Baksvið
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Aðstoðarmenn Bidens Bandaríkjaforseta stýrðu aðgangi að forsetanum svo að samherjum hans þótti fram úr hófi keyra á sama tíma og þeir gerðu sér far um að halda neikvæðum fréttum frá honum. Þá þurfti að minnsta kosti einu sinni að aflýsa fundi forsetans með ráðgjöfum sínum þar sem hann átti „slæman dag“.
Þetta er á meðal þess sem greint er frá í fréttaskýringu bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal, WSJ, sem birtist skömmu fyrir jól. Þar var rætt við um 50 manns sem tengdust Hvíta húsinu með einum eða öðrum hætti, en talsmenn forsetans neituðu því við WSJ að geta Bidens til þess að sinna skyldustörfum sínum hefði minnkað með árunum.
Í fréttaskýringu WSJ er tekið fram að allir forsetar hafi „hliðverði“ sem þurfi að gæta þess að tími forsetans sé nýttur sem best. Hins vegar er haft eftir ónafngreindum þingmönnum demókrata, fjárhagslegum bakhjörlum flokksins og aðstoðarmönnum að nánustu aðstoðarmenn Bidens hafi reist „hærri múra“ utan um Biden en aðrir forsetar hafi þurft. Þeir hafi í raun lagt hömlur á við hverja Biden ræddi, hvað þeir sögðu við Biden og hvaða upplýsingar forsetinn hafði á hverjum tíma.
Sumir þingmenn demókrata sögðu við WSJ, bæði nafnlaust og undir nafni, að þeim hefði gengið mjög illa að ná tali af forsetanum, og að brýnt hefði verið fyrir þeim sem fengu slíka fundi að hafa erindi sín stutt og skorinorð. Þá var Biden líklegri til þess að mismæla sig eða gera mistök ef fundir drógust úr hófi fram. Þá segir í skýringu WSJ að sjálfur hafi Biden oft viljað sitja lengur á fundum en aðstoðarmennirnir vildu.
Ráðherrar Bidens voru ekki undanskildir þessari hliðvörslu, og segir WSJ að fundum Bidens með ráðherrum sínum hafi farið fækkandi eftir því sem leið á kjörtímabilið. Þar hafi mikilvægir ráðherrar á borð við Lloyd Austin varnarmálaráðherra og Janet Yellen fjármálaráðherra ekki verið undanskildir, jafnvel þó að verkefni Bandaríkjastjórnar í málaflokkum þeirra hafi reynst ærin á síðustu tveimur árum.
Þá er greint er frá því að stundum hafi þurft að aflýsa fundum þar sem forsetinn hafi ekki haft heilsu til að sitja þá. WSJ nefnir sem dæmi fund sem átti að halda vorið 2021, sem þurfti að fresta um einn dag. „Hann á góða daga og slæma daga, og í dag var slæmur dagur, þannig að við ræðum þetta á morgun,“ var útskýringin sem veitt var á frestuninni, að sögn eins heimildarmanna WSJ.
Skelin harðnaði með árunum
Í fréttaskýringu WSJ er rakið að Biden hafi alltaf verið með náinn hóp ráðgjafa sem hann hafi haldið tryggð við í gegnum allan sinn pólitíska feril. Það sé þó ekki ástæðan fyrir þeirri miklu umgjörð sem mynduð var um Hvíta húsið í embættistíð hans, heldur megi frekar rekja það til kosningabaráttunnar 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði.
Þar sem Biden var á þeim tíma sá elsti sem hafði sóst eftir forsetaembættinu var hann í hópi þeirra sem viðkvæmastir voru fyrir faraldrinum og því var allt gert til þess að koma í veg fyrir að hann smitaðist. Í skýringunni segir hins vegar að skelin sem þá var mynduð utan um Biden hafi aldrei verið tekin niður og í raun hefði hún harðnað eftir því sem hann varð eldri.
Biden hefur aldrei verið þekktur fyrir að vera sérstaklega sterkur ræðumaður, og mismælti hann sig oft illa á yngri árum. Þótti þetta kerfi því einnig geta komið í veg fyrir að hann misstigi sig opinberlega, allavega að mestu leyti, þar sem orð Bandaríkjaforseta vega óneitanlega þyngra en orð öldungadeildarþingmanns eða varaforseta.
Kæfðu alla gagnrýni
Bandamenn Bidens gerðu sér einnig sérstakt far um að kæfa alla gagnrýni innan Demókrataflokksins á Biden, sérstaklega þegar kom að ákvörðuninni um hvort hann ætti að sækjast eftir endurkjöri, þrátt fyrir að hann væri þá þegar elsti maðurinn til að gegna embættinu. Sú ákvörðun kom í veg fyrir að demókratar gætu komið sér saman um yngri og sigurstranglegri frambjóðanda.
„Skelin“ reyndist þar of hörð þar sem Biden fékk nú ekki traustar upplýsingar um stöðuna í kosningabaráttunni, ólíkt því sem var í kosningabaráttunni 2020 þegar hann ræddi nær daglega við John Anzalone, helsta ráðgjafa sinn um skoðanakannanir. Að þessu sinni fengu þeir sem sáu um kannanir demókrata ekki að ræða beint við Biden heldur sáu aðstoðarmenn hans um að gefa honum yfirsýn yfir stöðuna.
Kappræður Bidens við Donald Trump hinn 27. júní særðu forsetann svo holundarsári, þar sem frammistaða hans þótti arfaslök. Það segir sína sögu að Biden virtist trúa því allt þar til hann dróg sig í hlé tæpum mánuði síðar að hann ætti ennþá möguleika, jafnvel þótt kannanir bentu til þess að Trump væri kominn með örugga forystu í kapphlaupinu um Hvíta húsið.