Háteigskirkja Starfsemi kirkjunnar færist til á viðgerðartímanum.
Háteigskirkja Starfsemi kirkjunnar færist til á viðgerðartímanum. — Morgunblaðið/Ómar
Háteigskirkja fagnar 60 ára afmæli í ár og nú er unnið að viðgerðum á kirkjunni. „Við höfum verið að safna peningum fyrir því að taka kirkjuna í gegn. Þessi sókn eins og aðrar sóknir stendur alveg sjálf undir viðhaldi og það var komið að því að…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Háteigskirkja fagnar 60 ára afmæli í ár og nú er unnið að viðgerðum á kirkjunni. „Við höfum verið að safna peningum fyrir því að taka kirkjuna í gegn. Þessi sókn eins og aðrar sóknir stendur alveg sjálf undir viðhaldi og það var komið að því að sinna þessu og við einsettum okkur að gera það á afmælisári kirkjunnar,“ segir Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur í Háteigskirkju.

Messuhald fellur niður í kirkjunni sjálfri frá og með deginum í dag og út allan marsmánuð meðan kirkjan verður máluð að innan. Kirkjan verður síðan máluð að utan á vordögum þegar veður er orðið skaplegt.

Jarðarfarir færast yfir í aðrar kirkjur á þessu tímabili segir Helga Soffía og bendir á að Fossvogskirkja sé nærtækur kostur. „Við þjónum sókninni þannig áfram og þótt athöfnin sé í annarri kirkju fylgir prestur, organisti og kór Háteigskirkju með.“ Hún segir að skírt verði áfram í veislusal safnaðarheimilisins, en ekki verði brúðkaup á þessu tímabili.

Helgihald og messur munu á þessu tímabili færast yfir í safnaðarheimili kirkjunnar í veislusal á annarri hæð, en þar verður sett upp lítið þjónustualtari. Fyrsta messan í safnaðarheimili Háteigskirkju verður núna næsta sunnudag, 12. janúar, kl. 11. Starfsemi safnaðarheimilisins helst alveg óbreytt, eins og gæðastundir eldri borgara, fjölskyldusamverur og bænastundir.

„Síðan verður allt tilbúið þegar fermingarbörnin ganga inn í fyrstu ferminguna 6. apríl og kirkjan orðin glerfín og falleg.“