Ríkisstjórnin, sem nú er sest, pantaði sér löngu síðar óskalista til ríkisstjórnar og hefur enn ekki birt hann. Óskalistar eru ekki síst þekktir frá ungviði í aðdraganda jóla, en þeir eru sjaldgæfir þegar jólin eru um garð gengin. Hin almenna og stjórnmálalega pöntun á slíkum listum er sárasjaldan brúkuð að jólum loknum. Þá æpir það á alla, að óskalistinn var aðeins sýndarskapur af versta tagi. En þessi aðferð er þó ekki með öllu ámælisverð og fremur til hróss fyrir starfshóp, sem veit ekki hvað hann ætlar sér að gera, eða stefnir á. Hefði óskalistinn komið vel fyrir jól (kosningar) hefðu þeir sem ætluðu sér í ríkisstjórn getað brugðist við og veitt úr þá þætti sem ættu möguleika á efndum, nokkrum vikum síðar, svo sem á kjördag. Það er dálítið kúnstugt, að þriggja flokka ríkisstjórn skuli vera orðin svo vita hugmyndalaus, aðeins fáeinum vikum eftir kjördag.
En kannski snýst vandinn ekki aðeins um hugmyndasnauða flokka og nokkrum vikum síðar hugmyndasnauða ráðherra og því sé auglýst eftir hugmyndum, reyndar eftir að hinum pólitísku dyrum hafði verið skellt í lás með slagbröndum af „leiðtogunum“ sjálfum, og af þeirri ástæðu einni, að þeir sjálfir eða meintir leiðtogar ríkisstjórnarinnar, höfðu ekkert nýtt fram að færa, aðeins fáeinum vikum eftir að „sáttmáli“ þeirra hafði verið undirritaður og settur ofan í skúffu, og verður ekki opnaður í bráð.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður um langt skeið, segir að „jólagjöfin hafi verið ný ríkisstjórn með fyrirheitum um betri tíð með blóm í haga“. Guðni þekkir það á eigin skrokki og sínu nærumhverfi forðum á Brúnastöðum, þegar veðrið kollsteyptist óvænt í febrúar og hafði þó enginn óskalisti borist á þann bæ, þar sem mannmargt var og iðulega mikið ungviði og ekki að vænta þess að nú væri rétti tíminn fyrir betri tíð og blóm í haga.
Ágúst, faðir Guðna og hans mikla og mannvænlega systkinahóps, skráði um sína tíð ólætin í flóðum í Hvítá og Ölfusá. Þá var fjarri Ágústi og þeim öðrum að biðja um fyrirheit um komandi tíð með blóm í haga. Nefna má ofsaflóðin 1984, nærri Brúnastöðum, þar sem bræður hans sluppu naumlega með líf sitt.
Ágúst húsbóndi segir meðal annars: „Sunnudaginn 12. febrúar var þurrt veður og lygnt og heldur kólnandi. Mikið vatn og krap eftir hálkuna var í öllum lægðum og lautum. Ekki vottaði fyrir neinni hreyfingu á Hvítá, að öðru leyti en því, að íshellan stóð mjög hátt hér á móts við bæinn.“ Þá vissi Ágúst ekki fyrr til, en að allur þessi mikli ísgeymir lyftir sér í einu vetfangi, eins og hendi væri veifað, um nokkurra metra hæð og ísbrúnin steypist yfir bakkann á öllu svæðinu frá flóðgáttinni og vestur undir Langatanga. Mátti þarna engu muna að hann yrði undir ís- og vatnsbylgjunni þar sem hún steyptist eins og brimskafl yfir túnið.
Þannig getur Íslands tíð orðið óvænt og fyrirvaralaus, og því þýðingarmikið að hafa jafnan vara á sér, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Það má duga að vona hið besta og heita á guð sinn og góðar vættir. En hitt er þó jafn öruggt, að mjög svo síðbúnir óskalistar, löngu eftir kosningar, eru meira til stríðni en annars.
Guðni Ágústsson bendir á, að einungis tveir, af sex flokkum nú, áttu aðild að lýðveldisstofnuninni 1944 og leggur áherslu á að engin þjóð í Evrópu hefur stýrt sínum málum af jafn miklum þrótti til framfara eins og Ísland hefur gert. Stjórnmálafólkið, sem pantar óskalista mörgum vikum eftir að stjórnarsáttmáli hefur verið ákveðinn, tekur ekki mark á sjálfu sér eða nokkru öðru, enda blasir við af sáttmálanum að flokkarnir þrír hafa gleymt öllum þeim loforðum sem þeir gáfu í aðdraganda kosninga, sem nægir til að sanna, svo að ekki þarf meira til, að síðbúinn óskalisti er hallærislegt spé, sem sýnir helst fyrirlitningu á kjósendum sínum.