Diljá Mist Einarsdóttir
Diljá Mist Einarsdóttir
Í umræðum um fjármálaáætlun og fjárlög hafa fulltrúar nýju stjórnarflokkanna sannarlega ekki drekkt þinginu í hagræðingartillögum.

Diljá Mist Einarsdóttir

Undirrituð fékk nýja ríkisstjórn í afmælisgjöf 21. desember síðastliðinn. Einhverjum þótti tilefni til að grínast um það við mig. Það er klárlega ýmislegt í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar sem hljómar vel. Línur eins og „styrk stjórn á fjármálum ríkisins“, „aukin verðmætasköpun“ og „einfaldari stjórnsýsla og hagræðing í ríkisrekstri“ virðast teknar úr auglýsingum frá Sjálfstæðisflokknum. Enda liggja rætur fjölmargra forkólfa ríkisstjórnarinnar þar. Sé betur að gáð er yfirlýsingin að mestu slíkar línur; frasar sem ríma vel við hversu skamman tíma tók að koma stjórninni saman. Hópi fólks sem talaði með gerólíkum hætti í nýafstaðinni kosningabaráttu. Auðvitað er ástæða til að vona það besta, að glænýir ráðherra standi við fögur fyrirheit, m.a. um að hækka ekki skatta.

Við sem tókumst á við þetta sama fólk á nýafstöðnu þingi höfum þó efasemdir af fenginni reynslu. Við tengjum ekki orð og frasa eins og „einfaldari stjórnsýslu“, „hagræðingu“ og „stöðvun hallareksturs“ við málflutning þess og framgöngu.

Undirrituð lagði fram fjölmörg þingmál á sínu fyrsta kjörtímabili tengd einfaldari og betri stjórnsýslu og hagræðingu til að stuðla að betri ríkisfjármálum. Til upprifjunar reifa ég þau nokkur þeirra hér.

Fyrst má nefna þingmál sem tengjast opinberu starfsmannahaldi. Opinberum starfsmönnum hefur enda fjölgað gríðarlega og er full ástæða til að endurskoða úrelda löggjöf um ríkisstarfsmenn til að auka hagkvæmni í ríkisrekstri og stuðla að bættri þjónustu hins opinbera. Samfylkingin mótmælti tillögum um endurskoðun kröftuglega og hafði þungar áhyggjur af því að breytingar á lögunum myndu „skerða réttindi og starfsöryggi ríkisstarfsmanna.“ Þar lágu áhyggjurnar.

Næst má nefna þingmál sem tengjast opinberum fjárframlögum til stjórnmálaflokka sem hafa margfaldast frá reglum um þau frá árinu 2006. Undirrituð hefur bent á að stjórnmálaflokkar hafi í raun verið ríkisvæddir og að framlögin ætti að lækka, auk þess sem hækka ætti skilyrði um lágmarksatkvæðafjölda stjórnmálasamtaka sem fengið geta úthlutað fé úr ríkissjóði. Það er enda ólýðræðislegt að úthluta háum fjármunum frá skattgreiðendum í þágu stjórnmálastarfsemi og hugmyndafræði sem þeir hafa hafnað í lýðræðislegum kosningum. Þessum tillögum mótmæltu fulltrúar Flokks fólksins harðlega, og fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar lýstu sömuleiðis yfir miklum efasemdum.

Jafnlaunavottun Viðreisnar er kostnaðarsamur baggi á atvinnulífinu og opinberum stofnunum sem skilar engum marktækum árangri. Þessi stimpill frá ríkinu um að allt sé upp á tíu í jafnlaunamálum veldur miklu fremur skaða eins og reynslan hefur sýnt. Skemmst er frá því að segja að þingmál undirritaðrar um að þessi dyggðaskreyting verði valkvæð hefur ekki vakið mikla lukku hjá þingmönnum Viðreisnar.

Undirrituð hefur lagt fram þingmál sem tengjast almennt verklagi varðandi svokallaða gullhúðun; að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum sem leiðir af EES-samningnum, nema sérstakar ástæður standi til þess. Sömuleiðis sérstök þingmál, m.a. varðandi einföldun ársreikninga og reikningsskila í því skyni að afhúða slíka gullhúðun. Ekki varð vart við rífandi undirtektir þingmanna nýju stjórnarinnar, sem hafa sett önnur mál í forgang.

Í umræðum um fjármálaáætlun og fjárlög hafa fulltrúar nýju stjórnarflokkanna sannarlega ekki drekkt þinginu í hagræðingartillögum. Þeir voru öllu heldur samstiga í endalausu útgjaldasuði og gagnrýni á það aðhald sem þó var sýnt. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þeim „einfalda og hagræða“ og óska ég þeim velfarnaðar varðandi þau markmið.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Diljá Mist Einarsdóttir