fallið inn í íslenskt málfar. Við tölum um tækvondó og júdó sem eru alþjóðleg orð.

Við erum líka aðilar að öðrum samböndum eins og Special Olympics. Við höfum haft það þannig að við köllum þá Special Olympics án þess að þýða það. Þar er allt öðruvísi uppbygging og önnur samtök. Þetta er þróunin í heiminum,“ sagði hann.

Tvö félög á tímamótum

Íþróttir fatlaðra stóðu á tímamótum á síðasta ári þar sem Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík og Íþróttafélag fatlaðra á Akureyri áttu bæði stórafmæli.

„Það er líka með inngildingu í huga að við reynum að finna betri samnefnara og hugsum þetta sem íþróttir og íþróttahreyfingu. Við erum aðilar að íslensku íþróttahreyfingunni og það er gaman að segja frá því að á síðasta ári áttu fyrstu tvö íþróttafélög fatlaðra sem voru stofnuð á Íslandi 50 ára afmæli.

Það var íþróttahreyfingin – en ekki Sjálfsbjörg, Blindrafélagið eða Félag heyrnarlausra – sem stóð að stofnun þeirra á sínum tíma, átti frumkvæðið og ýtti þessu í gang. Fimm árum síðar, árið 1979, var Íþróttasamband fatlaðra stofnað þegar við vorum komin með nægilega mörg íþróttafélög og héruð til þess að geta stofnað samband.

Strax upp úr því varð mikil fjölgun íþróttafélaga, þau voru stofnuð um allt land, og voru með það sérstaka markmið að þar yrðu iðkaðar íþróttir fyrir fatlaða,“ sagði Þórður Árni að lokum.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson