Tímamót Einhverjir munu kveðja formanninn með nokkrum trega.
Tímamót Einhverjir munu kveðja formanninn með nokkrum trega. — Morgunblaðið/Eggert
Sjálfstæðismenn brugðust í gær við fregnum af ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að láta af þingmennsku og gefa ekki kost á sér til formennsku að nýju. Þökkuðu þeir Bjarna fyrir vel unnin störf í þágu flokksins og lýstu margir hverjir blendnum tilfinningum vegna ákvörðunarinnar

Sjálfstæðismenn brugðust í gær við fregnum af ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að láta af þingmennsku og gefa ekki kost á sér til formennsku að nýju. Þökkuðu þeir Bjarna fyrir vel unnin störf í þágu flokksins og lýstu margir hverjir blendnum tilfinningum vegna ákvörðunarinnar. Er ljóst að margir munu kveðja formanninn með nokkrum trega.

Jón Gunnarsson, fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, tekur sæti á Alþingi þegar Bjarni hætti á þingi. Sagði Jón það þó síður en svo gleðiefni að taka við þingsætinu undir kringumstæðum sem þessum. Bjarni væri yfirburðamaður á þingi og mikil eftirsjá væri að honum. Kvaðst Jón ekki sjálfur hafa leitt hugann að því að bjóða sig fram í forystusætið.

Sagði Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður sér og öðrum hafa brugðið við fregnirnar af Bjarna, sér í lagi að hann hygðist ekki taka þingsæti. Nokkur tár hafi verið felld á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í gær er Bjarni greindi samflokksmönnum sínum frá ákvörðuninni enda um að ræða síðasta þingflokksfund eins stærsta máttarstólpa íslenskra stjórnmála. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa leitt hugann að formennskunni.

„Ég mun sakna hans gríðarlega mikið. Hann er framúrskarandi stjórnmálamaður og hans verður saknað.“

Þórdís tilbúin að taka við

Aðspurður kvaðst Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður, ekki vera búinn að taka ákvörðun um formannsframboð en sagði fráhvarf Bjarna úr íslenskum stjórnmálum stórtíðindi enda einn öflugasti stjórnmálamaður Íslands.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður flokksins sagði ákvörðunina mikil tímamót, ekki einungis fyrir Bjarna persónulega, heldur fyrir flokkinn allan og íslensk stjórnmál. Spurð hvort henni hugnaðist að taka við formennskunni sagði Þórdís daginn fyrst og fremst eiga að snúast um Bjarna. Hún hefði þó margoft sagt að hún væri ekki í forystu flokksins nema hún væri tilbúin og klár til að leiða flokkinn inn í framtíðina. idunn@mbl.is