Konan með ljósið Ólafía Jóhannsdóttir.
Konan með ljósið Ólafía Jóhannsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líf Ólafíu skilur eftir sig ljós og arfleifð enn þann dag í dag, enduróm frá kærleiksgeisla frelsarans.

Sólveig Katrín Jónsdóttir

Ólafía Jóhannsdóttir átti stórmerkilega ævi sem gaf ríkulegan ávöxt, ekki í veraldlegum skilningi heldur andlegum. Eitt hundrað árum eftir að hún kvaddi þessa jarðvist prýðir stytta af henni miðbæ Óslóar, og hefur gert í þó nokkur ár, og þar að auki er gatan „Olafiagangen“ nefnd í höfuðið á henni. Sú sama stytta er fyrir framan hátíðarsal Háskóla Íslands og á fæðingarstað hennar á Mosfelli. Hvað er svona merkilegt við líf og starf Ólafíu, íslensku konunnar sem hefur m.a. verið nefnd Móðir Teresa norðursins, konan með ljósið og boðberi kærleikans?

Uppvöxtur og ævi

Ólafía Jóhannsdóttir fæddist 22. október 1863 á prestssetrinu Mosfelli í Mosfellsdal. Hún var dóttir hjónanna séra Jóhanns Benediktssonar og Ragnheiðar Sveinsdóttur. Ólafía var gáfuð og vel lesin og fór í Kvennaskólann og nýtti gáfur sínar og hæfileika við ýmis störf og var sannarlega á undan sinni samtíð. Hún var málsvari fyrir jafnrétti kynjanna, tók að sér málefni Bindindishreyfingarinnar og vann að áfengisbindindi í samfélaginu. Einnig talaði hún fyrir því að Íslendingar fengju sinn eigin háskóla og hélt marga fyrirlestra um aukið kvenfrelsi. Hún var hluti af kristnum kvenfélagshreyfingum sem stofnuðu m.a. Hvítabandið. Ólafía hélt marga fyrirlestra hér heima og erlendis og vakti athygli hvert sem hún fór fyrir ræðusnilld og mikla útgeislun. Hún ferðaðist mikið, meðal annars til Noregs og Bretlands, og kynntist nýjum stefnum og áhugaverðu fólki. Á tímabili seldi hún erlendar tryggingar á Íslandi, fyrst allra manna. Hún var einnig fyrst íslenskra kvenna til að rita æviminningar sínar í bók. Allt hennar starf sýnir frumkvöðul að verki með háleitar hugmyndir á undan sinni samtíð.

Trúarleg vakning

Ólafía lýsir í bók sinni „Frá myrkri til ljóss“ frelsun eða afturhvarfi til Krists í andlegri vitrun sem hún varð fyrir þegar hún var stödd í Noregi. Það varð upphafið að þeirri köllun hennar að starfa meðal þeirra sem minna mega sín og veita umkomulausum konum sem var útskúfað af þjóðfélaginu kærleika, virðingu og hjálp. Að sögn systur hennar, Sigurbjargar Jóhannsdóttur, var það stefna Ólafíu að leitast við af fremsta megni að gera Guðs vilja. Það kristilega líferni sem Jesús Kristur lagði grundvöll að var henni sífelld uppspretta köllunar. Vegvísir hennar var það sem Jesús sagði í Matteusarguðspjalli: að það sem menn gjöra sínum minnstu bræðrum það gjöra þeir Guði (Matt. 25.40). Hún var drifin áfram að hjálpa þeim sem minna mega sín og vekja von um kærleika Guðs og frelsi. Hún vann starf sitt í mikilli auðmýkt og það endurspeglaðist í þjónustu hennar þar sem hún gaf sig alla fram, einnig gaf hún frá sér veraldlega hluti, þjóðbúning sinn, skart og víravirki, það eina sem hún hélt eftir var skotthúfan. Hún lifði í raun eftir orðum Jóhannesar skírara: „Hann á að vaxa en ég að minnka.“ (Jóh. 3.30.)

Köllun til kærleiksþjónustu – Boðun vonarinnar

Ólafía hóf starfsemi sína í helsta fátækrahverfi Óslóar, Vaterland, og sinnti konum sem voru utangarðs og flestar fastar í vítahring fíknar og vændis. Hún átti afdrep þar í kvistíbúð sinni, og sinnti hún starfi sínu nánast allan tíma dags. Alltaf stóðu dyr hennar opnar fyrir konunum og bauð hún þeim oft gistingu og hlýju. Ólafía lýsir starfi sínu í bók sinni „Aumastar allra: Myndir frá skuggahliðum Kristjaníu“ sem var gefin út árið 1916. Vakti bókin mikla athygli á sínum tíma, bæði einstök skrif hennar og það óeigingjarna starf í þágu kvenna sem enginn vildi hjálpa. Gaf það nýja sýn á líf þessara óhamingjusömu kvenna og hvernig lífsbaráttan, áföll og fleira hafði litað líf þeirra. Þetta var tímamótaverk, enda Ólafía frumkvöðull í þessari líknarþjónustu. Ólafía hafði sjálf upplifað vonleysi og gat því sett sig í spor kvennanna og viljastyrkur hennar, trú og næmi fyrir líðan annarra hjálpaði henni í starfi. Mildi og gæskan hennar Ólafíu spegluðust í augum hennar sem lýstu af kærleika og enginn gleymdi svip hennar. Hún var kölluð boðberi kærleikans. Ólafía hafði trúna sem hjálpaði henni í gegnum erfiða dali. Vonin gaf henni kraft og þolgæði. Hún gaf starfi sínu nafnið „Boðun vonarinnar“. Hún bjó yfir mikilli ró og öryggi og þótt hún gengi um nætur á hættulegu svæði fátæktar og eymdar dirfðist enginn að ráðast að henni. Trú hennar var forsenda köllunar hennar og hún var sannarlega fætur og hendur Krists á þessum eymdarstað, sem gaf henni kjarkinn til að sinna starfi sínu.

Starfsemin óx og Louise, sem var hjúkrunarkona og djákni, gekk í lið með Ólafíu. Þær þurftu brátt að stækka við sig og fengu hjálp frá velgjörðarmönnum ásamt hvítabandskonum sem söfnuðu fyrir stærra húsnæði og árið 1912 fluttu þær Louise í húsið í Rodelokke í Spörvaskjóli. Þarna komu margar konur og bjuggu hjá þeim í von um betra líf og gátu þær hýst 10 konur í senn og voru þær á aldrinum 14 ára til 50 ára. Árið 1913 þurfti Ólafía frá að víkja vegna veikinda. Eftir veikindi Ólafíu var önnur forstöðukona fundin og var hússjóður stofnaður fyrir starfsemina og Hvítabandið gat keypt enn stærra húsnæði árið 1923., Fyrsta árið var 1.143 stúlkum sinnt, eða tíu sinnum fleiri en þær Louise gátu sinnt í Spörvaskjóli. Arfleifð Ólafíu og góður ávöxtur starfs hennar varð til umbóta í norsku samfélagi. Hugsjón og kærleiksþjónusta einnar manneskju sem fylgdi köllun sinni bar margfaldan ávöxt.

Ólafía vann að köllun sinni í hljóði, í verki og þjónustu, fór braut sem enginn annar vildi feta. En það opnaði dyr að þjónustu þar sem þúsundir fengu hjálp. Ein af mörgum frumkvöðlum þar sem starf hennar leiddi til velferðarþjónustu sem er svo sjálfsögð í dag. Það er gott að minna sig á upphafið og hvaðan sú uppspretta kemur.

Ólafía var konan með ljóskerið sem lýsti leið fyrir utangarðskonur í gegnum dimman dal í byrjun síðustu aldar. Við erum öll kölluð til kærleiksþjónustu bæði innan kirkjunnar og utan og því ættum við að líta á starf Ólafíu sem mikið og gott fordæmi. Félagsráðgjafar líta á hana sem frumkvöðul í starfi þeirra. Einnig geta djáknar lært af hennar þjónustu og má segja að hún hafi verið fyrsti djákni 20. aldarinnar þótt hún vígðist ekki formlega til starfs eða titils. En sannarlega var hún virk í kærleiksþjónustu fyrir frelsara sinn Jesú Krist.

Það er greinilegt að líf Ólafíu skilur eftir sig ljós og arfleifð enn þann dag í dag, enduróm frá kærleiksgeisla frelsarans sem hún sannarlega fylgdi í köllun sinni og starfi.

Jesús sagði: „Þér eruð ljós heimsins. Borg sem á fjalli stendur fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“ (Matt. 5.14-16.)

Að fylgja köllun sinni á veg kærleikans er hvatning fyrir okkur öll því öll getum við látið gott af okkur leiða til náungans og það getur byrjað með áhuga, virðingu og einu brosi.

Lokaorð er ljóð Ólafíu sem lýsir köllun hennar í ævistarfi og arfleifð:

Um allar álfur streymir

sú undraverða lind

er flytur líf og lækning

og laugar burtu synd.

Hún andans unað glæðir

með ilmi hreinleikans,

og hjartans hafís bræðir

með hita kærleikans.

Frá krossi fyrst hún kemur,

hin kærleiksdjúpa lind,

sem friðar hjörtun hrelldu

og hreinsar oss af synd.

Sú lindin himinhreina

er herrans Jesú blóð.

Ó, krjúpið, þreyttu þjóðir,

við þetta náðarflóð.

(Úr bókinni Frá myrkri til ljóss)

Höfundur er listmeðferðarfræðingur og meistaranemi í djáknafræði við guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands.

Höf.: Sólveig Katrín Jónsdóttir