Hilma Magnúsdóttir fæddist 29. apríl 1931 á Bakka I í Skeggjastaðahreppi, N-Múlasýslu. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu á Vífilsstöðum 7. desember 2024.

Foreldrar hennar voru þau Járnbrá N. Friðriksdóttir, f. 1907, d. 1991, og Magnús Valdimarsson, f. 1892, d. 1960.

Systkini hennar eru Erla, f. 1932, látin, Ragna, f. 1936, látin, Ásta, f. 1943, og Sverrir f. 1950.

Hilma nam hjúkrun og starfaði á sjúkrahúsum hér á landi, en einnig í Danmörku og Noregi. Hún sérhæfði sig í röntgentækni og vann lengst af á röntgendeild Landakotsspítala.

Eftirlifandi maki Hilmu er Björn Karlsson, f. 1936. Þeim varð ekki barna auðið.

Útförin fer fram frá Garðakirkju í dag, 9. janúar 2025, kl. 13.

Hilma Magnúsdóttir, systir mín, er látin eftir langvinn veikindi. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu á Vífilsstöðum þann 7. desember sl. Hilma var elst af okkur systkinunum og höfuð fjölskyldunnar ef svo má segja. Ég bjó hjá henni og Birni Karlssyni mági mínum á unglingsárunum og fram yfir tvítugt. Hjá þeim hjónum átti ég góða vist og komst til manns.

Hilma var hjúkrunarkona og starfaði á ýmsum sjúkrahúsum hérlendis og erlendis. Síðar sérhæfði hún sig í röntgenhjúkrunarfræði og vann hún lengst af á Landakotsspítala. Hilma var heimsborgari og hafði unun af ferðalögum. Þau hjónin ferðuðust víða og hún drakk í sig menningu og siði fjarlægra landa. Þau hjónin voru miklir listunnendur, sóttu málverkasýningar og söfnuðu listaverkum. Hún var einnig mikill unnandi klassískrar tónlistar, þá sér í lagi óperutónlistar.

Hilma var ákveðinn og sterkur persónuleiki og lá ekki á skoðunum sínum ef svo bar undir. En hún var réttlát og góð manneskja og til hennar var ætíð gott að leita. Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en hins vegar reyndist hún einstök amma barnanna okkar Margrétar og barnabarnanna þegar þau komu í heiminn hvert af öðru. Fyrir það erum við óendanlega þakklát.

Ég votta Birni, mági mínum og vini, mína dýpstu samúð.

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fira;

drottinn minn

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum)

Kæra systir, ég kveð þig með dýpstu virðingu og þökk fyrir allt.

Sverrir.

Takk fyrir allt elsku besta Hilma frænka.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem
sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ástarkveðja,

Sigrún Tinna, Margrét Ásta, Ísold María og Sverrir Steinn.

Margs er að minnast, margs er að sakna og margt er að þakka. Þessi orð fanga hugsanir okkar systkina og líðan þegar við minnumst einstakrar frænku, hennar Hilmu frænku.

Það var alltaf mikill spenningur í aftursætinu á bílnum þegar fjölskyldan úr sveitinni var á leiðinni í heimsókn á Smáraflötina. Að fara til Hilmu og Bjössa var fyrir okkur systkinin eins og heimsókn til ömmu og afa í Garðabæ. Stuðningurinn, áhuginn og hlýjan frá Hilmu frænku var alltaf til staðar, sama hvað gekk á gátum við alltaf stólað á hana. Hilma frænka var alltaf tilbúin til þess að gefa sér tíma fyrir okkur, hún var víðsýn og fróð og það var gott að ræða við hana um allt milli himins og jarðar. Samtölin okkar voru okkur dýrmæt og við eigum margar fallegar minningar um stundirnar sem við áttum með henni. Seinna þegar börnin okkar komu til sögunnar voru þau undur veraldar í augum Hilmu og að fara í pössun til hennar var eitthvað alveg sérstakt í þeirra huga. Þar var allt í boði, sögur, leikur og allur uppáhaldsmaturinn þeirra dreginn fram. Hilma frænka var mesta hörkutólið í fjölskyldunni og þrátt fyrir mikil veikindi vildi hún aldrei láta á neinu bera og tók hún heimsóknum okkar ávallt fagnandi.

Hilma þú varst einstök fyrir okkur öll og minningin um yndislega frænku lifir með okkur. Sjáumst aftur í sumarlandinu.

Elísabet og Björn Magnús.