Bókin Tónar útlaganna eftir Árna Heimi Ingólfsson, sem fjallar um tónlistarmennina Róbert Abraham Ottósson, Heinz Edelstein og Victor Urbancic og framlag þeirra til tónlistar á Íslandi, kom í upphafi árs út á ensku hjá bandaríska forlaginu SUNY Press

Bókin Tónar útlaganna eftir Árna Heimi Ingólfsson, sem fjallar um tónlistarmennina Róbert Abraham Ottósson, Heinz Edelstein og Victor Urbancic og framlag þeirra til tónlistar á Íslandi, kom í upphafi árs út á ensku hjá bandaríska forlaginu SUNY Press. „Ég áttaði mig á því snemma í ferlinu að hér væri efni sem vakti mikinn áhuga og forvitni á erlendri grundu. Undanfarin ár hafa verið skrifaðar allmargar bækur um tónlistarmenn sem flúðu nasismann og fóru til tiltekinna landa, auk þess sem fjöldi bóka er til um þá sem fóru til Bandaríkjanna og Bretlands. Ég hef fundið fyrir mikilli forvitni um það hvernig þessir merku tónlistarmenn lögðu grunninn að hinu blómlega íslenska tónlistarlífi,“ segir Árni Heimir. Fjallað verður um útgáfu bókarinnar á BBC3 27. janúar, en þann dag er þess minnst að 80 ár eru liðin frá því að sovéskir hermenn frelsuðu fangana í útrýmingarbúðunum í Auschwitz í Póllandi.