Sigrún fæddist á Álfgeirsvöllum í Skagafirði 15. apríl 1935. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Mörk 30. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Ingileif Guðmundsdóttir, f. 1911 á Sveinseyri við Tálknafjörð, d. 2000, og Jóhann Björn Jónasson, f. 1900 á Álfgeirsvöllum í Skagafirði, d. 1994. Systkini hennar eru Jónas, f. 1938, Guðmundur Sigurður, f. 1942 , Kristín, f. 1947, og Jón, f. 1953.
Sigrún giftist 31. desember 1959 Ævari Karli Ólafssyni, f. 1940 á Akureyri, d. 2012. Foreldrar hans voru Þóra Rósa Franklín Jónasdóttir, f. 1919 á Akureyri, d. 1985, og Ólafur Daníelsson, f. 1905 í Hvallátrum á Breiðafirði, d. 1980.
Börn Sigrúnar og Ævars eru: 1) Ólafur Þór geðlæknir, f. 1958, kona hans er Marta Lárusdóttir, f. 1959. Þeirra börn eru a) Ragnhildur, f. 1986, gift Heiðari Bergmann Sigurjónssyni, f. 1989, og eiga þau tvo drengi. b) Ævar, f. 1989, kvæntur Írisi Öldu Ísleifsdóttir, f. 1988, og eiga þau tvo drengi og eina dóttur. c) Rafnar, f. 1993, sambýliskona hans er Agnes Engilráð Scheving, f. 1994, og eiga þau eina dóttur. d) Sigrún Júlía, f. 2001, kærasti Þórbergur Atli Þórsson, f. 1996. 2) Inga Jóna skrifstofustjóri, f. 1961, eiginmaður hennar er Tryggvi Agnarsson, f. 1958. Börn þeirra eru a) Valgerður, f. 1987, og á hún tvo syni. b) Tómas, f. 1993, sambýliskona hans er Laufey Guðnadóttir, f. 1996. c) Agnar, f. 1998. 3) Jóhann Björn tónlistarmaður og tónlistarkennari, f. 1963, kvæntur Þórhildi Guðmundsdóttir, f. 1974. Börn Jóhanns og Eddu Sigrúnar Guðmundsdóttur, f. 1959, eru: a) Marta Sigrún, f. 1991, eiginmaður hennar er Árni Jakob Ólafsson, f. 1988, og eiga þau tvö börn. b) Daníel Freyr, f. 1992, kvæntur Evu Ingibjörgu Ágústsdóttur, f. 1992, og eiga þau tvær dætur. Börn Jóhanns og Maríu Hrafnsdóttur, f. 1968 eru: c) Soffía Ingibjörg, f. 1996, hún á tvo drengi, og d) Margrét Þórhildur, f. 1997, gift Orra Davíðssyni, f. 1991, og eiga þau tvö börn.
Vegna heilsubrests föður Sigrúnar, en hann veiktist af lömunarveiki þegar hún var ungbarn, flutti fjölskyldan vestur í foreldrahús móður Sigrúnar að Sveinseyri við Tálknafjörð. Þar gekk Sigrún sína skólagöngu, m.a. á Núpi við Dýrafjörð, og vann á stóru heimilinu og við verslun og símavörslu. Þegar hún var um tvítugt flutti fjölskyldan til Akureyrar. Þar kynntist Sigrún manni sínum Ævari Karli og þau stofnuðu heimili í Innbænum. Ung starfaði Sigrún á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, í Útvegsbankanum og í versluninni Amaró. Síðar, eftir að börnin komust á legg, starfaði Sigrún við bókhalds- og skrifstofustörf hjá Niðursuðuverksmiðju Kristjáns Jónssonar og heildverslun Valgarðs Stefánssonar og í mörg ár hjá Tryggingastofnun ríkisins á Akureyri og síðar í Reykjavík en þau Ævar Karl fluttu suður 1988.
Sigrún verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, 7. janúar 2025, klukkan 13.
Við minnumst móður okkar með hlýju og gleði og þökkum henni fyrir allt sem hún kenndi okkur og alla þá ást, umhyggju og þolinmæði sem hún gaf okkur.
Ólafur Þór Ævarsson, Inga Jóna Ævarsdóttir, Jóhann Björn Ævarsson.
Elsku amma mín.
Eins sárt og það er að kveðja þá veit ég að þú ert nú á betri stað, hjá honum Ævari afa. Það er huggun að vita af ykkur saman á ný. Að horfa á þig hverfa smátt og smátt hefur verið erfitt en þú áttir mörg góð ár með þínum sjúkdómi og það verður að þakka fyrir. Til dæmis komstu oft á óvart með að muna hluti sem við héldum að væru gleymdir.
Þakklæti er mér efst í huga núna. Ég er þakklát fyrir að þú hafir náð að hitta strákana mína, þó þeir hafi ekki náð að njóta sömu ömmu og ég kynntist þá lifnaðir þú alltaf við að fá þá í heimsókn og þetta eru samverustundir sem eru ómetanlegar. Sjálf er ég þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu, þinn hlýi faðmur og fallega bros tók ávallt á móti mér.
Ég vil þakka þér fyrir allar samverustundirnar, öll jólin, öll ferðalögin, allar sögurnar og allt þar á milli. Takk fyrir allar næturnar sem ég fékk að gista á dýnunni hjá þér og þú hélst í höndina á mér. Takk fyrir að taka á móti mér og gefa mér cheerios þegar ég strauk úr skólanum og kom heim til þín. Takk fyrir að styðja mig og standa við bakið á mér í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Takk fyrir að taka alltaf á móti mér opnum örmum með ást og hlýju. Þetta eru faðmlög sem ég mun sakna mikið.
Minningarnar eru óteljandi sem ég geymi í hjarta mínu með hlýju og kærleik. Hvíldu í friði elsku amma, ég sakna þín.
Valgerður.
Strax í barnæsku hafði ég mikla aðdáun á ömmu. Hún virtist geta allt. Hvort sem það var matseld, hannyrðir eða annað, hvert einasta verk vann hún óaðfinnanlega.
Margar eru minningarnar og erfitt að velja úr; nýbakaðar, upprúllaðar pönnukökur með bráðnum sykri, dagsferðir á Snæfellsnes á litla jeppanum þeirra afa, laufabrauð á aðventunni með öllum frændsystkinunum. Hún var sannkölluð ættmóðir og hélt vel utan um afkomendahópinn á meðan heilsan leyfði. Hlýja brosið, glaðlegi hláturinn, milda röddin og mjúki faðmurinn. Hjá ömmu var svo gott að vera.
Á fullorðinsárum öðlaðist ég dýpri skilning á seiglu og dugnaði ömmu, ábyrgðinni sem hún hafði borið frá unga aldri og tækifærunum sem hún hafði farið á mis við. Alvarleg veikindi mótuðu æsku og uppvöxt hennar og hún gat ekki menntað sig nema að litlu leyti. Draumur ömmu hafði verið að nema hjúkrunarfræði en svo varð ekki. Henni var margrætt um mikilvægi menntunar og var alla tíð hvetjandi og áhugasöm um skólagöngu okkar barnabarnanna.
Amma var ósérhlífin og kvartaði ekki. Hún var þrautseig, þolinmóð og jákvæð. Hún var fyrirmynd í svo mörgu og ég er þakklát fyrir þau áhrif sem hún hafði á mig og fyrir allt sem hún kenndi mér.
Hvíldu í friði, elsku amma mín.
Þín
Marta Sigrún.
Amma var hlý og glaðlynd kona, með kitlandi hlátur og mjúkt faðmlag sem gat læknað öll sár og mein. Hún var kímin og gantaðist mikið með að hafa alist upp í sundlaug, hallmælti engum og hækkaði ekki róminn, en var engu að síður staðföst og skoðanasterk.
Hún var iðin í eldhúsinu, hafði unun af því að baka og gerði heimsins bestu pönnukökur. Ef laga þurfti flík eða stytta skálmar var amma mætt með nál og tvinna. Hún prjónaði, en aldrei eftir uppskrift, og kenndi mér bæði að prjóna og hekla, vaska upp og leggja kapal. Hún bjó til bláberjasultu úr bláberjum sem hún tíndi sjálf, bakaði randalínur, smákökur og skar út laufabrauð og steikti hver jól. Hún var táknmynd gestrisninnar og bauð alltaf upp á eitthvað gott. Þrátt fyrir að alzheimer hefði nánast eignað sér hana alla gleymdi hún aldrei hvernig ætti að hella upp á kaffi og glataði aldrei glaðværð sinni.
Amma var trúrækin og bar eins langt aftur og ég man samanbrotinn kross um hálsinn í langri keðju. Hún kenndi mér bæði faðirvorið og morgunbæn og sagði mér frá draumi sem hafði staðfest trú hennar á Guð, Jesú og framhaldslíf. Það var ekki annað hægt en að dást að sannfæringu hennar. Hún óttaðist því ekki dauðann og er ég þess viss að hún hafi tekið honum fagnandi þegar hann kom.
Við áttum margar góðar stundir saman og hugsa ég til þeirra með hlýhug og söknuði. Ég telst heppin að hafa átt hana að ömmu.
Guð geymi þig amma mín.
Ragnhildur Ólafsdóttir.
Elsku amma, þín verður sárt saknað en ég er heppinn að eiga með þér margar góðar minningar og á þér mikið að þakka. Þá sérstaklega fyrir að sitja með mér og hjálpa mér að læra heima, en við áttum það sameiginlegt að vera bæði lesblind og þess vegna var þinn stuðningur og skilningur ómetanlegur. Ég á líka eftir að sakna þess að sitja og spjalla við þig um lífið og tilveruna, hvort sem það var um lífið okkar Laufeyjar í Manchester eða þegar við flettum saman í gegnum gömul albúm og þú sagðir mér sögur frá ferðum ykkar afa.
Það eru ómetanlegar minningar sem ég á af því að kíkja í heimsókn til ykkar afa. Það sýnir hvað lífið var gott þegar það erfiðasta var valið á spólu til að horfa á. Svo mikið var til hjá ykkur af gömlu og góðu efni, hvort sem það var Spaugstofan, Stundin okkar eða gömul áramótaskaup. Kvöldin sem standa þó upp úr í dag eru kvöldin sem við Agnar kíktum til þín með pítsu og hlógum mikið saman.
Tómas Tryggvason.
Þegar ég minnist systur minnar Sigrúnar koma margar góðar og ljúfar minningar upp í hugann, sem er gott að gleðjast yfir. Á góðum stundum hin síðari ár höfum við oft setið saman og rifjað upp gamlar minningar og ég hef fengið að heyra frá henni margt skemmtilegt eins og þessi litla saga segir frá.
Systir mín, sem var tólf árum eldri, hafði veikst af mænuveiki, legið lengi mjög veik þegar ég litla systir fæddist, þá varð hún svo glöð og sagði „mamma, ég ætla alltaf að passa hana fyrir þig“ og hún stóð við það. Eins og hún sagði sjálf „lék hún sér við mig og að mér eins og lítilli brúðu“.
Frá þessum tíma er til ákaflega fallegar myndir af okkur sem eru mér afar kærar.
Á þessum árum bjuggum við á Tálknafirði í litlu samfélagi í návist móðurfólks okkar og þar fæddumst við systkinin fjögur en hún var fædd í Skagafirði þaðan sem faðir okkar var ættaður.
Síðan fluttumst við til Akureyrar og þá voru elstu systkinin þrjú orðin fullorðin en umhyggjan fyrir okkur litlu systkinunum tveimur var söm, þar nutum við ástar hennar og væntumþykju. Hún var systir með stórum staf.
Ég var svo lánsöm að geta launað henni að einhverju leyti alla elskusemina með því að passa börnin hennar þrjú, sem hafa verið mér einstaklega góð og elskuleg í gegnum tíðina.
Ég gæti talið upp svo ótal margt sem hún aðstoðaði okkur við. Hún var alltaf tilbúin til að passa börnin okkur þegar þau voru lítil með öllu því umstangi sem því fylgdi.
Það var svo gott að hafa hana með sér í undirbúningi þegar voru fermingar og/eða aðrar veislur, hún var svo rösk og dugleg og það hreinlega lék allt í höndum hennar.
Með þakklæti í huga kveðjum við hana og þökkum henni fyrir allar góðu stundirnar sem við höfum átt með henni öll þessi ár. Megi hún vera Guði geymd og blessuð.
Þín
Kristín og Páll.
Þótt langt geti orðið á milli okkar,
þótt lífið móti okkur á ýmsa vegu,
tengja okkur sterk bönd.
Þú verður alltaf samofin
tilveru minni.
(Pam Brown)
Kæra systir, þú varst kletturinn og tilbúin að aðstoða foreldra okkar þegar veikindi steðjuðu að og við yngri systkinin komum í heiminn eitt af öðru.
Þegar fjölskyldan flutti frá Tálknafirði til Akureyrar 1956 var í mörg horn að líta og ómetanlegt að hafa þig til að aðstoða foreldra okkar og okkur systkinin.
Nú síðari ár þegar þú dvaldir á Hjúkrunarheimilinu Mörk og við Ingibjörg áttum leið til Reykjavíkur litum við ávallt til þín. Ég kyssti þig á vangann og sagði: „Sæl systir mín, hver er nú kominn í heimsókn til þín?“ Þá leist þú upp til mín með þínu geislandi brosi: „Gummi bróðir minn.“
Þetta er ljúf minning um kærleiksríka systur.
Guð vaki yfir þér.
Þinn bróðir,
Guðmundur.
Kveðja frá systkinum í stúkunni Sindra nr. 1571 í Samfrímúrarareglunni Le droit humain:
Okkur systkinum í stúkunni Sindra er ljúft að minnast Sigrúnar Jóhannsdóttur með þakklæti fyrir vel unnin störf í þágu stúkunnar frá því að stúkan var stofnuð 25. apríl 1992 og þar til Sigrún fór að kenna þess meins er dró úr lífsþrótti hennar og getu. Hún var ein af stofnendum stúkunnar Sindra. Störf sín innti hún af hendi af alúð, samviskusemi og nákvæmni. Hún var heiðvirð, farsæl og ljúf en ákveðin kona. Oftar en einu sinni þurftum við að fara yfir bókhald stúkunnar og þá kom nákvæmni hennar og yfirsýn vel í ljós. Sigrún var vel gerð kona og vorum við lánsöm að fá að njóta hennar.
Aðstandendum vottum við innilega samúð okkar.
Blessuð sé minning Sigrúnar Jóhannsdóttur.
Fyrir hönd Sindrasystkina,
Jóhanna Pétursdóttir.
Á þessum tímamótum, þegar við kveðjum Sigrúnu ömmu, langar mig að minnast hennar og Ævars afa.
Þegar við hjónin fluttum til Akureyrar 1981 vorum við svo lánsöm að Ævar Karl Ólafsson var formaður Lúðrasveitar Akureyrar og réð hann Atla sem stjórnanda Lúðrasveitarinnar. Ævar og Sigrún stóðu þá á þeim tímamótum að börnin þeirra voru að flytja að heiman og fara til náms.
Þau tóku okkur því inn á heimili sitt og inn í líf sitt og sögðust bara ættleiða okkur, því þau söknuðu að sjálfsögðu sinna barna.
Þau hafa bæði reynst okkur sem bestu foreldrar upp frá því og verið okkur bakhjarlar með marga hluti. Þegar Bjarni fæddist 1983 og Guðlaugur 1985 kom það af sjálfu sér að strákarnir kölluðu þau ömmu og afa, því þeirra ömmur og afar voru öll annars staðar á landinu.
Amma Sigrún sagði oft að þeir væru elstu barnabörnin sín. Það sannaðist í samskiptum okkar við þessi yndislegu hjón að fjölskyldur þurfa ekki að tengjast blóðböndum til þess að upplifa náin tengsl. Við Atli erum leið yfir því að geta ekki fylgt ömmu Sigrúnu síðasta spölinn.
Við fjölskyldan náðum samt að eiga yndislega stund með henni, Ingu Jónu og Valgerði 20. desember, þar sem strákarnir sungu fyrir hana uppáhaldslög hennar.
Við vottum Ingu Jónu, Tryggva, Ólafi Þór, Mörtu, Jóhanni Birni, Þórhildi og börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum okkar innilegustu samúð frá fjölskyldunum á Tindum á Kjalarnesi. Sigrúnu þökkum við yndislega samfylgd gegnum lífið og vitum að Ævar hefur beðið hennar með opinn faðminn.
Guð blessi minningu yndislegra hjóna.
Halldóra (Dóra) og Atli.