Á Ásbrú Orri Björnsson forstjóri Algalífs við nýja verksmiðjuhúsið sem er hannað utan um starfsemina sem krefst mikils rýmis fyrir glerrörin.
Á Ásbrú Orri Björnsson forstjóri Algalífs við nýja verksmiðjuhúsið sem er hannað utan um starfsemina sem krefst mikils rýmis fyrir glerrörin. — Morgunblaðið/Eggert
Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Líftæknifyrirtækið Algalíf er þessa dagana að ganga frá endurfjármögnun á skuldum félagsins samhliða stækkun þess. Algalíf hefur verið í mikilli uppbyggingu og er áformað að ný verksmiðja verði komin í fullan gang í ár.

Orri Björnsson forstjóri Algalífs segir samningana tryggja félaginu hagstæðari fjármögnun til lengri tíma litið. Framkvæmdalán muni víkja fyrir langtímafjármögnun og félagið byrja að greiða niður nýju langtímalánin á þessu ári með fjárstreymi úr rekstrinum.

Algalíf framleiðir fæðubótarefnið astaxanthín úr örþörungum. Fyrirtækið hóf framleiðslu á Ásbrú árið 2014 og er nú að taka í gagnið nýja og stærri verksmiðju við hlið þeirrar fyrri. Með því eykst framleiðslugetan úr 1.500 í 5.000 kíló á ári. Hún nam um 2.500 kílóum um nýliðin áramót og hefur nýja verksmiðjan því þegar skilað auknum tekjum. Samsvarar aukningin um 30 prósentum af afkastagetu nýju verksmiðjunnar.

Fjölgar úr 30 í 80

Áformað var að taka nýju verksmiðjuna í fulla notkun árið 2024 en það hefur dregist vegna tafa við framkvæmdir. Að sögn Orra er nú útlit fyrir að hún nái fullum afköstum fyrir komandi sumar. Með stækkuninni fjölgar starfsmönnum úr 30 í 80.

Orri upplýsir jafnframt að Algalíf sé í viðræðum við nýja fjárfesta um að koma inn í hluthafahóp félagsins. Nánar verði greint frá niðurstöðu þeirra viðræðna á næstu mánuðum.

Spurður hvaða áhrif jarðhræringarnar á Reykjanesi hafi á orkuöryggi fyrirtækisins, og þar með áformaða framleiðsluaukningu, segir Orri að orkuframboðið sé tryggt. Orkunotkunin muni fara úr 2,2 í 7 MW á klukkustund, miðað við stöðuga notkun allt árið, sem sé til dæmis mun minni orkunotkun en hjá gagnaverunum. Þegar framleiðslan í Svartsengi raskaðist vegna jarðhræringa í fyrra hafi HS Orka keypt orku af öðrum orkufyrirtækjum og miðlað til Algalífs sem hafi greitt mismuninn.

Dregur úr áhættunni

„Það var ekkert mál. Það tók sex daga að koma virkjuninni í gang aftur. Það er útlit fyrir að það sé heldur að róast á Sundhnúksgígaröðinni en með því dregur úr þessari áhættu,“ segir Orri.

Astaxanthín er fituleysanlegt andoxunarefni sem þykir hafa ýmis heilsubætandi áhrif og mikla lífvirkni, að sögn Orra. Viðskiptavinir Algalífs séu um heim allan en stærsti markaðurinn sé í Asíu.

Upprunaleg verksmiðja Algalífs á Ásbrú var byggð inn í byggingar sem voru fyrir og voru ekki hannaðar fyrir þessa starfsemi. Hún var byggð í tveimur áföngum á árunum 2014 og 2016 og 2017.

Sérhönnuð fyrir ræktunina

Nýja verksmiðjan er hins vegar hönnuð utan um starfsemina sem krefst mikils rýmis fyrir glerrörin þar sem örþörungarnir eru ræktaðir. Til einföldunar er örþörungurinn ræktaður við ákjósanlegar aðstæður í glerrörum og svo sveltur með minna ljósi og minni áburði til að kalla fram varnarviðbrögð hans í náttúrunni, til dæmis þegar vatnslind þornar. Myndast þá astaxanthín.

Meðal kaupenda er íþróttafólk og fólk með liðavandamál en jafnframt nota margir Íslendingar astaxanthín sem grunnsólarvörn.