Vöruflutningar Kolefnisgjald á vöruflutninga hækkar verðlag.
Vöruflutningar Kolefnisgjald á vöruflutninga hækkar verðlag. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi fallið frá setningu laga um kílómetragjald um áramótin eru Eimskip og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) þeirrar skoðunar að 59% hækkun á kolefnisgjaldi sem haldið var til streitu, til að mynda á gáma- og strandsiglingar, muni leiða til aukins kostnaðar fyrir neytendur

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi fallið frá setningu laga um kílómetragjald um áramótin eru Eimskip og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) þeirrar skoðunar að 59% hækkun á kolefnisgjaldi sem haldið var til streitu, til að mynda á gáma- og strandsiglingar, muni leiða til aukins kostnaðar fyrir neytendur. Gjaldið leiði til hærra vöruverðs, einkum gagnvart íbúum landsbyggðarinnar.

Fram kemur í umsögn Eimskips við frumvarpið að seljendur olíu innheimti kolefnisgjald fyrir skip sem ekki eru í millilandasiglingum sbr. skipið Selfoss sem Eimskip rekur sem strandflutningaskip við Ísland.

Gagnrýnt hefur verið að í frumvarpinu laumi stjórnvöld inn verulegri hækkun á kolefnisgjaldi með því að tengja það við viðskiptakerfi Evrópusambandsins (ESB). Með nýlega settum lögum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir höfðu verið settar á kvaðir um greiðslu losunarheimilda af sjóflutningum innan ESB og Evrópska efnahagssvæðisins, því verði ekki betur séð en að gjaldið feli í sér tvöfalda skattlagningu á strandflutninga við Ísland.

Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri SVÞ segir að kolefnisgjaldið hafi beinlínis þann tilgang að hækka verð á eldsneyti.

„Frumvarpið um kílómetragjald, sem innihélt einnig breytingar á ýmsum gjöldum, gerði ráð fyrir að fella niður olíugjald og vörugjöld á bensíni. Í staðinn átti að koma kílómetragjald og svo átti kolefnisgjaldið að hækka um rúm 100%,“ segir Benedikt í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að stjórnvöld hafi fallið frá þessu og í staðinn hafi kolefnisgjaldið verið hækkað um 59%, sem vekur þá spurningu hvort slíkt fyrirkomulag sé eðlilegt fyrir flutningsfyrirtæki.

„Niðurstaðan var að hækka kolefnisgjaldið. Strandsiglingar eru tvískattlagðar þar sem fyrirtækjum er gert að kaupa svokallaðar ETS-losunarheimildir ESB, ásamt því að greiða hærra kolefnisgjald en áður. Það er raunhæf spurning hvort eðlilegt sé að menn greiði bæði kolefnisgjald og þurfi að kaupa ETS-heimildir,“ segir Benedikt.

Aðspurður telur hann að gjaldið muni hækka kostnað á vörum og þar af leiðandi hafa áhrif á vísitölu neysluverðs og verðbólgu til hækkunar.

„Óbeinir skattar hafa tilhneigingu til þess að rata út í verðlag. Það er meira að segja þannig að kolefnisgjaldið hefur þann tilgang að fara út í verðlag. Upphaflegt markmið með gjaldinu var að senda kaupendum jarðefnaeldsneytis það merki að það væri óhagstætt að nýta jarðefnaeldsneyti og nýta þess í stað aðra grænni orkugjafa. Það er staðreynd að slíkir orkugjafar eru ekki til fyrir skip,“ segir Benedikt.