Asger Jorn (1914-1973) Tron II, 1937 Olía á striga, 94,5 x 68,5 cm
Asger Jorn (1914-1973) Tron II, 1937 Olía á striga, 94,5 x 68,5 cm
Danski listamaðurinn Asger Jorn og myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson kynntust í Kaupmannahöfn árið 1937 og urðu fljótlega samherjar í listinni og síðar, á hernámsárunum, í dönsku andspyrnuhreyfingunni

Danski listamaðurinn Asger Jorn og myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson kynntust í Kaupmannahöfn árið 1937 og urðu fljótlega samherjar í listinni og síðar, á hernámsárunum, í dönsku andspyrnuhreyfingunni. Jorn hafði numið hjá franska listamanninum Fernand Léger og verkið Tron II, unnið í París, vottar um sterk áhrif frá Léger.

Myndmál verksins einkennist af samslætti lífrænna eða „bíómorfískra“ forma sem fljóta á bláum grunni, eins og í lausu lofti. Fimm ílöng form, sem minna í senn á líkama og trjávið, liggja samsíða lóðrétt á myndfletinum en umhverfis þau eru smærri, óræð form sem ýta undir þrívíddarvirkni verksins og ráðgátukennt myndmálið. Eins og fleiri verk Jorns á þessum árum minnir Tron II á þau myndverk Légers frá ofanverðum þriðja áratugnum þar sem helst gætir súrrealisma í órökrænum tengslum forma á mörkum hins óhlutbundna, svífandi í tómarúmi.

Jorn varð, ásamt Sigurjóni og fleirum, virkur þátttakandi í hreyfingu róttækra listamanna í Danmörku sem fengust við súrrealisma og abstraktmyndlist. Þeir sýndu saman á mikilvægum sýningum í Kaupmannahöfn og einhverju sinni færði Jorn kollega sínum Sigurjóni verkið Tron II að gjöf. Á þessum árum þróaði Jorn svo fljótlega verk sem einkenndust af mun frjálslegra formi og tjáningarkrafti. Að heimsstyrjöld lokinni fluttist Sigurjón heim til Íslands og þar færði hann Guðna bróður sínum verkið.

Við andlát hans árið 1976 sá Sigurjón til þess að verkið fylgdi dánargjöf sem Guðni hafði ánafnað Listasafni Íslands. Við þetta eignaðist Listasafnið sjötta verkið eftir Jorn en áður hafði það keypt fimm grafíkverk í tengslum við heimsókn listamannsins til Íslands sumarið 1967. Jorn hafði þá gefið Félagi íslenskra myndlistarmanna grafíkverkin til fjáröflunar fyrir sýningarhúsnæði og Sigurjón svo haft milligöngu um kaup Listasafnsins á verkunum.

Ágóðinn rann til fjármögnunar á byggingu Kjarvalsstaða á Klambratúni – sem er fyrsta sérhannaða hús fyrir myndlistarsýningar á Íslandi. Húsið var vígt á dánarári Asgers Jorns, 1973. Níu árum síðar var haldin sýning á grafíkmyndum Jorns í Listasafni Íslands, sem hafði þá keypt eitt verk til viðbótar eftir þennan merka listamann.