Þorgeir Eyjólfsson og Helgi Örn Viggósson
Að hundruð Íslendinga eigi við alvarlegar aukaverkanir af völdum mRNA-bóluefnanna að stríða og að fjöldi landsmanna hafi mætt ótímabærum dauðdaga í embættistíð Ölmu Möller fráfarandi landlæknis er órækur vitnisburður þess að landlækni hefur í mörgu mistekist að stuðla að heilbrigði landsmanna eins og lögin um starf hennar sem landlæknis kveða á um.
Eftirfarandi upptalning er hvergi nærri tæmandi yfir mistök landlæknis frá áramótum 2021/2022 þegar bólusetningar við covid-19 hófust:
1. Strax á fyrstu dögum bólusetninga létust nokkrir einstaklingar í kjölfar bólusetninga og því var hættan á alvarlegum aukaverkunum bóluefnanna landlækni ljós frá upphafi. Jafnframt mátti landlækni vera fljótlega ljóst að bóluefnin komu ekki í veg fyrir smit til eða frá bólusettum einstaklingi og þar af leiðandi væri fullyrðing Pfizer um 95% virkni mRNA-bóluefnisins villandi eða beinlínis röng. Ekki varð vart tilburða af hálfu heilbrigðisyfirvalda til að upplýsa almenning um að bóluefnin veittu enga vörn gegn smiti eða hættuna á alvarlegum aukaverkunum sem vart varð strax í upphafi. Upplýst samþykki var virt að vettugi af landlækni.
2. Ekki er vitað hvort hafin er opinber rannsókn á embættisverkum landlæknis vorið 2022 þegar dauðsföllum landsmanna fjölgaði mikið. Fréttatilkynningar landlæknis rekja atburðarásina. Í tilkynningu frá í mars telur Þórólfur Guðnason þáverandi sóttvarnalæknir ástæðu til að áminna lækna um að „aðeins þau andlát sem læknar meta að covid-19 hafi valdið, stuðlað að eða einhvern hátt átt þátt í andlátinu eigi að tilkynna til sóttvarnalæknis“. Ljóst er af orðalagi Þórólfs að læknar voru farnir að senda inn tilkynningar um dauðsföll af völdum covid-19-bóluefnanna til sóttvarnalæknis. Önnur frétt var send frá embætti landlæknis 28.4. 2022 og var tilefnið að „talsverð umræða er í fjölmiðlum um fjölgun andláta á fyrsta fjórðungi þessa árs miðað við undanfarin ár og látið að því liggja að covid-19-faraldrinum sé um að kenna“. Ljóst er af orðalaginu að Þórólfur telur covid-19-sjúkdóminn ekki orsök dauðsfallanna. Þórólfur er í lok apríl ekki sáttur við að skrá dánarorsakir óviðkomandi covid-19 sem væru þær af völdum sjúkdómsins. Ljóst er af lestri tilkynninga Þórólfs að ágreiningur er milli hans og landlæknis um hvernig skrá eigi orsakir dauðsfallanna. Hálfum mánuði eftir frétt sóttvarnalæknis um að dauðsföllin séu ranglega talin af völdum covid-19 gefur landlæknir út fréttatilkynningu 12.5. 2022 þar sem greint er frá „formlegri“ uppsögn sóttvarnalæknis af persónulegum og faglegum ástæðum. Starfslok Þórólfs skýrast af því að hann var ekki tilbúinn að taka þátt í blekkingarleik landlæknis sem nú fór í hönd og stendur enn. Sem er að bóka dauðsföll af völdum mRNA-bóluefnanna sem væru þau af völdum covid-19. Fjórum dögum eftir að Þórólfur sagði starfi sínu lausu birtist þriðja fréttin á stuttum tíma með fyrirsögninni „Andlát á Íslandi af völdum covid-19“ þar sem greint var frá að við yfirferð dánarvottorða hefðu fundist 53 dauðsföll vegna covid-19 sem ekki var getið í frétt sóttvarnalæknis 28.4.
3. Landlæknir hefur ekki komist hjá að verða vör við niðurstöður fjölda ritrýndra rannsókna sem sýna fram á skaðsemi efnanna á hjarta- og æðakerfi. Eða rannsókna sem staðfesta mengun mRNA-bóluefnis Pfizer af E-coli DNA-plasmíði og SV40-prómóter-krabbameinsvakanum. Landlækni er kunnugt um hátt hlutfall umframdauðsfalla á Íslandi sem ekki verða skýrð án bóluefnanna. Landlæknir þekkir tölur úr eigin dánarmeinaskrá sem sýna 8% fjölgun dauðsfalla á árunum 2022 og 2023 af völdum illvígs krabbameins. Landlæknir þekkir til skaðans af völdum bóluefnanna á æxlunarfæri landsmanna sem leitt hefur til fækkunar fæðinga svo fátt eitt sé nefnt um skaðsemi mRNA-efnanna.
4. Þrátt fyrir að landlækni væri fullkunnugt um að börn gætu ekki haft neinn ávinning af sprautunum, aðeins töluverða áhættu, keyrði embættið áróðursherferð til að fá sem flesta foreldra til að láta sprauta börnin sín með þessum hættulegu efnum.
5. Landlækni er kunnugt um að Pfizer rangfærði niðurstöður klínískra rannsókna til að fá neyðarleyfi eftirlitsaðila mRNA-efninu til handa eins og skýrt kemur fram í skjölum sem urðu til í klínískum tilraunum fyrirtækisins. Henni er kunnugt um málshöfðanir fimm ríkja Bandaríkjanna á hendur Pfizer vegna mRNA-efnisins.
6. Landlækni er kunnugt um ákall fremstu vísindamanna á heilbrigðissviði til yfirvalda víða um lönd um endurskoðun á notkun mRNA-bóluefnanna vegna staðfests skaða sem af notkun þeirra hefur hlotist.
7. Í skýrslu OECD kom fram að Ísland hafði annað hæsta hlutfall dauðsfalla í Evrópu í aldurshópnum 44 ára og yngri á árunum 2020 til 2022 að teknu tilliti til lýðfræðilegra þátta og að Ísland leiddi löndin í könnun OECD með 11,5% aukningu á dánartíðni á milli áranna 2021 og 2022 á sama tíma og flest lönd sýndu fækkun dauðsfalla. Skýrslan er því ekki vitnisburður um árangursríkar sóttvarnaaðgerðir eftir tilkomu bóluefnanna eins og núverandi sóttvarnalæknir hefur haldið fram.
Ofangreind upptalning er hvergi nærri tæmandi en hefði átt að duga fyrrverandi landlækni fyrir misserum sem röksemd fyrir tímabundinni stöðvun á notkun mRNA-bóluefnis Pfizer þar til gengið hefði verið úr skugga um öryggi efnisins. Að örvunarbólusetningar gegn covid séu enn auglýstar bendir ekki til að fyrrverandi landlæknir hafi þann sveigjanleika í hugsun sem ætlast þarf til af þeim sem tekst á við embætti heilbrigðisráðherra vilji hann hafa heilbrigði landsmanna í fyrirrúmi.
Þorgeir er eftirlaunaþegi og Helgi Örn er hugbúnaðarsérfræðingur.