Karl Helgason fæddist 2. september 1968 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 16. desember 2024.
Foreldrar hans voru Katrín Eiríksdóttir f. 25.4. 1947 og Helgi V. Karlsson f. 22.5. 1943, d. 2.11. 2017. Seinni maður Katrínar var Matthías Gunnarsson f. 8.7. 1950, d. 19.8. 2024.
Bróðir Karls er Haukur, f. 2.7. 1974, maki hans er Heleen Vaher. Börn þeirra eru Óliver og Sara Liv. Haukur á líka Tristan, Isabellu og Evan.
Kona Karls er Irina Guseynova, f. 15.10. 1971, dóttir hennar er Albina, maki Jón Ingvar Karlsson Brune, dóttir þeira er Díana Sól.
Karl flutti þriggja ára til Hafnarfjarðar og ólst þar upp. Í Hafnarfirði eignaðist hann marga góða vini sem enn hittast reglulega með því að fara í veiði einu sinni á ári.
Hann gekk í Víðistaðaskóla og síðan í Menntaskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem stúdent. Bekkjarfélagarnir úr MR hafa haldið hópinn og hittast reglulega og var Karl duglegur að mæta eftir að hann fluttist aftur heim og hafði mikla ánægju af.
Karl æfði fótbolta með yngri flokkum FH. Upp frá því hélt hann alltaf með FH og var duglegur að fara á heimaleiki hjá þeim. Hann átti líka uppáhaldslið í enska boltanum sem var Ipwich Town. Einnig æfði Karl badminton og spilaði það meðan heilsan leyfði. Núna seinni árin átti golfið hug hans allan.
Karl flutti til Svíþjóðar 1990 og bjó þar í 16 ár. Hann vann hjá Volvo allan tímann. Stuttu eftir að hann flutti heim kynntist hann Irinu konu sinni og voru þau búin að eiga 10 góð ár saman. Þau giftu sig 21. júni 2024.
Karl fór í HR þegar hann kom heim frá Svíþjóð og lærði tölvunarfræði. Eftir útskrift þaðan vann hann meðal annars hjá Sabre, Tölvumiðlun, Datamarket og Qlik en vann nú síðast hjá Icelandair.
Útför Karls fer fram frá Digraneskirkju í dag, 7. janúar 2025, kl. 15.
Elsku Kalli minn.
Mikið er erfitt að kveðja þig. Þú varst mitt fyrsta barn og mikil gleði sem fylgdi þér. Þú ólst upp í Hafnarfirði frá þriggja ára aldri. Þá voru allir krakkar úti að leika og átti hraunið mikið aðdráttarafl hjá ykkur. Þið voru með dúfnakofa, lékuð ykkur í boltaleikjum og svo má ekki gleyma áramótabrennunum sem þið gerðuð rétt fyrir utan lóðina þar sem við bjuggum. Væri ábyggilega ekki leyft í dag. Eftir stúdentinn fluttir þú til Svíþjóðar. Þangað höfðu Siggi, Billi og fleiri félagar þínir úr Hafnarfirði flutt. Þú ætlaðir að vera þar smátíma meðan þú værir að ákveða frekara nám.
En árin urðu 16 og vannst þú allan tímann hjá Volvo. Við Matti heimsóttum þig þangað nokkrum sinnum og á ég góðar minningar frá þeim tíma. Við leigðum bústað á Jótlandi og þú keyrðir okkur um allt Jótland og yfir til Þýskalands. Varst á glænýjum Volvo og varst ekkert smáspenntur að prufa nýja bílinn. Einu sinni fórum við alla leið til Þrándheims að heimsækja frænda þinn Lárus sem bjó þá þar. Einnig komstu með okkur til Mallorca þegar Matti varð fimmtugur og þar keyrðir þú okkur um alla eyjuna. Já, þetta eru góðar minningar sem ég geymi í minningabankanum.
Eftir heimkomuna kynntist þú Irinu og hvað þið voruð hamingjusöm. Með Irinu fékkstu stjúpdóttur sem heitir Albina og hún og Jónsi gerðu þig að afa. Hvað þú varst stoltur af Díönu Sól, afabarninu þínu.
Hún Irina stóð sem klettur þér við hlið í veikindum þínum og veit ég að þú varst henni svo þakklátur fyrir það. Þú sagðir mér að hún hefði náð ýmsu í gegn fyrir þig sem þú hefði ekki orkað að gera og varst svo stoltur af konunni þinni.
Þú varst mjög duglegur að gera ýmsa skemmtilega hluti síðustu mánuðina þína þótt þú værir í hjólastól. Ég fór með ykkur Irinu út að borða á afmælinu hennar í október, þú fórst á tónleika í Hörpu með vinum þínum o.fl. Þú varst búinn að skipuleggja jólin. Við ætluðum að vera saman, litla fjölskyldan þín, á aðfangadagskvöld og svo þú með okkur Irinu á jóladag. Þú varst búinn að fá mig til að samþykkja að gista hja ykkur öll jólin. Við Irina gerðum þetta allt en mikið söknuðum við þín. Þú varst búinn að kaupa miða á Elly og átti að fara út að borða áður, strax eftir jólin og var það jólagjöfin frá ykkur Irinu til mín. Við Irina fórum þetta og áttum ánægjulega stund saman ásamt Unnu vinkonu minni. Við höfðum svo líkan húmor og hvað við gátum hlegið saman.
Elsku Kalli minn, þetta er búið að vera erfiður tími, fyrst dó Matti í ágúst og svo þú núna í desember. Ég veit að Matti tekur vel á móti þér því þið voruð svo góðir vinir. Nú getið þið spjallað endalaust um fótbolta sem þið höfðuð báðir mikinn áhuga á.
Vertu sæll elsku sonur, sjáumst síðar.
Þín mamma.
Katrín Eiríksdóttir.
Karl Helgason eða bara Kalli var einn af frumbyggjum Norðurbæjarins, nánar tiltekið i blokkunum við Miðvang. Þar voru krakkar í hverri íbúð og auðvelt að finna sér leikfélaga. Fljótlega myndaðist þar vinahópur sem hefur haldið saman alla tíð. Miðvangsstrákar kölluðum við okkur og vorum allir meðlimir i knattspyrnufélaginu Miðvangi og veiðifélag okkar ber sama nafn.
Árin á Miðvanginum eru okkur öllum kær og þau skildu eftir sig stóran hóp af vinum. Nú er sá fyrsti okkar fallinn frá alltof snemma. Á Miðvanginum voru allir jafnir, knattspyrna var leikin á hverjum fermetra og öll hugsanleg öt voru framkvæmd án spurninga. Ógróðursett hraunið var okkar leikvöllur þar sem minnast má Kalla uppi á skipinu eða í stólnum. Það vantaði aldrei frumleikann þegar gefa þurfti hraunmyndunum nafn. Kalli var hluti af þessum hópi og tók virkan þátt i nær öllu. Helst er að minnast stórleiks hans i kvikmyndum þar sem persóna Kalla dó með slíkum tilþrifum að við um 50 árum síðar erum enn að brosa saman. Á yfir 50 árum minnist ég þess ekki að ég hafi nokkurn tímann rifist við Kalla, það er mikið afrek fyrir þá sem til þekkja. Einu sinni reiddist hann og ég man aldrei út af hverju, er farinn að halda að mig hafi dreymt það. Eitt helsta íþróttaafrek Kalla var að stökkva hæð sína yfir grindverkið á róluvellinum. Eins og oft þegar snjóaði þá fórum við Miðvangsstrákar á stjá, hvaða nágranni yrði fyrir valinu var nokkuð augljóst, sá sem hafði stystan þráð, þegar snjóboltum var látið rigna á stofuglugga viðkomandi. Þetta kvöld var eins og enginn væri heima en það virtist ekki raunin, eftir um 220 bolta sem höfðuð hitt stofugluggann mætti nágranninn i fullum skrúða og tók a rás á eftir okkur. Kalli dróst fljótlega aftur út og líklegt að þetta kvöld yrði hans síðasta. Þegar fjarlægðin var nánast enginn milli hans og títtnefnds nágranna og Kall virtist króaður af þá, með einhverjum undraverðum hætti, stökk hann hæð sína og flaug yfir nálægt grindverk sem var a.m.k. ekki lægra enn Kalli sjálfur. Þetta var mikið sjónarspil og jafnframt rifjað upp á hverju ári.
Kalli var aldrei langt undan þrátt fyrir að hafa farið í annan menntaskóla og flutt til Svíþjóðar um stund. Á seinni árum höfum við hist árlega við veiðar, nánar tiltekið í Korpunni. Kalli stofnaði þar Facebook-hópinn Miðvangsstrákar og var fastagestur í veiðinni. Í veiðinni var bara ein regla, við mættum þangað einn dag á ári og vorum bara strákarnir af Miðvanginum, þær stundir með Kalla eru okkur dýrmætar.
Nú í sumar komst Kalli ekki og við fengum þær fréttir að krabbameinið hafði tekið sig upp aftur og hann væri eitthvað slappur. Enginn átti von á öðru enn að Kalli myndi mæta að ári aftur. Því miður verður svo ekki og það er kannski lýsandi fyrir Kalla að vera ekki að bera veikindi sín á torg. Nú erum við einum fátækari og eftir stöndum við níu. Við minnumst með hlýju æskufélagans með vinalega brosið og sannkallaðs ljúfmennis. Ég vil fyrir hönd okkar Miðvangsstráka votta nánustu fjölskyldu Kalla samúð okkar.
Sigþór Ari Sigþórsson.
Í dag kveðjum við kæran bekkjarfélaga okkar, Karl Helgason, eða Kalla eins og hann var alltaf kallaður. Þegar við félagarnir hófum nám við Menntaskólann í Reykjavík, haustið 1984, voru strákarnir úr jaðarbyggðum höfuðborgarsvæðisins settir saman í bekk ásamt öflugum stúlkum frá meiri menningarstöðum úti á landi. Þannig atvikaðist það að stráklingar af Seltjarnarnesi og úr Hafnarfirði lentu saman í bekk. Í tilfelli okkar og Kalla enduðum við saman í bekk öll árin fjögur í Menntaskólanum. Það má því segja að við höfum meitlast saman til manns þessi mótunarár þar sem við lærðum ýmislegt fleira en stóð í námsbókunum. Það var nefnilega góð blanda í þessum bekk þar sem traust átti eftir að ríkja og andi samvinnu. Við fengum það líka staðfest frá kennurum seinna. Og það var einmitt Kalli sem braut ísinn í gleðskap fyrir busa-ballið. Kalli sem í fyrstu virtist hlédrægur lék á als oddi og klassískur busavandræðagangur var þar með úr sögunni. Jaðarbyggðirnar voru sameinaðar og landið allt.
Við strákar héldum hópinn og völdum okkur allir Eðlisfræði I. Það nám markar mann fyrir lífstíð og nokkra hendir að geta um fátt annað rætt en raungreinar. En það átti alls ekki við um Kalla. Hann var vissulega sterkur á því svellinu og auðvelt var að detta í samræður við hann um tæknimál, forritun eða algóritma ef maður var á þeim buxunum. En Kalli var fyrst og fremst sérstaklega góður náungi sem var gott að vera í kringum. Manni þótti vænt um Kalla og hann gaf frá sér öryggistilfinningu. Hann var ljúfur og brosmildur og tók tilverunni ekki hátíðlega. Hafði góðan húmor fyrir sjálfum sér og okkur hinum og tók undir og gerði góðlátlegt grín að sjálfum sér og öðrum. Alltaf var það vel meint.
Kalli átti ættir að rekja til Fellskots í Biskupstungum. Það gerir og annar undirritaður. Sem sagt tveir úr Tungunum. Og það sem við vorum ánægðir með það! Og að heilsast með „sæll frændi“ og skiptast seinna á kveðjum á samfélagsmiðlum með „til hamingju með daginn frændi“ og „bestu þakkir frændi“. Það er dýrmæt minning.
Eftir útskrift úr menntaskólanum héldum við flest úr bekknum beint í háskóla. En Kalli gekk á vit ævintýranna og flutti til Svíþjóðar. Þar starfaði hann hjá Volvo við ýmis störf í tæpa tvo áratugi og eiginlega hvarf sjónum okkar bekkjarsystkinanna. En svo sneri hann heim til Íslands og skráði sig í tölvunarfræði sem hann kláraði með glæsibrag. Það var gaman að hitta hann og ræða muninn á því að takast á við glímur námsbókanna annars vegar sem ómótaður unglingur og hins vegar sem fullorðin manneskja. Hann gerði góðlátlegt grín að muninum á þeirri námstækni sem ætlast var til að við kynnum í menntaskóla og þeirri sem í raun nýttist þegar reynslan færðist yfir. Og þegar hann var heim kominn kynntist hann konunni sinni og stofnaði með henni fjölskyldu sem hann var mjög stoltur af.
Bekkurinn okkar hefur borið gæfu til að halda hópinn frá útskrift og hittast nokkrum sinnum á ári í seinni tíð. Þegar Kalli sneri til baka var eins og hann hefði aldrei farið. Hann var hinn sami ljúfi og notalegi náungi sem var svo gott að hitta og eyða kvöldstund með. Sami glaðværi maðurinn sem gaf svo af sér. Djúpt skarð er höggvið í þennan hóp. Við munum sakna Kalla sárt.
Fjölskyldu Kalla sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd bekkjarfélaganna úr 6.-Y í útskriftarárgangi MR frá 1988,
Thor Aspelund og Tómas Már
Sigurðsson.