Kjötvinnsla Fyrirhuguð starfsemi samræmist ekki aðalskipulagi Reykjavíkur.
Kjötvinnsla Fyrirhuguð starfsemi samræmist ekki aðalskipulagi Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Bergsson oskar@mbl.is

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Við eigum ekki annan kost en að leggja fram stjórnsýslukæru vegna synjunar byggingarfulltrúans í Reykjavík um að stöðva frekari framkvæmdir á lóðinni. Verði ekki fallist á kæruna eða úrlausn fáist með öðru móti, er einsýnt að Búseti muni leita réttar síns fyrir dómstólum,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta vegna synjunar byggingarfulltrúans í Reykjavík við því að stöðva framkvæmdir við Álfabakka 2 í Suður-Mjódd.

Fyrirmyndarbyggingarstaður

Í bréfi byggingarfulltrúans kemur fram að embættið hafi boðað til stöðuúttektar að Álfabakka þann 19. desember 2024 og hafi niðurstaða stöðuskoðunarinnar verið án athugasemda. Þar hafi jafnframt komið fram að engin sjáanleg frávik séu frá aðaluppdráttum og að byggingarstaður sé til fyrirmyndar varðandi hreinlæti. Viðstaddir stöðuskoðun voru úttektarfulltrúi byggingarfulltrúa og byggingarstjóri framkvæmdarinnar.

„Með hliðsjón af framangreindu telur byggingarfulltrúi ekki tilefni til að stöðva framkvæmdir að Álfabakka 2A-2D,“ segir jafnframt í bréfi byggingarfulltrúans.

Bjarni segir að Búseti muni á næstu dögum og vikum nýta þau úrræði sem lögmenn félagsins telji við hæfi að virkja í þeim aðstæðum sem upp séu komnar.

„Bæði kjörnir fulltrúar og embættismenn á vegum Reykjavíkurborgar hafa notað orð eins og mistök og klúður í samhengi við stálgrindarskemmuna og að leita þurfi leiða til að leiðrétta þau mistök. Þeir hafa þannig sýnt fram á vilja til að horfast í augu við mistökin og því er svar byggingarfulltrúans á skjön við yfirlýsingar kjörinna fulltrúa borgarinnar.“

Hann segir að mat lögmanna Búseta sé að málsmeðferðin við deiliskipulagsbreytingar sem og veiting byggingarleyfis á lóðinni hafi verið haldin alvarlegum annmörkum.

„Þeir eru svo alvarlegir að ef rétt hefði verið staðið að málum hefði aldrei átt að veita leyfi fyrir byggingu af þeirri stærð og umfangi eins og raunin varð við Álfabakka 2.“

Alvarlegir annmarkar

Erlendur Gíslason, lögmaður á LOGOS lögmannsþjónustu sem gætir hagsmuna Búseta í málinu, segir að aðal- og deiliskipulag geri ekki ráð fyrir kjötiðnaði eða öðrum iðnaði á svæðinu og leiða megi rök að því að annmarkarnir við veitingu byggingarleyfisins geri það að verkum að veiting leyfisins sé ógildanleg. Við þær aðstæður sé Reykjavíkurborg heimilt að afturkalla leyfið á grundvelli stjórnsýslulaga.

„Við teljum að það hefði verið eðlileg stjórnsýsla að stöðva frekari framkvæmdir meðan skoðun á þessum umkvörtunum nágranna færi fram.“

Hann bendir á að fyrirhuguð starfsemi í húsinu, þ.e. vöruskemma sem fyrst og fremst þjóni kjötvinnslu, endurspegli enga af þeirri starfsemi sem kveðið sé á um í aðalskipulagi fyrir svæðið, þ.e. fjölbreytta verslun, m.a. sérvöruverslun og þjónustu og starfsemi sem þjóna eigi heilum borgarhluta.

„Slík kúvending án formlegrar breytingar á skipulagi hlýtur að vekja spurningar um lögmæti byggingarinnar og fyrirhugaðrar starfsemi í henni,“ segir Erlendur.

Bjarni Þór segir að fyrir liggi að skemman sé ætluð dótturfélögum Haga, m.a. undir kjötiðnað á vegum Ferskra kjötvara, fyrir Eldum rétt og sem vöruhús fyrir önnur dótturfélög Haga.

„Sem betur fer eru enn fyrir hendi úrræði til þess að leiðrétta þá röð mistaka sem leitt hefur til þess að byggingin var reist í þessari stærð og fyrir þá starfsemi sem fyrirhuguð er í henni,“ segir Bjarni Þór.