Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Sveitarstjórnir Húnaþings vestra og Dalabyggðar hafa samþykkt að hefja könnunarviðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, staðfestir það í samtali við Morgunblaðið

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Sveitarstjórnir Húnaþings vestra og Dalabyggðar hafa samþykkt að hefja könnunarviðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, staðfestir það í samtali við Morgunblaðið. Tveir fulltrúar og tveir til vara frá hvoru sveitarfélagi um sig mynda verkefnishóp um fýsileika formlegra viðræðna um sameiningu og munu sveitarstjórarnir tveir starfa með hópnum með bæði málfrelsi og tillögurétt á fundum hans, eins og segir í fundargerðum sveitarstjórnanna. Hópnum ber að skila niðurstöðum ekki síðar en 30. apríl.

Unnur Valborg segir ferlið vera á fyrstu metrunum. „Við erum að hefjast handa á næstu dögum og vikum og leitum að aðila til að vera okkur til ráðgjafar. Svo gerum við ráð fyrir að fara af stað.“ Könnunarviðræður sveitarfélaganna munu samkvæmt fundargerðunum fela í sér mat á fjárhagsstöðu þeirra, skipulagi og starfsemi sem og mat á væntum breytingum við mögulega sameiningu en verkefnishópnum er falið að leita sérfræðiráðgjafar við vinnuna og leita eftir sjónarmiðum íbúa í ferlinu.

Sveitarfélögin árétta að í óformlegum sameiningarviðræðum felist engin skuldbinding af hálfu þeirra og að þau geti hætt viðræðum hvenær sem er.

Unnur segir kröfu frá ríki að sveitarfélögum fækki, þau stækki og séu betur í stakk búin til að standa við þær skuldbindingar sem á þau eru lagðar, en frá og með næsta ári verða sveitarfélög að telja að lágmarki 1.000 íbúa.

Í Húnaþingi vestra búa um 1.260 manns og í Dalabyggð um 660. Þannig teldi sameinað sveitarfélag um 1.900 manns. Segir Unnur sveitarstjórnir fyrst hafa talað saman á síðasta kjörtímabili en svo hafi þær átt fundi vegna málsins síðasta vor og í haust.

Ef ákveðið verður í framhaldinu að fara út í formlegar bindandi viðræður gætu þær hafist á síðasta fjórðungi ársins. „Bindandi viðræðum lýkur alltaf með íbúakosningu, væntanlega í upphafi næsta árs, svo að síðasta orðið verður alltaf í höndum íbúa. Þá verður kosið í sameinuðu sveitarfélagi samhliða sveitarstjórnarkosningum 2026.“