Enginn augljós arftaki er í formannssæti Bjarna Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum, að mati Eiríks Bergmann, prófessors í stjórnmálafræði. Bjarni ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri á komandi landsfundi sjálfstæðismanna en enn liggur vafi á hvenær fundurinn verður haldinn

Iðunn Andrésdóttir

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

Enginn augljós arftaki er í formannssæti Bjarna Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum, að mati Eiríks Bergmann, prófessors í stjórnmálafræði. Bjarni ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri á komandi landsfundi sjálfstæðismanna en enn liggur vafi á hvenær fundurinn verður haldinn.

Í fljótu bragði segir Eiríkur þó fjóra sjálfstæðismenn helst koma til greina, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur varaformann flokksins, Guðlaug Þór Þórðarson, sem bauð sig fram gegn Bjarna á síðasta landsfundi, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Guðrúnu Hafsteinsdóttur.

Þórdís ekki augljós kostur

Segir Eiríkur hefðir og almennar reglur kveða á um að varaformaður sé sá sem taki við en nú sé það þannig að varaformaðurinn sé ekki algjörlega augljós kostur.

Um framtíð flokksins segir Eiríkur sjálfstæðismenn helst þurfa að gera það upp við sjálfa sig í hvorn fótinn þeir vilji stíga, þann íhaldssama eða þann frjálslynda, enda liggi það fyrir að flokkurinn hafi annars vegar misst íhaldssamt fylgi til Miðflokksins og hins vegar misst frjálslynt fylgi til Viðreisnar í síðustu kosningum.

Skiptar skoðanir

Stefnt var á að halda landsfund flokksins í lok febrúar en skiptar skoðanir eru meðal flokksmanna um hvort fresta eigi fundinum fram á haust. Þá hafa aðrir stungið upp á að fresta fundinum í það minnsta fram á vor.

Upphafleg tímasetning hafði verið ákveðin er til stóð að ganga til kosninga í vor en ekki í nóvember eins og úr varð og telja sumir mikilvægt að fresta fundinum til að gefa flokksmönnum smá andrými eftir nýyfirstaðnar kosningar og sömuleiðis gera flokksmönnum af landsbyggðinni auðveldara fyrir að sækja fundinn.

Þá segja aðrar raddir enga bersýnilega ástæðu til þess að fresta fundinum og í raun skipta sköpum að sjálfstæðismenn komi saman sem fyrst til að marka upphafið að stjórnarandstöðunni, enda í fyrsta sinn í áratug sem flokkurinn sé ekki í ríkisstjórn.

Ekki liggur fyrir hvort miðstjórn flokksins hafi borist formleg tillaga um frestun landsfundarins eða hvaða áhrif ákvörðun Bjarna muni hafa á dagsetningu fundarins.