Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Hanna Kristín Thoroddsen hagfræðingur á ömmu í föðurætt og afa í móðurætt sem eru rúmlega 100 ára. Jónas Ragnarsson, sem heldur úti síðunni Langlífi á Facebook, segir að aðeins sé vitað um eitt hliðstætt dæmi áður. Hann hafi fundið þrjú dæmi um hjón sem hafi náð 100 ára aldri en í engu tilfelli hafi þau bæði verið á lífi 100 ára eða eldri.
Erla H. Thoroddsen, amma Hönnu Kristínar í föðurætt, varð 100 ára 4. maí 2023. Eiginmaður hennar var Stefán Thoroddsen (1922-1997), Vestfirðingur eins og hún, og eignuðust þau fjögur börn. Þar á meðal Vigni Einar, föður Hönnu, en hann lést 2021.
Guðmundur Einarsson, afi Hönnu Kristínar í móðurætt, varð 100 ára 25. desember 2024. Eiginkona hans var Hanna Ragnarsdóttir (1929-2008). Þau bjuggu alla tíð í Vesturbænum í Reykjavík og eignuðust þrjú börn. Kristín, móðir Hönnu, er elst. Foreldrar Guðmundar létust á tíræðisaldri, en þeir voru Guðbjörg Jónsdóttir (1891-1982) og Einar Guðmundsson (1893-1984).
Vel á sig komin
Hanna Kristín segir að amma sín, sem býr á Hrafnistu í Reykjavík, beri sig nokkuð vel en sé lögblind og heyri illa, en hlusti þó mikið á hljóðbækur sér til dægrastyttingar. Afi sinn sé mun betur á sig kominn. Heyrnin sé farin að gefa sig, en hann fylgist vel með fréttum, sé mjög áhugasamur um allt og vel að sér um menn og málefni. Viðræðugóður. „Hann býr einn, hugsar vel um sig, er alltaf vel til fara, en fær að vísu mikla aðstoð frá börnum sínum og er auk þess alla daga á Sléttunni,“ segir hún. Bætir við að afi sinn og amma hafi lifað heilbrigðu lífi og borðað góðan heimilismat. „Afi fer algerlega eftir ráðleggingum lækna og það á líka við um mataræðið.“
Erla hefur búið á Hrafnistu í nokkur ár og er sátt við lífið og tilveruna, að sögn Hönnu Kristínar. „Hún er sérstaklega jákvæð. Þegar henni hefur til dæmis verið boðið til ættingja á aðfangadagskvöld hefur hún afþakkað boðið og sagst vilja vera heima hjá sér. Hrafnista er hennar heimili. Innst inni vill hún kannski frekar vera með fjölskyldu sinni en hún vill ekki trufla fólk og hugsar með sér: hérna er ég ánægð. Þetta jákvæða viðhorf held ég að sé mjög mikilvægt og til eftirbreytni.“
Guðmundur var málarameistari, Erla heimavinnandi húsmóðir og vann ýmis störf utan heimilis, saumaði til dæmis mikið fyrir Sjóklæðagerðina, nú 66°Norður. „Þau eiga það sameiginlegt að hafa alltaf farið mikið í sund,“ upplýsir Hanna Kristín. „Amma fór í sund daglega og þegar ég var lítil fór ég oft með henni á laugardögum. Þau hafa bæði verið heilsuhraust og afi gerir sínar jafnvægisæfingar reglulega.“ Hann hafi byrjað í golfi um fertugt og stundað það fram á tíræðisaldur. „Þau eru bæði vel á sig komin miðað við aldur,“ segir Hanna Kristín.