Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur, segir á vef sínum, fullveldi.is, að ástæða sé til að ræða staðreyndir þegar kemur að Evrópusambandinu.
Ein staðreyndin sé sú að „vægi ríkja í stofnunum Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Því fámennari, því minna vægi. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið myndi landið fá sex þingmenn á þingi þess af um 720 eins og staðan er í dag sem væri á við hálfan þingmann á Alþingi. Staðan væri enn verri í ráðherraráði Evrópusambandsins, valdamestu stofnun þess, þar sem vægi Íslands yrði á við að eiga aðeins 5% hlutdeild í alþingismanni.“
Önnur staðreynd sem Hjörtur nefnir er að yfirþjóðlegt vald ESB yfir langflestum málaflokkum sé neglt niður í Lissabon-sáttmálanum. „Þar á meðal til dæmis í sjávarútvegs- og orkumálum sem skipta okkur Íslendinga miklu. Fram kemur enn fremur skýrt í sáttmálanum að fyrir vikið séu valdheimildir ríkjanna ávallt víkjandi gagnvart valdi sambandsins.“
Þá bendir hann á að hugtakið samningaviðræður sé ekki lýsandi fyrir umsóknarferlið að ESB. Sambandið hafi sjálft gefið það út að „notkun hugtaksins í þessum efnum geti verið villandi þar sem viðræðurnar snúist aðeins um það hvernig og hvenær ríki aðlagaðist því en ekki hvort“.