[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rafíþróttamaðurinn Alfreð Leó Svansson og knattspyrnukonan Sandra María Jessen voru í gær útnefnd íþróttafólk ársins 2024 hjá Þór á Akureyri, á verðlaunahátíð félagsins í Hamri

Rafíþróttamaðurinn Alfreð Leó Svansson og knattspyrnukonan Sandra María Jessen voru í gær útnefnd íþróttafólk ársins 2024 hjá Þór á Akureyri, á verðlaunahátíð félagsins í Hamri. Alfreð var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Þórs í Counter Strike og Sandra var markadrottning og besti leikmaður Bestu deildar kvenna árið 2024.

Markvörðurinn Matea Lonac átti stórleik í marki KA/Þórs í gærkvöld þegar liðið sigraði varalið Fram, 29:21, í 1. deild kvenna í handknattleik í Úlfarsárdal í Reykjavík. Matea varði 21 skot í leiknum. Aþena Einvarðsdóttir og Susanne Petersen skoruðu sex mörk hvor fyrir Akureyrarliðið sem náði með sigrinum fjögurra stiga forystu í deildinni.

Íþróttasamband fatlaðra hefur framlengt samning sinn við sundþjálfarann Ragnar Friðbjarnarson um að hann verði landsliðsþjálfari ÍF til og með Paralympics í Los Angeles árið 2028. Ragnar hefur stýrt landsliði Íslands í sundi í fjögur ár og fór með sundhópinn á Paralympics í París síðasta sumar þar sem allir fjórir íslensku keppendurnir komust í úrslit í sínum greinum.

Knattspyrnumaðurinn Hrafn Guðmundsson, sem var í röðum KR á síðasta ári, hefur samið við Stjörnuna til þriggja ára. Hrafn, sem verður 19 ára í febrúar, kom til KR frá Aftureldingu en lék aðeins fjóra leiki með liðinu í Bestu deildinni.

Dika Mem, einn besti handboltamaður heims, er tilbúinn í slaginn með Frökkum á heimsmeistaramótinu sem hefst 14. janúar. Tvísýnt var um þátttöku hans þar vegna meiðsla en félag hans, Barcelona, gaf í gær grænt ljós á að hann tæki þátt á HM.

Enska úrvalsdeildarfélagið Ipswich hefur fengið knattspyrnumanninn Ben Godfrey lánaðan frá Atalanta á Ítalíu. Godfrey fór þangað frá Everton í sumar en hefur misst mikið úr vegna meiðsla og ekki náð að festa sig í sessi. Hann ætti að nýtast nýliðum Ipswich vel í harðri fallbaráttu úrvalsdeildarinnar.

Knattspyrnumarkvörðurinn Manuel Neuer mun leika að minnsta kosti eitt tímabil enn með Bayern München en hann hefur varið mark þýska stórliðsins í 14 ár. Neuer er 38 ára gamall og hefur unnið 18 stóra titla með Bayern, þar af Meistaradeild Evrópu tvisvar, ásamt því að verða heimsmeistari með Þjóðverjum árið 2014.

Útlit er fyrir að Gísli Gottskálk Þórðarson, knattspyrnumaðurinn efnilegi í Víkingi, verði seldur til pólska toppliðsins Lech Poznan. Samkvæmt fótbolti.net hafa Pólverjarnir gert Víkingum nýtt tilboð í hann en áður höfðu Víkingar hafnað tilboðum í Gísla frá pólsku liðunum Lech og Raków. Pólski fjölmiðillinn Przeglad Sportowy sagði á dögunum að Víkingar vildu fá 500 til 600 þúsund evrur fyrir hann.